12.10.1934
Efri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Flm. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi leyft mér að flytja þetta frv. á þskj. 49, sem er breyt. á ritsíma- og talsímalögunum. Ég flutti á síðasta þingi brtt. sama efnis, og mættu þær velvild í þessari hv. d. og sömuleiðis í hv. Nd. Að vísu var bætt við nokkrum fleiri brtt., sem virtist, að þingið mundi hallast að, og má búast við, að svo fari einnig í þetta skipti.

Þessar brtt. eru sumpart um færslu á línum og sumpart um byggingu nýrra lína.

Fyrsta brtt. er ein af þeim, sem ég flutti á síðasta þingi um línu frá Skálanesi við Seyðisfjörð að Dalatanga. Hér er farið fram á, að í stað þess að línan verði lögð frá Skálanesi yfir Dalaskarð, þá verði hún lögð frá Brekku í Mjóafirði um Rima, Hof og Eldleysu að Dalatanga. Munurinn á þessu er sá, að línan frá Skálanesi liggur yfir háan fjallgarð, það háan, að leggja verður jarðsíma yfir hæsta fjallið, en hin línan liggur að öllu leyti í byggð og meðfram sjó. Að vísu er það svo, að leiðin frá Brekku til Dalatanga er 3—4 km. lengri en hin leiðin. Þó mun tæplega verða svo mikill munur ef horfið verður að þessu ráði, sem landsímastjóri hefir talið rétt, að leggja línuna frá Bæjarstæði, en ekki frá Skálanesi.

Það má telja, að mismunur á lengd leiðanna sé um 21/3—3 km. Aftur ætti það að vinnast upp vegna þess, að flutningur á efni yrði miklu ódýrari frá Brekku. Þetta allt geri ég ráð fyrir, að þeim hv. þdm., sem hér áttu sæti á síðasta þingi, sé kunnugt. Ég vil því vænta þess, að hv. d. taki þessari brtt. á sama hátt og á síðasta þingi.

Þá koma 3 nýjar línur, sem ég fer fram á, að lagðar verði.

Það er þá fyrst lína frá Neskaupstað um Sveinsstaði, Viðfjörð og Stuðla til Sandvíkur, og var gerð grein fyrir henni á síðasta þingi bæði í grg. fyrir frv. og svo við umr., og þar sem d. féllst þá á þessa brtt., sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um hana frekar.

Þá hefi ég leyft mér að koma fram með tvær nýjar línur, sem ekki voru í frv. í fyrra. Önnur er frá Búðum í Fáskrúðsfirði til Hafnarness. Á Hafnarnesi er fjölmenn veiðistöð, sú fjölmennasta við Fáskrúðsfjörð. Þarna er að vísu lína fyrir, en það er einkalína. Þessi brtt., sem hér er flutt, er um það, að landssíminn kaupi þessa línu upp í símalögnina. Þessari línu mætti koma miklu betur fyrir. Það er þráður alla leið frá Búðum til Hafnarness, en línan liggur samhliða símanum mestalla leiðina til Víkur, og með því að setja skiptistöð í Vík, sem ekki kostar mikið, mætti stytta þráðinn talsvert. Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. sjái, að þetta er sanngjarnt.

Þá er í fjórða og síðasta lagi farið fram á, að lína verði lögð frá Geirólfsstöðum í Skriðdal að Arnhólsstöðum. Um þessa línu verð ég að fara nokkrum orðum, af því að það er alveg ný till., og finn ég ástæðu til að skýra frá, hvers vegna ég flyt hana.

Þessi vegalengd er stutt, mun vera eitthvað um 5—6 km. Ég get búizt við, að margur hugsi, að það sé spursmál, hvort ástæða sé til að leggja þessa línu, þar sem ekki er um meiri vegalengd að ræða. En þannig stendur á, að þessi sveit, Skriðdalurinn, er klofinn af vatnsfalli, sem er erfitt yfirferðar, Grímsá, sem margir hinir eldri þm. munu kannast við, því að hún er nokkuð sérstæð í sinni röð fyrir að hafa í seinni tíð tekið einna flest mannslíf af öllum vatnsföllum á Íslandi. Nú er að vísu búið að brúa hana, en í öðrum hreppi, svo það kemur Skriðdælum ekki til nota með samgöngur innanhéraðs. Þannig stendur á, að Geirólfsstaðir eru að vestanverðu við ána utarlega í dalnum, en Arnhólsstaðir austanmegin árinnar, h. u. b. í miðjum dalnum.

Til þess að komast í símasamband, verða allir Skriðdælir að sækja að Arnhólsstöðum, en oft kemur fyrir, að áin er ófær í fleiri daga í röð, og þá eru allir þeir, sem búa austanmegin árinnar, algerlega sviptir símasambandi. Næsta stöð er þá Egilsstaðir, en þangað er um 30 km.

Ég fer því fram á, að þessari stuttu línu verði bætt við, til þess að koma öllum Skriðdælum í hagkvæmara símasamband en þeir hafa nú.

Ég vonast eftir, að þessi brtt. mæti fullkominni velvild hv. d. Væri svo að öðru leyti eitthvað, sem sú n., er fær málið til meðferðar, óskaði að fá upplýsingar um, er ég fús til að veita þær.

Legg ég svo til, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til samgmn.