14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

58. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég lít svo á, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé eitt af þýðingarmestu málum fyrir bændastétt landsins, sem fyrir þessu þingi liggja, og má það undarlegt heita, þar sem ekki er hér um stórmál að ræða. Grundvöllurinn fyrir því, að svo er, felst í því, að það hefir komið í ljós, sem var enda fyrirfram sjáanlegt, að horfa mundi til stórvandræða, þegar farið væri að gera upp eftirgjafir á ábyrgðarskuldum bænda samkv. þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru í sambandi við skuldauppgerð bænda. Eins og ákvæðið um þetta er í núgildandi lögum verkar það bæði á þann hátt að draga stórlega niður þá menn, sem einhverra hluta vegna ætla sér ekki að leita hjálpar af þessum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, og jafnframt, að lánin, sem lántakendur fá, tryggja þeim ekki þá hjálp, sem ætti að vera. Og það er af þeim sökum, að allir samvizkusamir menn berjast við það í lengstu lög að borga eftirgjafir á ábyrgðarskuldum til hins ýtrasta. Þess vegna er það mikil nauðsyn frá sjónarmiði mínu og landbn., að mál þetta verði afgr. frá þessu þingi. En eins og menn sjálfsagt hafa tekið eftir í nál. landbn., hefir hún viljað láta í ljós þá skoðun sína, að þeir menn eigi að sitja fyrir þeirri hjálp, sem hér um ræðir, er lakasta hafa lífsaðstöðuna, — að upphæðinni, sem hér er farið fram á að veita, sé varið á þann hátt að koma í veg fyrir röskun á atvinnu þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. — En sannleikurinn er sá, að sú upphæð, sem hér er til tekin, er of lág til þess að koma að fullu gagni í þessu efni, en hlýtur þó að verða til stórra bóta frá því, sem nú er, og sníða af verstu annmarkana hvað ábyrgðum við kemur.

Einn nm., hv. 2. þm. N.-M., skrifaði undir nál. með fyrirvara, og mun hann sennilega gera grein fyrir, í hverju sá fyrirvari felst. En við vildum afgr. málið án brtt., til þess að það þyrfti ekki að ganga til hv. Ed. aftur, og hafa það nokkurnveginn tryggt, að það yrði samþ. í því formi, sem það nú er í, þrátt fyrir það, þó að sumra áliti veiti það ekki fullnægjandi úrlausn. Ég vil því f. h. landbn. mælast til, að hv. dm. samþ. frv. eins og það liggur fyrir.