14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

150. mál, fiskimálanefnd

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki blanda mér í þær deilur, sem fram hafa farið hér á milli frsm. meiri hl. og minni hl. Það er áreiðanlega engin þörf á því fyrir mig að hlaupa í skörðin fyrir hv. frsm. minni hl. Hann er þaulkunnugur þessum málum, og sennilega langkunnugastur þeim og gangi þeirra af öllum þeim hv. þm., sem sæti eiga í þessari d.

Ég mun þess vegna með hliðsjón af þeim umr., sem hér hafa farið fram, minnast aðallega á aðalatriði þessa máls, aðallínur þess. Hæstv. atvmrh. gat um það í sinni ræðu, að í þessu frv. væri eiginlega um

atriði að ræða. Þetta er alveg rétt. Þetta mál, eins og frá því er gengið í þessu frv., er algerlega tvíþætt, og þó að þessir þættir báðir snerti að vísu sama málið, þ. e. a. s. fisksöluna, þá eru þeir þó í raun og veru talsvert ólíkir. Annarsvegar eru þær ráðstafanir, sem gerðar eru viðvíkjandi hinni venjulegu fisksölu, og hinsvegar eru þær ráðstafanir, sem miklu minna ber á í frv. og miða að því að breyta til í þessum atvinnuvegi, sem miða að öflun nýrra markaða og yfirleitt að því að brjóta nýjar brautir í þessu efni. Þetta stendur í sambandi við, sem einnig kom fram í ræðu hæstv. atvmrh. — og kenndi í því sambandi, að mér fannst, dálítils útúrsnúnings á ræðu hv. frsm. minni hl. —, að erfiðleikarnir, sem hér um ræðir, eru algerlega tvennskonar. Og þegar hæstv. atvmrh. segir, að hv. frsm. minni hl. hafi sagt, að hér væru engir erfiðleikar hvað þetta snertir, þá stafar það af því, að hér er um tvennskonar erfiðleika að ræða. Ég man nú að vísu ekki, hvort hv. frsm. minni hl. orðaði þetta svo, en það má vel vera, að hann hafi sagt, að sú almenna fiskverzlun hafi gengið vel, og þeir erfiðleikar væru ekki fyrir hendi á því sviði, sem réttlættu slíka löggjöf sem þessa. En erfiðleikarnir eru algerlega tvennskonar. Annarsvegar eru hinir almennu erfiðleikar, sem fylgja því yfirleitt, að selja svona mikla framleiðsluvöru eins og fiskurinn er, og hinsvegar eru svo þeir sérstöku erfiðleikar, sem nú eru fyrir hendi, sumpart fyrir kreppuna, sumpart fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í aðalmarkaðslöndum okkar, og sumpart fyrir hina mjög miklu aukningu á framleiðslunni, sem náttúrlega skapar aukna erfiðleika við að afsetja framleiðsluvöruna svo að vel sé.

Þetta eru í raun og veru tvö algerlega ólík atriði, og finnst mér alveg sjálfsagt að ræða þau hvort í sínu lagi. Einnig vegna þess, að ágreiningurinn í þessu máli og það, sem hefir gert það eitt hið mesta ágreiningsmál þessa þings, snertir í raun og veru annan þátt þessa máls, þ. e. a. s. hvernig skuli yfirvinna áframhaldandi örðugleika við fisksöluna, eða m. ö. o. hvernig skipa skuli fiskimálunum yfirleitt. Um hitt atriðið aftur á móti, ráðstafanir til þess að brjóta nýjar brautir hér og annarsstaðar fyrir þessa aðalframleiðsluvöru landsmanna, eru, að ég hygg, allir þingflokkarnir sammála.

Ég hefi orðið dálítið var við það, að það er eins og ýmsum finnist, að hinir almennu örðugleikar við fisksöluna séu kannske ekki mjög miklir, og mér hefir fundizt það skína út úr umr., sem oft fara fram t. d. um það, hvort höfð skuli einkasala á fiski, en um það hafa verið borin fram frv. á fjöldamörgum þingum. Það hafa komið fram frv. og till. um einkasölu á fiski, og mér hefir oft fundizt það á þessum till., að mönnum væri það í raun og veru ekki nægilega ljóst, hvað hér er við mikla örðugleika að stríða. Sú þrotlausa barátta, sem alltaf stendur um markaðinn fyrir þessa vöru, er mjög hörð, og það er barátta, sem gengur svona upp og ofan, en er þó ómögulegt að neita, að yfirleitt gengur heldur vel fyrir okkar þjóð. Það má sjá það í nál. minni hl., hvað framleiðslan hefir aukizt alveg geysilega á fáum árum, þegar svo má segja, að hún hafi á tiltölulega fáum árum allt að því þrefaldazt. Og það eru engir smáræðis sigrar, sem hafa unnizt, þar sem við höfum lagt allan þennan markað undir okkur, og það má segja, að í þeirri baráttu hafi verið gerð alveg ný landnám og stofnuð stór ríki. Í því sambandi má t. d. nefna það, hvernig okkar fiskur hefir smám saman unnið sig inn á Portúgalsmarkaðinn, sem var nálega ekki til fyrir nokkrum árum síðan. Þar, sem okkar fiskur hefir keppt á mörkuðum við t. d. norskan fisk, hefir það heyrzt greinilega frá okkar keppinautum, að þeim hafa þótt Íslendingar erfiðir viðureignar og allhraustir bardagamenn í þeirri baráttu. Þetta stríð hefir verið háð eingöngu af einkaframtaki manna hér á landi, sumpart af einstaklingum og sumpart af félögum, sem hafa slegið sér saman um starfsemina á þennan hátt. Og í þessum bardaga og þessu landnámi hafa einstakir menn aflað sér ákaflega mikillar vopnfimi, þ. e. a. s. fróðleiks og þekkingar á þessum málum. Og það er áreiðanlega ein af okkar dýrmætustu eignum, sú þekking og sú reynsla, sem einstaka Íslendingar hafa fengið við það að starfa að því að selja okkar dýrmætustu útflutningsvöru.

Það er þessi eign, sem mér finnst, að þeir, sem mæla með einkasölu á saltfiskinum, ekki kunna fullkomlega að meta. Þeim finnst, að sé þetta vel skipulagt og einhverjir heiðarlegir og góðir menn settir til þess að sjá um það, þá hljóti þetta allt að geta gengið, — þetta geti ekki verið svo ákaflega vandasamt, og þeir, sem gluggað hafa í því, ýmist úr fjarlægð eða stutta stund, muni yfirleitt geta rækt þetta. Þeir álíta, að það sé mest mont og þesskonar, þegar verið sé að tala um sérstaka fagþekkingu á þessu sviði. Það er þetta, sem mér finnst nauðsynlegt að athuga. Og í sambandi við þetta má spyrja um það, hvort þetta hafi tekizt. Eru fyrirliggjandi orsakir til þessarar löggjafar, sem hér um ræðir? Það var þetta, sem hv. frsm. minni hl. áleit ekki vera, og hann sagði, að á þessu sviði væru engir sérstakir erfiðleikar aðsteðjandi núna, og það var út af því, að hv. frsm. minni hl. vildi ekki kannast við neina örðugleika hvað þetta snertir, sem hæstv. ráðh. var með dálitla útúrsnúninga, og sagði, að frsm. minni hl. héldi því fram, að það væru engir erfiðleikar í sambandi við þetta mál í heild sinni, en slíkt er vitanlega hin mesta fjarstæða, að hv. frsm. minni hl. hafi gert það. Þessi mál eru vissulega mjög mikil vandamál, og hversu varlega verður að fara með þau, sér maður á því, hvað lítið má eiginlega út af bera til þess að í fullt óefni komist. Hv. frsm. minni hl. hefir lýst því í ræðum sínum og nál. minni hl. Enda er það líka öllum kunnugt, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að þessi fisksölumál voru að komast í hið mesta óefni. Eftir að kreppan skall á, þá komust þessi mál í slíkt óefni, að það var eiginlega ekki hægt að selja nokkurn fisk út úr landinu. Það var hægt að flytja hann út úr landinu, og menn vildu taka við honum í umboðssölu, en án allrar áhættu. Þeir gátu þá undirboðið hver annan, án þess að hugsa nokkuð um hagsmuni okkar, til þess að koma honum smám saman út. Þetta varð auðvitað til þess, að öll fisksölumál komust í hið mesta óefni.

En þeir, sem með þessi mál höfðu að gera hér, sýndu á þessum erfiðu tímum þá mannlund, sem jafnan, þegar einhverjir miklir örðugleikar steðja að, og þegar sumir leggjast út af og deyja drottni sínum, að kannast við það, að illa hefir farið og láta erfiðleikana verða til þess að hrinda sér eitt spor áfram. Það gerðu fiskframleiðendur og fiskútflytjendur, þegar þeir upp úr þessum erfiðleikatímum 1930 til 31 gengu saman og mynduðu með sér fisksölusamlag.

Það er auðvitað, að þegar gerð eru samtök á þennan hátt, sem hér um ræðir, þá er þar í sjálfu sér ekki um mikið skipulag að ræða, og þess vegna ekki óeðlilegt, að þeir, sem enga trú hafa á neinu, nema 100 pappírsgögn séu til um það um leið og eitthvað er sett á laggirnar, hafi hina megnustu ótrú á samtökum eins og þessum. En þessi samtök spruttu upp úr því ástandi, sem fyrir var, og þeirra mikli styrkur, þrátt fyrir skipulagsleysið, er, að þau standa föstum fótum í jarðveginum, vegna þess að þau urðu til út af þörf. Og þegar slíkt verður, þá má búast við því, að þeir menn, sem mesta þekkingu og reynslu hafa í þessum efnum, haldi áfram að vera á oddinum. Það er hin mikla nauðsyn, sem jafnan kallar fram kraftana. Það er sá sami munur, sem kemur fram í þessu og í því, hvernig þjóðirnar velja sér foringja á friðartímum og svo aftur á stríðstímum. Á friðartímum hækka menn í tigninni eftir aldri og ætterni og geta orðið miklir menn án þess að hafa nokkuð til þess unnið eða lent í nokkrum mannraunum. En þegar stríðið skellur yfir, þá kallar það á kraftana, dugnað og mannvit og þá, sem einhver töggur er í. Þeir, sem höfðu forustuna í fiskimálum okkar á hinum erfiðustu tímum, voru nokkurskonar hershöfðingjar á stríðstímum. Fisksala var algerlega að fara í rústir, og þá var kallað á foringjana, og það voru ekki þeir, sem höfðu setið á þingi og flutt frv. og skrifað um þessi mál í blöðin, heldur þeir, sem höfðu verið hafðir á oddinum einmitt í þessari viðleitni, sem fram að þeim tíma hafði verið til þess að hrinda þessum málum áfram, þ. e. a. s. foringjarnir, sem höfðu barizt hver á móti öðrum og þekktu orðið margar aðferðir. Þeir slógu sér saman í eina fylkingu. Það voru eiginlega þrír aðilar, sem höfðu haft þennan útflutning með höndum, og það voru einmitt þessir sömu þrír aðilar, sem tóku forustuna í þessum málum.

Það hefir verið haft ákaflega mikið á móti þessum félagsskap fyrir það, að hann væri ekki nógu demókratískur og að forráðamenn hans væru ekki kosnir. Það mun vera alveg rétt að S. Í. F. var upphaflega ekkert annað en það, að þeir þrír aðilar, sem hér áttu hlut að máli, fólu sínum framkvæmdarstjórum að setja þessa útflutningsskrifstofu á laggirnar, og gerðu svo mönnum tilboð um að selja fyrir þá þeirra fisk. Það má því í raun og veru segja, að um leið og einhverjir hafa snúið sér til S. Í. F. með framleiðslu sína og óskað eftir því, að það seldi fisk fyrir sig, þá knýi viðkomandi S. Í. F. til þess að hafa forsjá fyrir sig í þessum efnum. Því að vitanlega hefir þetta allt verið frjálst. Hver maður gat selt sína framleiðslu sjálfur eða menn gátu slegið sér saman undir forustu nýrra manna. Það, að upp undir 80% af allri framleiðslunni var komið undir þessa forustu, stafar af því, að þessi 80% hafa valið sér þessa forustu. Þeir, sem eiga sitt lífsuppeldi undir því, að þessi vara seljist vel, hafa einmitt sjálfir að svona miklu leyti valið S. Í. F. til þess að fara með þessi mál fyrir sig. Það er náttúrlega gott og blessað að vera með heimspekilegar hugleiðingar um það, hvort þetta sölusamband sé sett saman eftir réttu recepti eða ekki, en hitt er meira virði, að líta á, hversu vel það hefir reynzt og hvernig það dugir. Og þá er ómögulegt að neita því, að það er hreinasta kraftaverk, sem hefir verið unnið í þessum efnum. Það hefir aldrei verið gerð nein tilraun hér á landi um jafnstórt málefni og þetta, sem hefir borið jafnglæsilegan árangur og þessi. Hv. frsm. minni hl. hefir skýrt frá því, hvernig verð þessarar vöru svo að segja tók viðbragð alveg um leið og þessi samtök voru gerð, og hvernig þetta viðbragð reyndist ekki að vera eins og þegar sjúklingi er getinn hitaskammtur og hitinn dettur niður snöggvast. Þetta viðbragð var aðeins hið fyrsta. Eftir það heldur verðhækkunin hægt og hægt áfram og það myndast stöðugt rólegt verðlag, en þó miklu hærra en það hafði verið áður og miklu hærra en vænta mátti. Við hliðina á þessari tilraun voru svo aðrar til samanburðar, og þar kom alls ekki þessi sami bati fram. Það er alveg augljóst, að sá bati og þau umskipti, sem urðu hér fyrir íslenzka fiskframleiðendur og fiskútflytjendur, stafa beinlínis af þessum sölusamtökum, sem hér hafa verið. Og ég verð að segja það, að þetta er ákaflega eðlilegt. Það má auðvitað segja, að eitthvað geti komið inn í félagsskapinn og truflað, en hér hefir það ekki orðið. En þegar litið er á málið almennt, þá er þetta alveg eðlilegt. Þetta er af því, að hér myndast nokkurskonar einokunarkennd samtök, án þess þó að sett sé á stofn einkasala. Það er mjög fjarri því, að ég fyrir mitt leyti hafi á móti einkasölu á útfluttri vöru. Ég er mikið á móti því, að einkasala sé höfð á aðfluttri vöru, af því að reynslan er sú, að einkasala veldur jafnan verðhækkun.

Eitt af fyrstu einkennum frjálsrar samkeppni er verðlækkun sú, er hún hefir í för með sér. Því getur það verið æskilegt fyrir hverja þjóð um sig að koma einkasölueinkennum á sinn útflutning. ef um leið tekst að koma í veg fyrir þann skaða, sem einkasala hefir yfirleitt í för með sér.

Hæstv. ráðh. sagði, að það skipti engu máli, ef um einkasölu væri að ræða, hvort það væri þá lögbundin ríkiseinkasala eða einkasala, sem skapaðist við frjáls samtök. Ef svo væri, að ríkiseinkasala væri eins góð og frjáls samtök, þá væri sjálfsagt að taka undir hana allan okkar útflutning. En það er nú svo, að hér þarf tvo til, eins og um giftingar, sem sé seljanda og kaupanda. Og einkasölur er kunnar að því að vera verðhækkandi. Er því hætt við, að kaupandinn hrökkvi við, er hann heyrir, að búið sé að koma á einkasölu. Og þar sem viðskiptaþjóðir okkar eru okkur nú slíkir ofjarlar á allan hátt, þar sem viðskiptajöfnuður okkar er svo erfiður sem verða má, þegar svo stendur á, að þær geta beitt okkur því nær hvaða tökum sem þeim lízt, þá er einkasala eins og steyttur hnefi framan í þá, sem við verðum um fram allt að hafa góða. Þetta er það, sem stj. Landsbankans á við í umsögn sinni, þar sem hún segir, að framkoma frv. ein saman geti gert mikla bölvun. Það getur sem sé verið hættulegt að steyta hnefann framan í mann, enda þótt hann sé ekki barinn. Hann getur reiðzt samt. En ef hægt er að koma á einkasölu án þess að svo sé á pappírnum, og svo laglega, sem verið hefir þar sem er S. Í. F., þar sem ekki er öll framleiðslan í höndum samlagsins, og hver, sem vill, má vera utan við það, þá er það hið bezta ástand. það má e. t. v. segja um S. Í. F., að þessi samtök séu ekki eins vel undirbyggð og skyldi, þar sem það á sér ekki nægan grundvöll í l., en meðan ekki sjást nein merki um, að þessi samtök nái ekki tilgangi sínum, meðan engir skýjaflókar sjást á lofti, þá er þetta hið bezta ástand. Þeir lagnu foringjar, sem við höfum haft fyrir þessum samtökum, hafa fundið sína réttu bandamenn, ekki neytendurna, sem alltaf vilja hafa verðið sem lægst, ekki smásalana, heldur heildsalana. Þetta kom skýrt fram í samningunum við Spán. Við höfðum okkar sjálfkjörnu bandamenn, þar sem voru fiskinnflyjendur þar. S. Í. F. hefir haldið vel á því vináttusambandi, sem þannig hefir komizt á. Fyrir skömmu var á þingi S. Í. F. rætt um þetta mál, og töldu menn þar, að svo fastar stoðir rynnu undir þessi samtök, að yfirgnæfandi meiri hl. féllst á að hafa framvegis sama fyrirkomulag og verið hefir.

Hinsvegar verður að viðurkenna það, að svona viðskiptasambönd eru einhver hin allra viðkvæmustu. Hver og einn hugsar um það fyrst og fremst að hafa sem mest upp úr skiptunum, og bindur ekki annað saman þessa aðila en hagsmunirnir einir. En því hættulegra verður þá að teljast að káfa hér inn í.

Menn kannast e. t. v. við greinar, er Sismondi hefir skrifað í víðlesin blöð á Ítalíu, þar sem sagt er, að við höfum verið að hrósa happi yfir því að hafa með þessum samtökum pumpað 10 millj. lírur út úr Ítölum. Sýnir þetta, hve varlega verður að halda á þessum málum. Það er engin hætta á, að ekki sé þegar farið að skrifa um það þar syðra, að hér sé verið að ræða frv., sem getur leitt til einkasölu.

Norðmenn öfunda okkur af þeim samtökum, sem við höfum haft um fisksöluna. Þeir hafa átt erfiðara um sína fisksölu, enda þótt þeir standi betur að vígi en við gagnvart Spánverjum, þar eð þeir kaupa þaðan mikið af vínum og öðru. En þeir hafa ekki haft nein föst samtök í þessum efnum og hafa því séð ofsjónum yfir þessum samtökum Íslendinga. Hér heima er að vísu ekki djúpt á óánægjunni. Það er auðvelt að fá fram óánægjuraddir úr ýmsum áttum. Er t. d. ekki óeðlilegt, að smáútvegsmenn haldi, að hér hafi verið að verki stórlaxar, sem borið hafi hugsmuni þeirra fyrir borð. En þó er það eftirtektarvert í umsögn Landsbankans, að þar er talið, að S. Í. F. hafi gert smáútvegsmönnum mikið gagn. Allir hafa fengið jafnt fyrir fiskinn. hvort sem þeir hafa átt mikið eða lítið, en áður kom það varla fyrir, að smáútvegsmenn fengju ekki þetta 10 kr. minna fyrir skippundið. Er það því illt verk að dylgja milli smáútvegsmana og þeirra, sem staðið hafa að þessum samtökum.

Eins og hv. frsm. minni hl. benti á, var nokkur tvískinnungur í ræðu hæstv. ráðh. um þetta mál. Hann sagði annarsvegar, að S. Í. F. væri gott og ætti að haldast, og reyndi að sanna, að frv. hlæði frekar undir samlagið en hitt. Þó var hann alltaf að reka í það hornin. Hann sagði, að salan myndi verða áfram í höndum S. Í. F., a. m. k. þessa árs framleiðsla. Ég skal ekkert um það segja, hvort S. Í. F. myndi áfram starfa að sölunni, ef það yrði leyst upp fyrir aðgerðir hins opinbera, en það yrði þá a. m. k. ekki annað en dauðateygjur.

Hæstv. ráðh. sagði, að einkasala yrði ekki tekin upp nema með vilja framleiðenda. Þarna kemur vel fram hinn óheilbrigði aðaltilgangur frv. Virðist það vera með ráðnum huga gert að sneiða hjá því að setja beina ríkiseinkasölu, en einkasöluhugmyndin kemur þó nægilega skýrt fram til þess að þeir fælist við, sem slíku eru mótfallnir. Aftur á með þessu að gera þeim til hæfis, sem fyrirfram eru slíkum hugmyndum fylgjandi. Örlög slíkra frv. á undanförnum þingum hafa orðið til þess, að upphafsmönnum þessa frv. fannst þeir verða að steypa eitthvert súkkulaði utan um þessa beisku pillu. Hæstv. ráðh. segir, að einkasalan verði ekki sett nema framleiðendur óski hennar, en það er lítil huggun, ef framleiðendum er gert ómögulegt annað en óska hennar. Til þess að það sjáist, að þetta er ekki bara pólitík úr mér, vil ég lesa hér upp nokkur atriði úr umsögn Landsbankans, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Vér fáum ekki betur séð, ef umrætt frv. verður að lögum og fiskimálanefnd verður stofnuð, en að þá sé S. Í. F. lagt að velli, og oss virðist, að jafnvel við það eitt, að frv. kom fram, þar eð það gefur þeim óánægðu byr undir báða vængi, og þeim, sem græða vilja á glundroða þeim, sem framkoma frv. hefir valdið“.

Svo vissir eru þessir þaulreyndu menn, bankastjórar Landsbankans, um, að þetta verði til að leysa upp samlagið. Og mér virðist ekki þurfa annað en líta á frv. til að sjá, hve ósennilegt það er, að S. Í. F. geti staðizt eftir að þessi l. hafa verið sett. Fyrst á að skipa þessa fiskimálan. Henni er fengið vald (sérstaklega í frv. eins og það var upphaflega, og í rauninni er það eins enn), sem er þannig lagað, að ég sé ekki, hvernig menn geta tekið að sér stjórn á samlaginu með slíka n. yfir höfði sér. Eina vonin væri, að í n. sæti svo góðir menn, að þeir gerðu ekki neitt. En n. getur í rauninni skipt sér af öllu. Nú er þetta raunar bætt nokkuð með skilyrðinu um leyfi atvmrh. í upphafi 3. gr. Látum svo vera, að ráðh. væri sá indælismaður að ekki þyrfti að óttast hann. En í niðurlagi gr. stendur svo:

„Atvinnumálaráðherra getur falið fiskimálanefnd úthlutun útflutningsleyfa. Einnig getur ráðherra falið nefndinni eða almennu fisksölufélagi (sbr. 2. málsgr. 4. gr.) framkvæmd þeirra annarra starfa, er ráðlegt þykir og undir hann heyra samkvæmt lögum þessum.“

Að leggja þetta í hendur atvmrh. virðist því ekki vera annað en sauðargæra yfir úlfinn, enda koma eyrun greinilega í ljós. Er það óhugsandi fyrir hvern mann, sem veit, hversu vandasöm þessi störf eru, að þurfa alltaf að vera að gefa skýrslur og setja heilan hóp af sauðum inn í hvert mál, áður en það er framkvæmt. Er nógu erfitt starf fisksölunnar samt, þótt Davíð sé ekki klæddur í slíka Sálsbrynju, er hann getur naumast staðið uppréttur í.

Þá er það atriði, að frv. miðar að upplausn S. Í. F., að gera það að samlagi, sem að vísu á að geta notið sérréttinda samkv. frv., en verður að skipuleggja sig á þann hátt, sem fulltrúar þess hafa fellt að gera. Er hægt að gera meira til að leysa upp félag en að setja því slík skilyrði? Við skulum ekki í þessu sambandi deila um það, hvort fyrirkomulagið sé betra. Ég veit, að S. Í. F. er viðurkennt fyrirkomulag á sinn hátt eins og samvinnufélagsskapurinn. En þegar fulltrúar hafa samþ. á fundi, að annað fyrirkomulagið skuli haft, og stj. setur svo þau skilyrði, að hitt fyrirkomulagið verði upp tekið, þá sé ég ekki betur en þetta sé beinlínis sett til höfuðs samlaginu.

Þá álít ég það mjög óheppilegt að vera í þessum 1. beinlínis að benda á grúppufyrirkomulagið, eins og gert er í niðurlagi 4. gr. Þarna er beinlínis bent á, hvað við tæki, ef S. Í. F. sundrist. Hinum óánægðu, sem alltaf eru hér til, er bókstaflega gefið til kynna, hvað við muni taka. Það var auðheyrt á ræðu hv. 2. þm. S.-M., að slíkar raddir eru til í landinu. Þar kom fram óánægja fyrir hönd Austfirðinga. Svo kemur óánægja fyrir hönd Vestmannaeyinga, svo fyrir hönd Vestfirðinga o. s. frv. Og undir þessar raddir er verið að hlaða. Planið er svo sem nógu gagnsætt. Það er ekki verið að reka neina dulbúna pólitík. Í frv. er gefið í skyn, að S. Í. F. muni sundrast, og svo er girt fyrir það með vissum ákvæðum, að slíkt sölusamlag myndist á ný, þá er sýnt fram á, að grúppurnar verði undir svo strangri stjórn, að þær geti ekki starfað, og er þá ekki annað eftir en sú beiska pilla, að fiskimálan. taki við öllu. Nú er allt súkkulaðið búið, enda hefði þessi beiska pilla líklega aldrei verið gleypt, ef ekki hefðu verið þessar umbúðir.

Þetta er þá það, sem ég hefi sagt um þennan annan þátt örðugleikanna, sem er aðalatriðið. Og hvernig á nú að haga hinum þættinum og yfirstíga áframhaldandi örðugleika? Upp úr vaxandi örðugleikum hefir skapazt fyrirkomulag, sem er teoretiskt heilbrigt, samtakasala, sem hefir reynzt heppileg. Hinsvegar er verið að grípa inn í þessa þróun og splundra samtökunum, svo að upp af megi vaxa ríkiseinkasala. Hinn þátturinn er svo sá, hvernig bregðast skuli við hinum nýju örðugleikum, t. d. út af kvótanum á Spáni, offramleiðslunni, þörfinni á að finna nýjar sölu- og verkunarleiðir. Í 13. gr. eru ákvæði um að leggja ríflegt fé til þessara hluta. Um það erum við teoretískt sammála, eins og kemur fram í umsögn Landsbankans. Það segir í umsögn Landsbankans: „Aftur á móti virðist oss rétt, að fiskimálanefnd hefði verið sett á laggirnar til að sjá um leitun nýrra markaða, nýrra verkunaraðferða, hafa með höndum úthlutun á verkunarleyfum o. fl., en láta fisksöluna afskiptalausa að minnsta kosti.“ Þetta er sú stefna, sem Sjálfstfl. hefir tekið upp undir forystu foringja síns. Hann bar fram frv. um fiskiráð, en í staðinn fyrir það kemur fiskimálanefnd eftir frv. þessu. Hann bar ekki fram till. um fisksöluna, af því að við sjálfstæðismenn álítum hana vel komna í höndum S. Í. F. Það gæti auðvitað komið til mála að hlaupa undir bagga með S. Í. F., eins og gert var 1932. En það var gert vegna aðsteðjandi örðugleika, en verzlunin var eftir sem áður frjáls. Hún var alveg frjáls með eldri fiskinn og jafnvel að mestu leyti með nýja fiskinn. En þetta á ekkert skylt við almenna einkasölu. Það er sjálfsagt, að S. Í. F. sé stutt af ríkisvaldinu, hvenær sem hætta er á ferðum, og sett sé upp stofnun, sem getur verið í fyrirsvari fyrir því í að leita að nýjum leiðum, og að brjóta brautina fyrir bættri sölu á fiskinum. Frv. um fiskiráð var ætlað að bæta úr þessu. Það hefði kannske verið rétt að veita fiskiráðinu meira vald en gert var ráð fyrir með frv. En það er ætlazt til þess, að frv., sem eru lögð fyrir þingið, séu endurbætt í n., og því ekki ástæða til þess að setja út á það, þó þessa væri ekki gætt í frv. Ég tel, að það hefði verið rétt að velta fiskiráðinu frekari lagastuðning en gert var ráð fyrir í frv. Þó hygg ég, að það hefði verið rétt að samþ. frv. óbreytt, og svo þegar fiskiráðið var tekið til starfa, þá gat reynslan sýnt, hverjum lagastuðning þyrfti að renna undir það, svo að því væri fært að inna það verk að hendi, sem því er ætlað. Ég er sannfærður um, að ríkisstj. og Alþ. myndu taka till. fiskiráðs til greina í þessu efni. Það er þetta, sem skilur milli okkar og þeirra, sem hafa flutt þetta frv. Annarsvegar hinn reyndi maður, sem þekkir hvar þarf að umbæta, og hverju þarf að halda frá í þessu efni, en hinsvegar hinn pólitíski maður, sem horfir á sína pólitísku hugsjón og vill koma henni í framkvæmd, hvort sem hún nú er einkasala eða eitthvað annað. Það er gaman að sjá, hvernig jafnaðarmenn sveiflast frá einu til annars. Nú vandræðast þeir yfir því, að fiskframleiðslan sé of mikil, en fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðustu var það eitt af helztu kosninganúmerum þeirra, að þeir vildu fá 10 nýja togara. Og svo nokkru síðar vita þeir ekki, hvað á að gera við allan þann fisk, sem berst á land.

Þetta eru sömu kenningarnar í bæði skiptin, sem reka sig á reynsluna.

Við erum nýbúnir að gera vandasama samninga við Spánverja, sem hefir lyktað umfram allar vonir, þar sem samningsaðstaða okkar var svo erfið, að við urðum að selja mest af útflutningsvöru okkar til þeirra, en getum ekki keypt nema lítið í staðinn. Það tókst að ná góðum samningum með því að vekja áhuga þeirra fyrir þjóðinni og sýna þeim fram á, að við værum hinn fátæki maður, og að það væri hið einasta lamb fátæka mannsins, sem hér væri um að ræða, en þeirra hagsmunir væru aftur á móti minni. Fyrir tilstuðlan þaulkunnugra manna, þar sem voru fiskinnflytjendur á Spáni, tókst að ná svona góðum samningum. Þegar samningar fengust nú svona góðir, þá finnst mér það hörmulegt, ef á að gera þær ráðstafanir, sem geta leitt til þess að leggja í rústir mikið af því starfi, sem unnið hefir verið. Ég tel, að þetta sé langstærsta mál þingsins. Við höfum haft mörg mál hér á þessu þingi, sem ég hefi barizt á móti, svo sem mörg einkasölu- og skipulagningarfrv., en mér finnst þetta mál vera verra en öll hin samanlögð. Fiskverzlun okkar er svo stórt atriði, að við getum ekki þar um bætt, ef illa fer. Þó að ég telji aðrar einkasölur óheppilegar, þá eru þær ekki svo stórbrotnar, að þær geti veitt okkur banasár. En ef mistök verða á fisksölunni, þá verða þau ekki bætt með neinu öðru en því, að það fái að endurtaka sig sagan frá 1932, að þeir, sem mest hafa með þessi mál að gera, myndi samtök af frjálsum vilja.

Ég vil enda orð mín með því að vitna enn þá einu sinni í umsögn Landsbankans. Það er nú svo með þær köldu og rólegu stofnanir, bankana, að það er óvanalegt, að þær fari eins og að grátbæna þingið að hafa vissa aðferð. Þessar stofnanir eru annars vanar að mæla með eða móti, en í niðurlagi þessa bréfs er þetta rækilega orðalag: „Að lokum viljum vér bera fram þá áskorun til þings og stjórnar, að reynt verði að ráða saltfisksölumálinu til lykta nú á þinginu fyrir árið 1935 með samkomulagi milli flokkanna, svo allir megi við una og ekki hljótist af neinir alvarlegir árekstrar, þar eð verzlun þessi er aðalhyrningarsteinninn undir fjárhagslegri getu þjóðarinnar, og mega því engin mistök á því máli eiga sér stað. Með góðum vilja hlýtur að vera hægt að finna veginn.“ Þetta er óvanalegt í umsögn frá þjóðbanka, og þegar bankinn beinir svo eindregnum tilmælum til þingsins, þá er það mjög athugavert að ganga þar á móti.