14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

150. mál, fiskimálanefnd

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég þarf mjög fáu við að bæta það, sem ég hefi áður sagt út af ræðu hæstv. ráðh. Ég leitaðist við að sýna muninn, sem er raunverulega á einkasölu með lögum og með frjálsum samtökum. Hæstv. ráðh. segir, að viðskiptavinunum sé alveg sama, af hverjum þeir kaupi, hvorri einkasölunni sem er. Þeir hugsi bara um, að þeir séu ekki hlunnfarnir í verzluninni. Hann orðaði það kannske ekki svona, hæstv. ráðh., en meiningin var þessi, að þeir hefðu tryggingu fyrir því að verða ekki hlunnfarnir. Já, hann svaraði eiginlega sjálfum sér þarna um leið, því þarna í liggur einmitt munurinn á milli lögskipaðrar og frjálsrar einkasölu, að með lögþvingaðri einkasölu er viðskiptavinurinn sviptur þeirri tryggingu, sem hann hefir áður haft, og sem hann vill hafa. Meðan samtökin eru frjáls, þá á kaupandinn tryggingu fyrir því, að hvenær sem seljandinn ætlar að hætta að hirða um gæði vörunnar eða svíkur á annan hátt, þá er öllum frjálst að koma inn í staðinn. En þetta er tekið af þegar komin er á ríkiseinkasala; þá er þessi trygging horfin. Þetta er sá stóri munur, og þýðir ekki að standa hér og ræða, hvað Spánn vilji eða Ítalía vilji. Þeir hafa sinn vilja, og sá vilji er að skipta ekki við einkasölu. Það þýðir þess vegna ekkert að vera að ræða um það hér þvert yfir salargólfið; reynslan er þessi, og engin ástæða er til að vitna í vilja bankastjóra Landsbankans eða aðra og prédika um þeirra vilja. Ráðh. verður að fara sjálfur suður á Spán og Ítalíu og sannfæra þá um, að einkasalan sé góð. En það gæti hann bara aldrei sannfært þá um, því orðið einkasala verkar þar eins og grýla, af því þeir trúa á frjálsa verzlun, og annað kemst þar ekki að. Það er sá stóri munur, að með frjálsum samtökum má komast hjá þeim ágöllum eða ókostum, sem fylgja einkasölunni, en nota kostina. Þetta er engin ný kenning eða ný skoðun hjá mér. Þessu hefi ég alltaf haldið fram; einkasalan getur sett verðið hærra, en það bara þýðir ekkert, ef viðskiptamaðurinn vill ekki skipta við hana. Við höfum nú um stund komizt í þá heppilegustu aðstöðu, sem einkasala getur boðið, en alltaf til fiskur, sem hægt var að grípa til, ef viðskiptamennirnir óttuðust, að þeir væru hlunnfarnir, alltaf til frjáls markaður, ef á þurfti að halda. Það væri meira gæfuleysi en okkur má benda, ef við köstuðum þessari aðstöðu frá okkur að óþörfu.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki skilja, að forstjórar S. Í. F. gætu ekki unað við, þó ráðh. og fiskimálanefnd væru alltaf að skipta sér af verkum þeirra og grípa inn í. Þá fannst honum hann eiga rök í því, sem bankastjórar Landsbankans og framkvæmdastjórar S. Í. F. hefðu sagt, en eina sönnunin var, að hann hefði haft þetta vald samkv. bráðabirgðalögum. Ég ætla ekki að ræða um það við hæstv. ráðh., hvers vegna þetta frv. var gefið út. Það voru allt aðrar ástæður, er til þessu lágu, en liggja nú fyrir þessum lögum. Það var gert til að fá fé í verðjöfnunarsjóð, sem þurfti að hafa til þess að tryggja okkar markað í Suður-Evrópu. Vald, sem hverfur um leið og þetta frv. verður samþ. og bráðabirgðalögin falla ekki úr gildi. Ég veit ekki betur en að ráðh. sé í þann veginn að staðfesta þessi lög. Ég veit ekki betur en það sé allt annað mál, og úr því sé orðið frv. til l. um markaðs- og verðjöfnunarsjóð, og ekki talað nokkurn skapaðan hlut um vald ráðherra. Það var bara bráðabirgðaástand, sem skapaði nauðsyn þess að ná þessu gjaldi inn, og bráðabirgðalögin voru um það sett, en ekki til að skaffa ráðh. neitt vald, eins og liggur fyrir í þessu frv. Og það er ætlazt til, að ráðh. beiti þessu valdi, því hér er beinlínis sagt: „Enginn má bjóða til sölu, selja eða flytja fisk til útlanda, nema með leyfi fiskimálanefndar“. N. þessi á líka að úthluta verkunarleyfum o. s. frv. Þessi n. og ráðh. hafa vald til að skipta sér af öllu, er lýtur að fiskimálum, annaðhvort í sameiningu eða sitt í hvoru lagi, um alla starfsemi þeirra, er selja fisk til útlanda. Þetta verður til þess, að forstjórar S. Í. F. treysta sér ekki til að vinna sín störf áfram. Oft þarf skjótra úrlausna með, og þeir eru ekki frjálsir að taka ákvörðun, heldur hafa yfir höfði sér og verða að bera undir sér fáfróðari menn. Bráðabirgðalögin sanna því ekkert í þessu; þau koma þessu máli ekkert við.

Þá sagði hæstv. ráðh. eitt, er mér líkaði illa. Hann vildi nota röksemd þá, sem aðrir nota — en hún fór illa í hans munni —, um að S. Í. F. væri að leysast upp hvort sem væri, og svo ætluðu menn að nota þetta sem keyri og skella skuldinni á frv., ef það verður að lögum, og segja sem svo, að þetta væri gott og blessað; það væri hvort sem er að leysast upp. Vill ráðh. prófa þetta með því að draga lögin til baka? Mér er sagt af þeim, sem eru þessum málum kunnugir, — ég skal játa, að ég er ekki sjálfur kunnugur því —, að þess sjáist engin sólarmerki, og þó eitthvað megi að því finna, er það jafnhliða að vinna sér meira og meira traust, svo að heita má, að það hafi nú í sínum höndum alla fiskverzlun, nema þá, sem er í höndum útlendings, sem hefir skipað sér sérstaka aðstöðu til útflutnings.

Hæstv. ráðh. getur ekki varpað af sér ábyrgðinni, ef S. Í. F. leggst niður vegna þessara laga. Það, sem hann byggði á þessa skoðun sína, er það eina ástand, sem er til, að gróðamöguleikar einstakra manna yrðu til þess að leysa S. Í. F. upp. Þessu er ekki hægt að neita, að þetta eru möguleikar fyrir upplausn, ef gróðamöguleikar virðast standa til boða fyrir einstaklinginn við að yfirgefa það. En mér finnst ekki rétt að ala á þessari hvöt, eins og gert er með þessu. Þó að glasið fyllist ekki af einni fingurbjörg af vatni, sem látin er í það tómt, þá getur runnið út úr því, ef bætt er í það einni fingurbjörg, þegar það er fullt. Ef löggjafarvaldið kemur svo og fyllir bikarinn, eins og með þeim ráðstöfunum, að skipa nefnd yfir framkvæmdarstjórana, og breyta lögum, sem búið er að fella á fulltrúafundi S. Í. F., ef þessum óánægðu stundargróðafýknum mannanna er gefinn svona góður stallur til að standa á, þá geta þeir seilzt hátt. Enn sem komið er er þessi óánægja lítil, en hún getur magnazt fljótt, er hún fær þessa stórkostlegu liðveizlu frá löggjafar- og ríkisvaldinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri óforsvaranlegt að hafa engin lög til að grípa, ef S. Í. F. leystist upp og allt færi í sama ástandið og var 1931. En ég vil segja, að það væri óforsvaranlegra að setja lögin og stuðla þannig að því að skapa slíkt ástand, með því að leysa S. Í. F. upp, því ef allt fer út í slíka ófæru, þá hefir ráðh. prentað frv. og getur gefið það út sem bráðabirgðalög, ef hann áliti, að grípa þyrfti til löggjafar vegna slíks neyðarástands, er þyrfti að bjarga við. En ég álít, að ef hann óttast mikið þetta ástand, þá ætti hann ekki að gefa út þessi lög, sem allir menn, er til þessara mála þekkja, segja, að stuðli að því, að S. Í. F. leysist upp og þetta ástand komi, svo ástæða gefist til að taka upp einkasölu á fiski.

Hæstv. ráðh. hafði í lok ræðu sinnar vingjarnleg ummæli um, að hann vildi, að þetta mál lykist með samkomulagi allra flokka. Hann sér það rétt, að þeir örðugleikar, sem eru á um framkvæmd laganna, myndu aukast, ef á að keyra þau í gegn móti vilja alls þorra þeirra manna, sem við þau eiga að búa.

Ég skil ekki, að hæstv. ráðh., sem hefir svo mikla ábyrgð á sér, skuli hugsa til þess að ætla að keyra slík lög í gegn án þess að samkomulag fáist um þau. Ég mundi í hans sporum telja þetta svo nauðsynlegt, að þó ég væri hrifinn af lögunum þá vildi ég samt heldur engin lög en með slíkri andstöðu. Ég hefi ekki neitt umboð til þess að bjóða upp á samkomulag í þessum efnum, því að ég er ekki forsvarsmaður þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., að hve miklu leyti hann hafi leitað samkomulags í þessum efnum. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi gert það. Það getur verið, að þetta hafi verið orðað lauslega, en hæstv. ráðh. má vita það, að ef ná á samkomulagi í slíku máli, þá krefur það langan tíma. Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. haldi, að Sjálfstfl. verði svo kröfuharður, ef samkomulag á að nást, að hann hafi ekki árætt að gera tilraun til samkomulags við hann. Ég vil því endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðh. um það, hvort hann hafi gert nokkra verulega tilraun til þess að ná samkomulagi um þetta mál.