14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er harla undarlegt að heyra hæstv. ráðh. tala um það eða fullyrða það, að sölusambandið sé að gliðna í sundur, hvort sem þessi lög verða samþ. eða ekki. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi reynt að kynna sér skoðun landsmanna í þessu máli. Hann hefir heyrt óánægjuraddir nokkurra manna í einum landsfjórðungi. Á því getur hann ekki byggt þessa staðhæfingu. Því verður ekki neitað, að þeir, sem samþ. þessi lög, eru að hjálpa þeim, sem eru óánægðir, til þess að steypa fisksölusambandinu.

Hæstv. ráðh. komst réttilega að orði, þegar hann sagði, að til væru menn í þessum félagsskap eins og öðrum, sem hefðu eiginhagsmuni fyrir augum og þætti þröngt um sig í félagsskap, þar sem allir væru bundnir víð sama borð. En einmitt þeim, sem gætu hugsað til eiginhagsmuna í þessu sambandi, er gefið fyrirheit um það, að löggiltir verði einkaútflytjendur, ef fisksölusambandið verður lagt niður og þessi lög staðfest. Ég veit ekki, hvaða fyrirheit er meiri hvatning þessum mönnum til handa til þess að lóga þessu óskabarni flestra fiskframleiðenda í landinu, S. Í. F., heldur en þetta. Náist ekki þessi samvinna og samtök um 75% af fiskmagni allra landsmanna, þá er hinu beinlínis lofað, að fyrst um sinn skuli vera löggiltir útflytjendur, og megi samkv. frv. vera allt að 20, þar sem svo er tekið til orða, að þeir, sem hafi yfir 20 þús. skp. að ráða, geti eftir frv. vænzt þess að fá að verða útflytjendur.

Þá minntist hæstv. ráðh. á annað atriði, sem hann virtist telja aðalástæðu fyrir því, að þetta frv. er fram komið. Það var fulltrúafundurinn í sölusamlaginn í haust. Hann segist hafa frestað að leggja frv. fram þar til þessi fundur hafi verið afstaðinn. Þetta stafar af því, að honum hefir ekki líkað þær till. um stjórnarháttu, sem samþ. var að leggja til, að lögfestar yrðu síðar af sölusambandinu. Eins og ég hefi tekið fram, er þessi samþykkt, sem gerð var á fundinum í haust, frv. til skipulagningar S. Í. F. Þetta frv. hefir verið lagt fyrir fiskframleiðendur innan sambandsins. Hér er því ekki um endanlega ákvörðun að ræða.

Ég tók það fram í byrjun á þessum fulltrúafundi, að ég vildi ekki binda mína umbjóðendur við samþykktir fundarins, fyrr en ég væri búinn að leita álits þeirra heima í héraði. Ég er undrandi yfir því, að hæstv. ráðh. skuli telja þetta einu aðalástæðuna til þess að þetta frv. er fram komið. Hitt hlýtur öllum að vera ljóst, að með þessu frv. er hann og þeir, sem honum fylgja, að ýta undir óánægjuna innan sölusambandsins og undir sérhagsmunastreitu þeirra, sem þykir of þröngt um sig og sína sérstöku hagsmuni í félagsskapnum. Ég er ekki í neinum vafa um hitt, að ef þetta frv. hefði ekki komið fram, þá hefði verið mjög auðvelt að fá sama fiskmagn handa fisksölusambandinu eins og undanfarin ár, og ef til vill meira. Mér er a. m. k. kunnugt um það, að menn, sem skipta við það firma, sem starfað hefir við hliðina á sölusambandinu, hafa sumir hverjir horfið yfir til fisksölusambandsins.