06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það er svo fyrirmælt í þingsköpum, að við 2. umr. skuli ræða um einstakar greinar og brtt. Samkv. því verður varla svigrúm til að ræða mitt nál. nú, því að það er um málið almennt og beinist ekki að einstökum greinum og er eiginlega aðeins rök þau, sem ég færði gegn málinu við 1. umr.

Um brtt. meiri hl. hefi ég í rauninni ekkert að segja; þær eru svo lítilvægar. Orðabreyt. tel ég til bóta. Það er hugsunarréttara að segja rafmagnsveita en rafveita, því að það er magnið, krafturinn, sem veitt er, en ekki rafið sjálft, þótt rafmagns yrði fyrst vart í sambandi við það efni. Það er einn af meginkostum íslenzkunnar, hve hugsunarrétt hún er, og þann kost hennar ætti ekki síður að varðveita í orðalagi löggjafarinnar en annarsstaðar.

Ég er líka sammála þeirri brtt. meiri hl., að undanskilja ritsíma- og talsímaáhöld einkasölunni. Ég skil kannske betur en hv. meiri hl. þá, sem vilja vera lausir við afskipti einkasölunnar, en ég skil satt að segja síður í meiri hl. að fallast á að skilja landssímann einan eftir í svaði frjálsrar verzlunar, en láta hann ekki eins og alla aðra verða blessunar einkasölunnar aðnjótandi. En ég er feginn fyrir hönd allra, sem undan einokuninni losna — og get því vel fallizt á brtt. þessa.

Síðan málið var til 1. umr. hafa komið fram ýms mótmæli gegn því, að það nái fram að ganga. Þannig hafa borizt ákveðin mótmæli gegn því frá Fiskiþingi Íslands, að því leyti sem það snertir sjávarútveginn. Mér fannst hv. frsm. meiri hl. leggja minna upp úr þessum andmælum en ástæða er til. Þegar betur er litið á eru andmælin einmitt sönnun þess, að allir vilja vera lausir við einkasölu á þeim vörum, sem þeir sjálfir þurfa að nota. Það er einkennilegt, að þeir, sem kunnugastir eru bátaútveginum og eiga lífsafkomu sína undir því, að hann gangi vel, skuli ekki grípa tveim höndum við þessari einkasölu, sem á að hjálpa þeim svo ákaflega vel, eftir því sem hv. meiri hl. n. heldur fram. Þessu bjargráði, sem þjóðin er ekki nógu þroskuð ennþá til að kunna að meta. — Ef leitað hefði verið álits þeirra, sem eiga hagsmuna sína undir því að fá góða og ódýra bíla, þá geri ég ráð fyrir, að þeir hefðu beðizt undan því, að tekin væri einkasala á þeim. Og ef svo hefði verið leitað til þeirra, sem verzla með rafmagnsvörur, þá býst ég við, að farið hefði á sömu leið. Þetta eru miklu sterkari rök gegn þessu máli heldur en hv. meiri hl. n. vill vera láta. Því að hverjir eru það, sem eru öruggastir um að fylgja sinni sannfæringu í þessu máli? Það eru þeir, sem eiga lífsuppeldi sitt undir því að verzla með þessa vöru, og einmitt það, að fiskiþingið varð til þess að andmæla þessari bjargráðaráðstöfun viðvíkjandi bátaútveginum, sýnir glöggt, að þeir, sem bezt þekkja til á þessu sviði, hafa ekki trú á því, að einkasalan útvegi þeim þessa vöru fyrir betra verð og með hagkvæmari kjörum en þeir hafa áður haft við að búa.

Það getur vel verið um þetta mál, eins og svo mörg önnur, að forlög þess séu ráðin fyrirfram, og sama sé, hvað fyrir kemur, að það haggi ekkert sannfæringu manna, en ef nokkur rök ættu að hagga sannfæringu manna, þá eru það þær mótbárur, sem komu frá fiskifélaginu um einkasölu á mótorvélum. Auk þess hafa komið fram, síðan þetta mál var síðast til umr., mótmæli frá verzlunarstéttinni, sem ég skal ekki gera að umtalsefni, bæði vegna þess, að það er betra þegar ræða á almennt um málið, og svo vegna þess, að ég hygg, að þessum andmælum sé ekki lokið ennþá. Það eru að vísu komin andmæli frá nokkrum hundruðum kaupmanna, en þegar maður lítur á, hvaðan þau eru komin, þá sést, að þau eru mest frá ákveðnum stöðum, en frá öðrum stöðum á landinu hafa engin andmæli komið ennþá, svo búast má við, að þau komi fleiri en lýkur.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um þetta mál almennt, af því að það á ekki við við þessa umr. En mér finnst alvarlegastur, bæði að því er snertir þetta frv. og fleiri einkasölufrv., sá glundroði og upplausn, sem slíkar byltingar á atvinnulífinu hljóta að koma af stað, og ef það er talin nauðsyn að koma slíkum byltingum á, þá finnst mér að eigi að velja til þess þann tíma, sem þjóðfélagið hefir efnalega bezt ráð á því að láta svo og svo mikið fara forgörðum af sínum verðmætum. Því að það er tvímælalaust játað af öllum, og m. a. af hæstv. ráðh., að slíkar aðgerðir sem þessar hafa alltaf í för með sér mikla truflun meðan þær eru að komast á.

Það hafa komið fram andmæli, er snerta nokkuð á 4. þús. manna, sem nú hafa atvinnu við verzlun, og það má búast við því, að svo og svo mikill hópur af þessu fólki verði atvinnulaust eða atvinnulítið, ef þetta frv. verður samþ. og haldið verður áfram á þessari sömu braut. Það getur verið, að þjóðfélagið komist fljótt í jafnvægi aftur, en slíkt sem þetta hlýtur að hafa í för með sér mjög mikla byltingu meðan á því stendur, og ég veit ekki, hvort hæstv. stj. og þingi finnst nú vera heppilegur tími til þess að koma slíku róti á, — hvort þeim finnst það heppilegt, samtímis því, að verið er á alla bóga að gera hallærisráðstafanir. Það er búið að gera mikla hallærisráðstöfun fyrir landbúnaðinn, og það liggur fyrir að gera það sama fyrir sjávarútveginn, og sífellt er verið að hækka þá upphæð, sem ætluð er til atvinnubótavinnu til þess að létta af atvinnuleysinu. Ég veit ekki, hvort þessum mönnum finnst þetta heppilegur tími til þess að koma upp í landinu allmiklum nýjum atvinnuleysingjahóp á þessu sviði, sem hér er um að ræða. Ég held, að þetta mundi enginn gera, sem hefði ábyrgðartilfinningu og þá hugsun, sem þarf til þess að láta sér annt um þjóðfélagið, og ég býst við, að það séu þessar ástæður, sem valda miklu um það, að jafnaðarmannaflokkarnir í nágrannalöndunum hafa ekki lagt út á þessa braut, sem þessir nýbökuðu valdhafar hér á landi eru svo fljótir að leggja á og er svo annt um. Ég er hræddur um, að það þyki nokkuð óþingleg orð að segja þetta gamla máltæki, „að fíflið leggur fyrst á foraðið.“ Þessir nýbökuðu valdhafar, sem hvorki hafa vit né góðan vilja á við flokksbræður þeirra í öðrum löndum, verða einmitt fljótastir til þess að kasta sér út í þetta fen, sem hér er um að ræða. Það getur verið, að nágrannaþjóðirnar horfi með ánægju á þetta, og þeir vilji gjarnan hafa einhver tilraunadýr, rétt eins og þegar mönnum finnst rétt að gera tilraunir á kanínum og rottum áður en það er reynt á mönnum, eða eins og þegar hér áður fyrr rak ókennda skepnu á land, þá var sveitarómögum fyrst gefið að éta af henni, áður en borið var fyrir almennilegt fólk. Ég geri ráð fyrir, að nágrannaþjóðirnar líti með eftirvæntingu á það, hver árangurinn af þessu verður hér hjá okkur; þeim finnst ekki svo mikið um okkur Íslendinga.

Hv. frsm. meiri hl. tók til greina eina þá ástæðu, sem ég bar fram móti einkasölum yfirleitt, sem sé þann tekjumissi, sem af þeim hlýzt fyrir bæjarfél., og var hann að tala um, að það væri kannske rétt að bera fram nokkra breyt. á l. um gjöld til bæjarfél. af ríkiseinkasölum. Það er gott að heyra slík huggunarorð fyrir bæina, en þó væri meira virði, að það væri einhver trygging fyrir efndum á því. Það er ekki víst, þó að hv. frsm. meiri hl. komi með till. í þá átt, að henni yrði tekið greiðlega, m. a. af hálfu hæstv. fjmrh., sem ekki mundi vilja sjá af því fé úr ríkissjóði. Eftir stefnu þessa hæstv. fjmrh., sem virðist hafa það eina áhugamál að reyta sem mest af tekjustofnum frá bæjarfél., þá er ég hræddur um, að hann taki dauflega í að láta þessa stofna borga allmiklu meira fé til bæjanna, a. m. k. komi það illa heim að hækka þessi gjöld til bæjanna jafnhliða því, að ríkissjóður ræðst meir og meir á aðaltekjustofna bæjanna, sem eru beinu skattarnir. E. t. v. má vænta yfirlýsingar frá hv. frsm. meiri hl. um þetta nú við þessa umr., og væri æskilegt, að hún kæmi fram. Þá getur maður sagt, að þessi eina ástæða sé að nokkru rýrð, ef hægt er að bæta úr þessu, en þá eru líka tekjurnar minni, sem ríkissjóður hefir af þessu, eða þá verðið hærra fyrir þá, sem þurfa að nota þessar vörur.