06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það er aðeins út af einn atriði, er fram kom í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem ég þarf að segja nokkur orð.

Hv. þm. sagði, að hv. frsm. meiri hl. hefði verið að tala um, að komið gæti til mála að hækka eitthvað það tillag, sem sveitar- og bæjarfél. fá af tekjum ríkisverzlana, og í þessu sambandi fór hann fram á að fá einhverja yfirlýsingu í þessu máli.

Ég get ekki gefið neinar yfirlýsingar um það að svo stöddu, nema það er hugsanlegt, að hægt sé að ganga inn á að ætla sveitar- og bæjarfél. eitthvað meiri part af ágóða þessara fyrirtækja, sem hér um ræðir, heldur en hingað til hefir tíðkazt. En um það hefir ekkert verið rætt, svo ekki er hægt að gefa neinar yfirlýsingar um það.

Svo var annað atriði, sem hv. þm. talaði um, að það yrði atvinnuleysi, sem stafaði af því, að þessi fyrirtæki kæmust á fót. Það kann að vera, að eitthvað af verzlunarmönnum misstu atvinnu, en ég hefi ekki trú á, að það yrðu margir, vegna þess, að þessi fyrirtæki mundu þurfa marga starfsmenn. Þó þeir yrðu ekki eins margir eins og við einkarekstur, þá mundi sá munur ekki verða gífurlegur, svo atvinnuleysið í heild mundi áreiðanlega ekki mikið aukast, þó að þetta yrði gert.

Ég ætla ekki að svara því, sem hann talaði um, að við værum fífl. Ég lít svo á, að slík ummæli séu þeim mönnum mest til skammar, sem þau segja, en ekki þeim, sem fyrir slíku verða.