27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál að sinni; ég geri ráð fyrir, að tækifæri gefist til að ræða það nánar við síðari umr. Þó vil ég ekki láta hjá líða að minnast á fyrirspurnir þær, sem fram komu frá hv. 3. þm. Reykv.

Hann spurði, hvað liði frv. um hækkun á benzínskattinum, og hvort nokkurt samband væri milli þess frv. og frv., sem hér liggur fyrir. Frv. um benzínskatt liggur eins og menn vita fyrir n. í Ed., og á þessu stigi málsins er ekkert hægt að upplýsa um, hvort það gengur áfram í gegnum þingið eða með hvaða hraða, né hvernig því lyktar. En ég get upplýst það, að ekki hefir verið hugsað neitt sérstakt samband milli þessara tveggja frv. Ég held, að ég hafi áður tekið fram hér í d., að tekjuöflunarfrv. þau, sem nú eru fram komin af hálfu stj., eru þannig hugsuð, að ef þau eru öll samþ., gefi þau tekjur upp í þann tekjuhalla, sem nú er á fjárlfrv. Satt að segja reiknum við ekki með miklum tekjum af þessu frv., a. m. k. ekki á næsta ári.

Þá spurði hv. þm., hvort ekki væri eins gott að hætta við þær einkasölur, sem heimilaðar eru í þessu frv., og snúa sér í staðinn að því að taka einkasölu á steinolíu og benzíni. Ég skal taka það fram, að stj. hefir nokkuð athugað þetta mál, því eins og hv. þm. tók fram, er heimildin til einkasölu á olíu ennþá í gildi. Um verzlun þessarar vöru er það að segja, að til hennar hefir verið komið upp afardýrum tækjum, hinum gríðarmiklu tönkum. Áður en til ríkiseinkasölu gæti komið þyrfti að rannsaka nákvæmlega, með hvaða kjörum væri hægt að ná tökum á þessum geymum, og er vafasamt, hvernig það mál færi.

Auk þess er önnur ástæða fyrir því, að stj. hefir ekki að svo stöddu getað sinnt þessu máli. Svo sem kunnugt er, hefir olíuverzlunin verið þannig rekin hér að undanförnu, að mikið hefir verið lánað út til útvegsmanna. Það hefir haft í för með sér, að þessi verzlun hefir verið rekin með mjög litlum ágóða, eftir því sem fram virðist koma, og skuldasöfnun er mikil. Ef taka ætti upp ríkisverzlun, yrði því að skipta snögglega um verzlunarháttu í þessari grein, og mundi það í byrjun koma óþægilegri röskun á viðskiptalífið. Það væri að vísu heilbrigðara, að olían væri seld gegn staðgreiðslu og bankarnir lánuðu aftur meira til útgerðarinnar. En gegnum þessa verzlun hefir komið talsvert veltufé inn í landið, sem þá yrði að fást annarsstaðar handa bönkunum að lána út. Stj. hefir ekki séð sér fært eins og sakir standa að gera framkvæmdir í þessa átt.

Hv. þm. talaði um, að af skattskrá Rvíkur væri sjáanlegt, að eitt olíufél. hér greiddi 20—30 þús. kr. í skatt. Þetta mun vera Olíuverzlun Íslands. Ég man ekki, hvað ágóðinn var mikill hjá því fél., en hann var ekki nándar nærri eins mikill og menn gætu haldið af skattupphæðinni. Það stafar af því, hvað fél. hefir lítið innborgað hlutafé. Við vitum, að þegar fél. hafa lítið hlutafé, þá verður skattálagningin hlutfallslega mjög há, miðað við tekjur. Að öðru leyti stafar þessi hái skattur af því, að þetta fél. hefir sennilega afskrifað eitthvað minna af skuldum heldur en Shellfél., sem er alveg hliðstætt. Það er ekki á skattskrá, og sýnir það, að þessi verzlun er alláhættusöm.

Hv. þm. sagði, að sér fyndist öðru máli gegna að gefa stj. heimild til einkasölu á þeim vöruteg., sem hér er um að ræða, heldur en þó hún hefði heimild til að taka einkasölu á olíu, því verzlunin með hana snerti svo fáa, en verzlunin með hinar vöruteg. svo marga. Það kann að vera, að einkasala á olíu snerti færri aðila heldur en einkasala á öllum þeim varningi, sem hér er um að ræða. En þess ber að gæta, að ekki komist að neinn misskilningur í því sambandi, að hér er aðeins farið fram á, að ríkið taki að sér heildsölu á þessum vörum, og það snertir ekki þann aragrúa af mönnum, sem hafa atvinnu af viðgerðum í sambandi við sölu varahluta, né þá, sem lifa á smásölu þessara vöruteg. Þegar þess er gætt, hygg ég, að það séu ekki mjög mörg firmu, sem þetta snertir verulega. Þau eru auðvitað nokkur, en ekki svo miklu fleiri heldur en olíueinkasala snertir, að af þeim sökum sé rangt að veita þá heimild, sem hér er farið fram á, hafi það verið rétt að heimila einkasölu á olíu.

Ég ætla svo ekki að fara lengra út í ræðu hv. 3. þm. Reykv., ég hefi haldið mér við þær fyrirspurnir, sem hann beindi til mín.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann henti sérstaklega á tvennt, sem honum virtist mæla á móti þessu frv. Að einkasala þessara vöruteg. gæti valdið óþægindum í sambandi við utanríkisverzlunina, og að hún í höndum ríkisins mundi verða gjaldeyrisfrekari heldur en frjáls verzlun. Í sambandi við fyrra atriðið minnist hv. þm. á, að óframkvæmanlegt gæti orðið fyrir ríkiseinkasölu að halda sér við eina teg. vöru í hverri grein, því fleiri en eitt af viðskiptalöndum okkar myndi sennilega krefjast, að við keyptum eitthvað af þessum vörum frá sér. Um þetta er það að segja, að ég geri alls ekki ráð fyrir, að þessi viðskipti mundu valda meiri óþægindum, þó einkasala kæmist á, nema síður væri. Og þó það kunni að vera rétt, að hafa þyrfti fleiri en eina teg. á boðstólum í hverri grein, þá er það alls engin ástæða á móti einkasölu. Árið 1930 voru 74 mismunandi teg. af bílum í notkun hér á landi, svo þó að ekki dygði að binda sig aðeins við eina teg., væri auðvitað hægt að hafa miklu færri teg. heldur en nú er. Auk þess vil ég benda á annað í þessu sambandi, og það er, að eins og kunnugt er, höfum við orðið að flytja inn meira af bílum heldur en e. t. v. er æskilegt, vegna krafna frá viðskiptaþjóðunum. En ef einkasala kæmist á, þá hygg ég, að auðveldara yrði að halda niðri eftirspurninni, svo að hún skapaði ekki óeðlilega mikinn innflutning.

Um síðara atriðið, að einkasala á þessum vörum myndi verða gjaldeyrisfrek, er það að segja, að það er rétt, að reynslan er ekki sem ánægjulegust í þessum efnum. Vegna þess hvað mikill hluti ríkisteknanna er nú af tollum og verzlunarhagnaði af tóbaki og áfengi, þá má segja, að ríkið sé bundnara við að flytja inn þessar vörur heldur en æskilegt væri. En talsvert öðru máli gegnir með einkasölur, sem settar eru upp á þeim tíma, sem gjaldeyrisskortur er, því þá er hægt að gæta þess, að byggja aldrei á meiri tekjum af innflutningnum heldur en leyfilegt er miðað við gjaldeyrismöguleikana. Þetta er örðugra þegar um er að ræða einkasölur, sem ríkið er búið að binda sig við á góðu árunum að njóta mikilla tekna af. Eins og nú er ástatt myndi stj. fara mjög varlega í að ætla fyrir innflutningi og tekjum af þessum vörum, því það er vitanlega eins mikils um vert fyrir stj. að gæta greiðslujafnaðar við útlönd eins og afkomu ríkissjóðs.

Annars er það svo, að þó þessi rök séu dregin fram gegn einkasölum, þá er alveg eins hægt að nota þau gegn álagningu hárra tolla á óþarfavarning. Það er t. d. alveg sama freisting fyrir ríkið að láta flytja inn áfengi, hvort sem það fær tekjur af því með háum tolli eða verzlunarálagningu. Þetta eru nokkur rök gegn því, að ríkið leggi tolla á og verzli með óþarfar vörur, en alls ekki svo sterk að mínum dómi, að þeirra vegna beri að leggja þessa tekjuöflunaraðferð niður.