06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (3903)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hreyfði andmælum gegn frv. þessu þegar við 1. umr., og hv. n. hefir ekki gert neina tilraun til að bæta úr göllum þess. Þó hefir hv. þm. N.-Ísf. flutt brtt., sem mér þykir miður, að hann hefir borið fram, vegna þess að hann hefir viðurkennt frv., en það á ekki að ganga inn á þessa fáránlegu braut. Ég get tekið undir með hv. þm. Dal., að verið er að brjóta niður framtak þeirra manna, sem undanfarið hafa brotizt í að taka upp nýjar og nýjar leiðir, lækkað fargjöldin og keppzt um að bjóða sem bezta bíla. Það hefir verið svo, að sú bifreiðastöð, sem ætlað hefir að halda uppi ferðum, hefir orðið að endurnýja bilana, fá betri bifreiðar, eða hætta, og þetta er eingöngu að þakka hinni marghötuðu frjálsu samkeppni. Það hefir verið svo, að þeir hafa ekki þolað samkeppnina, sem ekki hafa átt beztu bifreiðarnar. Ég spyr: Hver hugsar um að hafa sem beztar bifreiðar, ef þetta frv. verður samþ., og hver hugsar þá um að lækka fargjöldin? Ég held, að með þessu sé verið að gera tilraun til að stöðva eðlilega þróun á þessu sviði. Þetta frv. mætti eins vel heita sérleyfi bifreiðastöðva til að okra á farþegum. Það er síður en svo, að ég hreyfi þessum andmælum hér f. h. bifreiðastöðvanna. Það er svo fjarri því, að þær hafi hreyft andmælum gegn þessu frv. Þeir eru ánægðir, sem eiga bifreiðastöðvarnar, þeim þykir gott, að landinu er skipt á milli þeirra, svo þeir geti okrað hver á sínum stað. Þeim þykir hentugt að geta eftirleiðis sett þá taxta, sem þeim líkar bezt, til handa landslýðnum. Það er bara sá galli á, að ekki er unnt að sjá, hvaða skaða þetta veldur, því samanburðinn vantar. Er því erfitt að sjá árangur frv. Mér finnst ákaflega óljóst ákvæði í frv. um flutningana. Í 1. gr. frv. er t. d. sagt, að engum sé heimilt að hafa með höndum fólksflutninga í bifreið, er rúmar fleiri en 6 farþega. Hvað er að hafa með höndum fólksflutninga? Hvar eru mörkin á milli? Mér finnst, að það þurfi nánari ákvæði um þetta. Má bílstjóri t. d. ekki taka menn upp af götu sinni? Það þarf nánari skilgreiningu á, hvað eru fólksflutningar. Í 5. gr. frv. stendur: „Nú sækir félag eða einstaklingur um sérleyfi til fólksflutninga á einhverri leið . . . “. En ef enginn sækir nú um sérleyfið á einhverri leið, t. d. af því hún er fáfarin. Má þá enginn flytja farþega á þeirri leið? Það getur verið, að einhversstaðar í frv. sé gert ráð fyrir, að póstmálastjórn taki þá leið að sér, en þetta er mjög óljóst. En þessi einstöku atriði eru fyrir mér ekki aðalatriði, heldur hitt, að verið er að stöðva þá þróun, sem verið hefir. Bifreiðastöðvarnar hafa keppt um leiðirnar, og eru nú komnar á það lag að skipta leiðunum milli sín, svo þær drepi ekki hver aðra. Þetta er það rétta, því svo er öllum frjálst að koma inn á þessar leiðir. Ég get hugsað, að Austfirðir standi verst að vígi, því þeir eru skemmst komnir. En það getur verið, að Dalir fái 10 kr. taxta áfram, sem annars hefði kannske lækkað niður í 8 kr., en ég tel meiri líkur til, að hann hækki nú upp í 18 kr. En hvaða kjörum verða Austfirðingar að sæta, sem ekki hafa neinn samanburð? Ég hefi einu sinni látið blekkjast til að skipuleggja hlut. Það var í alþingishátíðarnefndinni að ég dróst með að skipuleggja fólksflutninga með öllum tilheyrandi umbúðum, forstjóra, töxtum og allskonar kreddum. Flutningarnir austur gengu stirt og illa, en þó keyrði um þvert bak, þegar flytja átti fólkið suður aftur. Þá brotnaði allt kerfið, svo ekki varð við neitt ráðið, og í skyndi var ákveðið að hætta við allt saman og gefa flutningana frjálsa. Ég hefi heitið því að láta ekki teyma mig út í slíka skipulagningu oftar. Og það voru margir bifreiðaeigendur, sem sögðu mér, að þeir hefðu orðið því fegnastir, þegar þeir heyrðu, að átti að setja á þetta skipulag, því að þeir þurftu ekki að hugsa, að þeir hefðu fengið eins há fargjöld og þeir fengu, ef þetta skipulag hefði ekki verið sett. Það sama verður hér. Þetta frv. verður til þess, að þeir, sem ferðast með bifreiðum, verða að borga hærra og fá verri bifreiðar. Það verður það eina, sem almenningur hefir upp úr þessu skipulagi.