20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2813 í B-deild Alþingistíðinda. (3959)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að það er dálítið skoplegt að heyra hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. fyllast heilagri vandlætingu yfir því að heyra hv. 2. þm. Reykv. bendlaðan við að blanda saman stjórnmálum og eigin hagsmunamálum. Það er vitað, að þessi hv. þm. hefir einn sinni fengið breytt skattalögum til hagsbóta fyrir sjálfan sig. Ég skal gera nánari grein fyrir þessu. Það er kunnugt, að tekjuskattslögin voru þannig, að það gilti önnur regla um skatt hlutafélaga heldur en um skatt einstaklinga. Reglurnar um skatt hlutafélaga voru þannig, að þau hlutafélög, sem höfðu lítið hlutafé samanborið við arð, greiddu nokkuð háan skatt, og það virðist vera réttlátt, að þau félög, sem litlu fé hætta, en gefa mikinn ágóða, borgi tiltölulega hærri skatt heldur en þau félög, sem hætta tiltölulega miklu fé, en gefa lítinn ágóða. Nú hefir þessu verið breytt þannig, að hlutafélög eru látin greiða sama skatt og einstaklingar, þ. e. a. s. miðað við tekjuhæðina eina saman.

Ennfremur er það vitað, að það eina félag, sem hefir hagnað af þessu, sem um munar, er það félag, sem hv. 2. þm. Reykv. veitir forstöðu og á mikinn hluta hlutafjárins í. Svo fyllast þessir hv. valdamenn þingsins heilagri vandlætingu yfir því, að þessi maður skuli vera bendlaður við að fara eftir sínum eigin hagsmunum í sínum stjórnmálaafskiptum, þar sem það er sannanlegt með meðferð mála hér á þinginu sjálfu. Þessu getur enginn hv. þm. neitað, og ekki einu sinni þessi hv. þm. heldur. Þetta skal ég endurtaka utan þinghelginnar með mestu ánægju. Annars er það dálítið skoplegt, þegar hæstv. ráðh. er að hafa í hótunum og ógna mönnum til þess að endurtaka utan þings það, sem honum finnst meiðandi fyrir sína flokksmenn. Hæstv. forsrh. hefir orðið fyrir ásökunum utan þings, og þeim svo þungum, að hann hefir fundið sig knúðan til þess að lýsa því yfir í blöðum, að hann ætlaði að setja rögg á sig og láta sökudólgana sæta ábyrgð fyrir þá ósvífni að bera hann slíkum sökum. (Forsrh.: Hvaða ásakanir voru það?). Þessi hæstv. forsrh. lýsti því yfir í blöðum, að hann ætlaði að höfða mál gegn tveimur nafngreindum blöðum í bænum, Morgunblaðinu og Vísi, út af ummælum, sem þau höfðu um hann. Bæði þessi blöð gerðu hæstv. forsrh., þáverandi lögreglustjóra hér í Reykjavík, þann greiða að endurtaka og undirstrika öll þau ummæli, sem þau höfðu um hann haft, en hann hefir ekki farið í mál ennþá. (Forsrh.: Hvaða ummæli voru það?). Það voru ummæli í sambandi við 9. nóv. 1932. Ég veit, að hæstv. ráðh. man vel eftir þessum ummælum, en málið er ekki höfðað ennþá. Og ef ég man rétt, hefir verið sagt fullum fetum í blöðum hæstv. atvmrh., að hann hafi tekið þátt í viðskiptum fyrir nafngreint fyrirtæki, sem hann veitti forstöðu, Kaupfélag Reykvíkinga, sem menn kalla okur. Það er að segja, að kaupfélagið keypti skuldabréf með svo miklum afföllum, að það var af almenningsálitinu kallað okur, og að hann í sambandi við hv. 2. þm. Reykv. og fleiri mikils metna menn innan þessara tveggja flokka, sem nú fara með völdin, svindlaði með þessi bréf í sambandi við varasjóð landsverzlunarinnar. Þetta hefir verið sagt fullum fetum utan þinghelginnar í blöðum, og hæstv. atvmrh. hefir ekki höfðað mál út af þessu né heldur neinn þeirra manna, sem við þetta mál eru bendlaðir. En nú eru bornar sakir á hv. 2. þm. Reykv., slíkar, sem menn finna mörg dæmi til utan þings og innan, og þá fyllist þessi göfuga(!) persóna heilagri vandlætingu og skorar á menn að endurtaka þær utan þings, svo að hann geti farið í mál út af þeim. En ég sé ekki mikla ástæðu til þess að fara að óskum þeirra um að endurtaka þetta. Ég geri auðvitað ráð fyrir, að það mundi vera óhætt, af því að þegar til kæmi að fara í mál, mundu viðkomandi menn ekki þora það, eins og t. d. hæstv. forsrh., sem ekki þorði að fara í mál, sem hann þó var búinn að lýsa hátíðlega yfir, að hann ætlaði að gera. Ég er nokkurnveginn sannfærður um, að þeir þyrðu það ekki þegar til kæmi, þó að þeir sannarlega hefðu nóg tækifæri til þess að veita málaflutningsmönnum hér í bænum, bæði hv. 8. landsk. og öðrum, atvinnu við þennan málaflutning. Ég veit, að hv. 1. landsk. stóð næstur að fá atvinnu, þegar hæstv. forsrh. ætlaði að fara í mál. Ég minnist þess að hafa heyrt á samtal þeirra um hvað málatilbúningnum liði, og hv. 1. landsk. sagði, að hann væri nokkuð umfangsmikill og þyrfti töluverðan tíma til undirbúnings. Ég geri því ráð fyrir, að ef til hefði komið, hefði þessi hv. málaflm. haft góða atvinnu við að flytja málið, því að ég er ekki í neinum vafa um, að hæstv. forsrh. hefði borgað honum vel fyrir hans vinnu í málinu, því að ég geri ekki ráð fyrir, að þeir, sem málið var höfðað á móti, hefðu þurft að borga mikið. (Forseti: Ég vil minna hv. 3. þm. Reykv. á, að til umr. er mál um fólksflutninga með bifreiðum). Ég er að svara hæstv. ráðh., sem talaði um þetta mál. (Forsrh.: Ég hefi aldrei um það talað. Ummæli hæstv. ráðh. hafa gefið mér fullt tilefni til þess, er ég hefi hér sagt.

Ég hefi líka ýmislegt að segja um þetta mál sjálft. Fyrst og fremst út af þeim brtt., sem fyrir liggja. Hæstv. atvmrh. sagði nú, að það gæti ekki komið til mála að samþ. þær, og ég, eins og hv. þdm. heyrðu, var að krefja hann sagna um, hvers vegna það væri, og ég verð nú að segja, að þótt flokksbróðir minn, form. flokksins, hv. þm. G.-K., sæi ástæðu til þess að koma til móts við hæstv. ráðh. út af þessari aths. hæstv. ráðh., þá sé ég ekki ástæðu til þess, vegna þess að það, sem hann hafði fram að færa, var ekkert annað en þýðingarlaus viðbára. Það var augljóst af svari hæstv. ráðh., að hann vildi bara ekki láta breyta þessu. Hæstv. ráðh. sagðist hafa gefið yfirlýsingu um það í hv. Ed., að hann mundi sem ráðh. haga sér samkv. tilgangi hv. 8. landsk. með sinni brtt., og ég skal viðurkenna, að ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. muni telja sér skylt að haga sér samkv. þeirri yfirlýsingu. En hann gætir þess ekki, að hann á ekki víst að verða ráðh. að eilífu, og þó að hann ætti að verða ráðh., standa lögin a. m. k. þangað til þeim verður breytt, og ef galli er á lögunum í upphafi, er réttara að gera þau þannig úr garði, að þeir gallar komi ekki til greina, jafnvel þótt ekki þurfi að gera ráð fyrir því í ráðherratíð þessa hæstv. ráðh. Þó að hann lýsti yfir að framkvæma lögin samkv. till. hv. 8. landsk., á hann ekki víst, að sá, sem við tekur af honum, geri það sama. Við skulum segja, að það yrði innanflokks „revolution“ og í staðinn fyrir hv. þm. Seyðf. kæmi samþm. minn, hv. 2. þm. Reykv., og þá kynnu að vakna nokkrar efasemdir um, að sá væntanlegur eða hugsanlegur ráðh. teldi sér skylt í einu og öllu að fara eftir yfirlýsingum, sem fyrirrennari hans kynni að hafa gefið. Þess vegna er engin trygging í þessari yfirlýsingu hæstv. atvmrh., nema meðan hann situr í ráðherraembætti. En ástæður þær, sem hæstv. ráðh. færði á móti því, að hægt væri að setja slíkt ákvæði, voru þær, að það kynni að fara svo, að það yrðu þá of margir vagnar í gangi á ákveðinni leið. En það liggur í hlutarins eðli, að það er hægt að veita sérleyfi fyrir ákveðna tölu vagna, og vitanlega verður það gert, svo að það er enginn óviðráðanlegur hlutur að sjá við því, enda efast ég ekki um, að hæstv. ráðh. mundi takast að sjá við þeim örðugleika. Við verðum að gæta þess, að þessi lagasetning nær ekki til nema hinna stærri fólksflutningavagna, en þessir stóru vagnar eru vitanlega ekki í ferðum nema á fáum leiðum, og á einni langleiðinni er það vitanlegt, að aðeins tvær bifreiðastöðvar hafa haft þessa stóru vagna í ferðum. Og það er víst, að á þeirri langleið, leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar, er hægt að veita tveimur bifreiðastöðvum sérleyfi fyrir einn eða fleiri vagna hvorri. Það er ekki endilega skylda, þó að þessi brtt. hv. 8. landsk. verði samþ., að veita sérleyfi fyrir alla vagna, sem þessar tvær bifreiðastöðvar kunna að hafa haft í förum. Þess vegna er hér ekki um neina hindrun að ræða, eins og hæstv. ráðh. lét í veðri vaka, og er því ekkert því til fyrirstöðu að samþ. brtt. hv. 8. landsk. En ég skil, að þar sem málið er til einnar umr. í þessari hv. d. og svo stendur á, að ef frv. verður breytt, verður það að ganga til hinnar deildarinnar, þá sé hæstv. ráðh. og öðrum fylgismönnum málsins nauðugt að breyta frv. nokkuð. En hitt er mér svo óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. ráðh. beygir sig undir, ja, ég vil ekki segja svipu hv. 2. þm. Reykv.; þó að ég að vísu hafi heyrt orðróm um það, get ég ekki sannað, að hann hafi beint verið með svipu, en það get ég fullyrt, að hv. 2. þm. Reykv. lagði mikið kapp á, að þessi brtt. yrði ekki samþ. í hv. Ed., og hæstv. ráðh. lagðist líka á móti því, og til þess að koma í veg fyrir, að hún yrði samþ., gaf hann þessa merkilegu yfirlýsingu, sem er að vísu góðra gjalda verð. En ég læt mér ekki skiljast, að það sé nokkur ástæða málsins sjálfs vegna að leggja svona mikið kapp á, að þessu yrði ekki breytt í hv. Ed., og ég leyfi mér að segja, að ég verð að leita að einhverjum öðrum ástæðum fyrir því, að svo mikið kapp hefir verið lagt á að hindra, að þessi brtt. yrði samþ. í hv. Ed., en vegna málefnisins sjálfs.

Ég þykist nú hafa fært sönnur á, að af samþ. brtt. þurfi ekki að leiða nein vandkvæði. Ég nefndi að vísu eina langleið, þar sem þessir stóru vagnar eru í förum. Ég veit, að það kunna að vera stórir vagnar í förum á öðrum leiðum, en ég þori að fullyrða, að í flestum tilfellum standi svo á, að það sé aðeins ein stöð, sem starfrækir þær ferðir, svo að engin vandkvæði þarf af því að leiða. Yfirleitt eru það ekki nema tilbúnar ástæður, sem hæstv. ráðh. hefir fært á móti þessu, en hvers vegna hann seilist svo langt til raka, get ég ekki skilið á annan veg en þann, að hann hafi látið undan áköfum óskum um, að þessu ákvæði yrði ekki breytt. Það er einnig annað ákvæði í frv., sem ég hefi dálítið furðað mig á, hvað mikið kapp hefir verið lagt á, að ekki yrði breytt. Það er ákvæði 6. gr. frv. Mér er það óskiljanlegt, hvers vegna á að koma því fyrirkomulagi á, að þar, sem svo stendur á, að fleiri en ein bifreiðastöð hafa ferðir á sömu leið, skuli jafna tekjunum á milli þeirra stöðva, ef þær eru misjafnar. Það getur vitaskuld komið fyrir, og er þekkt úr starfrækslu þessara ferða, að bifreiðastjórarnir eru misjafnlega vinsælir hjá almenningi. Sumir bifreiðastjórar draga svo að segja að sér meginþorra þeirra manna, sem þurfa að nota þessar ferðir. En þeir eiga ekki að njóta þessara kosta sinna, heldur bæta þeim upp, sem starfrækja þessar ferðir jafnhliða þeim, og láta af hendi til þeirra nokkurn hluta af tekjum sínum. En hvers vegna eiga þeir að gera þetta? Ég get ekki gert mér grein fyrir neinni annari ástæðu en að það eigi að tryggja þeim bifreiðastjórum viðskiptamenn, sem minna eru sóttir og minni tekjur hafa. En þá komum við aftur að benzíninu. Mér finnst benzínið ganga eins og rauður þráður í gegnum allt þetta, og á bak við benzínið sé ég engan annan en hv. 2. þm. Reykv. Ég skal endurtaka þetta utan þinghelginnar með mestu ánægju.

Svo bætist við alla þá galla, sem eru á frv., að það er þannig byggt upp, að það er engin ástæða til að ætla, að það geti orðið að nokkru gagni, og það er af því, að það nær ekki til allra bifreiða. Því er ekki ætlað að ná til annara bifreiða en þeirra, sem hafa rúm fyrir fleiri en 6 farþega. En eins og menn vita, eru margar bifreiðar, sem ekki rúma nema 6 farþega, starfræktar á öllum vegum landsins, og má gera ráð fyrir, að það verði engu síður eftirleiðis en undanfarið, og einmitt miklu fremur vegna þessa skipulags, sem hér er gert ráð fyrir. Má þá búast við, að þeir, sem eiga smábifreiðar, hugsi sér til hreyfings og reyni að komast upp á milli, og geti þannig gersamlega ónýtt það starf, sem hér er verið að vinna að.

Svo að það er — auk þess að í mínum augum er tilgangur frv. mjög blandaður — ekki sjáanlegt, að þeim góða tilgangi, sem gefinn er upp í sambandi við frv., geti orðið náð, vegna þess, að lagasmíðin er ófullkomin, eins og vænta mátti, þegar vitað er, hvaðan skepnan er komin, því að ég veit ekki til þess, að frá þessari dæmalausu nefnd, sem kölluð er Rauðka, hafi komið nokkurt frv. fyrir þingið, sem hefir verið gengið skammlaust frá.

Í þessu sambandi vil ég aðeins víkja örlítið að öðru máli, sem mun hafa verið afgr. frá hv. Ed. í dag sem lög frá Alþingi, en það er frv. um heimild handa ríkisstj. til þess að taka einkasölu á bifreiðum o. fl. Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir því, í hvaða vanda hún getur komizt út af því máli. Það hafa nýlega verið birtir viðskiptasamningar milli Spánverja og Íslendinga, þar sem samið er um, að Íslendingar kaupi 80% af öllu vini, sem flutt er til landsins, á Spáni. Nú er það kunnugt, að Íslendingar reka mikil viðskipti við fleiri þjóðir en Spánverja, sem framleiða vín, og það er ómögulegt annað en að hafa áhyggjur út af því, hvernig ætti að fara að, ef t. d. önnur vínframleiðsluþjóð gerði sömu kröfur um að við keypt um 80% af öllum víninnflutningi okkar af henni. En þetta mál kemur ekki beinlínis við því máli, sem hér er um að ræða, og skal ég viðurkenna það við hæstv. forseta, að ég met það við hann, að hann hefir ekki tekið fram í fyrir mér, en þó er það þannig lagað, að þetta mál er nokkuð skylt bifreiðaeinkasölunni. Nú virðist hæstv. ríkisstj. ætla sér að taka einkasölu á bifreiðum. Nú eru búnar til bifreiðar á Spáni, þ. e. a. s. að það eru settar þar saman tvær lökustu tegundirnar, sem hér eru notaðar, eftir því sem mér er sagt. Í þeim samningum, er ég áðan minntist á, er kveðið svo, á, að þegar tekin verði einkasala á víni, skuli 80% af því verða keypt á Spáni. Við skulum segja, að Spánverjar frétti, að komin sé á bifreiðaeinkasala, og afleiðingin verður sú, að þeir gera þá kröfu, að við kaupum 80% af öllum þeim bifreiðum, sem við flytjum inn, hjá þeim. Og jafnvel þó að svo yrði ekki, þá er í þessu frv. svo ákveðið, að ríkisstj. geti ráðið gerð þeirra bifreiða, sem notaðar eru á þeim ferðum, sem á að skipuleggja með þessari lagasetningu. Mér virðist, að það geti farið svo, að ríkisstj. komist í það öngþveiti í sambandi við þessi mál, bæði bifreiðaeinkasöluna og skipulagningu fólksflutninganna, að hún verði neydd til þess að vernda lökustu bifreiðategundirnar, sem hægt er að fá, og þá verður ekki um að ræða mikið gagn af þessari skipulagningu. Ég hygg, að það hefði verið skynsamlegra að fara með nokkuð meiri gætni í þessu máli og fleirum heldur en gert hefir verið. Ég held, að hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn hafi ekki allskostar kunnað fótum sínum forráð, þegar þeir voru að undirbúa frv. undir þetta þing, og ekki athugað út í æsar allar þær afleiðingar, sem þau mundu hafa í för með sér, þegar kæmi til að framkvæma þau.

Ég held, að ekki væri mikill skaði skeður, þótt breyting yrði gerð á þessu frv., og að afleiðingin yrði sú, að það dagaði uppi að þessu sinni. Það er ekki hundrað í hættunni hvað almenningsheill snertir, þó að þessi skipulagning tefjist til næsta þings, sérstaklega ef það verður haldið fyrri hluta næsta árs. Ég er þess fullviss, að heill almennings líður ekkert við það, en hitt kann að vera, að heill Olíuverzlunar Íslands eða hv. 2. þm. Reykv. líði við það. Ég fullyrði ekkert um það, en það er bezt, að það komi fram, ef það er það, sem ræður því, að þessi lög eru endilega knúð fram á þessu þingi. Ég hika því ekki við að greiða atkv. með brtt., sem fram hafa komið, en mun greiða atkv. á móti frv.