02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (4041)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Þetta mál er nú komið inn á þann farveg, sem ég geri ráð fyrir, að allir geti sætt sig við. Því er slegið föstu í dagskrártill. landbn., að frystihúsin skuli fá styrk, er sé hliðstæður þeim styrk, sem mjólkurbúin fá. Allt orðagjálfur um það, hvort frv. hafi verið nauðsynlegt eða ekki, er því gagnslaust.

Ég benti á það strax við l. umr., að þessi ákvæði væru í gildandi l. Hv. flm. hefir nú enn haldið sig á þeirri mottunni, sem hann var á þá, að þetta lægi ekki í þeim l. Ég vil leyfa mér að minna á orð hv. frsm. landbn., er hann sagði, að þeir, sem héldu, að svo væri ekki, hefðu ekki fylgzt með gangi þessara mála. Þeir hafa ruglazt eitthvað í ríminu, og af slíkum ástæðum er þetta frv. fram borið.

Hv. flm. vitnaði í ræðu frsm. kreppun. á síðasta þingi, máli sínu til stuðnings. Hv. þm. styður sinn skilning með því, að frsm. kreppun. las upp lista, er sýndi, hversu mikið þau frystihús hefðu kostað, er þegar hefðu verið reist. En þetta sannar ekki hans mál. Það var auðvitað sjálfsagt að gera þingheimi ljóst, hversu mikil útgjöld af þessu mundu verða þá þegar. Var því nauðsynlegt að sýna, hve mikið fé hefði þegar verið lagt í þessi fyrirtæki, því að vitanlegt var, að öll þau frystihús myndu nota sér þessa heimild. En hitt var ekki hægt að sjá, hve mikil útgjöldin yrðu gagnvart þeim frystihúsum, sem ekki var búið að reisa. Ef ætlazt hefði verið til, að styrkurinn næði aðeins til þeirra frystihúsa, sem til voru, hefði það verið tekið fram í l. sjálfum. Er enginn vafi á því, að slík takmörk hefðu verið sett, ef þetta hefði átt að takmarka á annað borð. En það skín alstaðar í gegn í meðferð málsins á þingi, að ætlazt var til, að þessi ákvæði væru hliðstæð þeim ákvæðum, sem um mjólkubúin giltu. En það getur ekki orðið með öðru móti en því, að ný frystihús njóti suma styrks og hin eldri.

Þá var sjálfsagt að taka það fram, að styrkurinn til þeirra húsa, sem búið væri að reisa, skyldi ganga til afborgunar á skuldum þeirra. Var það þægilegra fyrir ríkissjóð að taka að sér styrkveitinguna í því formi, að taka að sér skuldabyrðar, er á húsunum hvíldu.

Mér er ekki verst við það, að frv. er illa orðað. Það gerði ekkert til, ef það hefði þá verið þannig stílað, að einskis væri misst af því, sem í sjálfum l. liggur. Mér er verst við það, að í frv. er styrkveitingin takmörkuð við árslok 1935. Að mínu áliti er þarna beinlínis verið að skerða þann rétt, sem frystihúsunum hafði þegar verið veittur. Ég bar því fram brtt. mína við frv., sem hefði sýnt ótvírætt, að styrkurinn ætti að haldast áfram, eins og ég tel, að felist í l., og hv. frsm. landbn. hefir viðurkennt í sinni ræðu.

Annars er ástæðulaust að þjarka mikið um þetta mál, eftir að það er á þennan hátt komið inn á hinar réttu brautir. Hv. frsm. gengur nú lengra en í frv. sjálfu og vill nú láta styrkinn gilda áfram, en ekki aðeins til ársloka 1935, eins og þar er gert ráð fyrir. Má þá taka af allan vafa í því efni með öðru tveggja, að samþ. dagskrá landbn. eða till. mína.