02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (4055)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 8. landsk. hélt því fram, að ég hefði ekki afsannað, að það væri okur að selja 25—30 aura síld, sem keypt væri á 5 aura. Ég veit ekki, hvað hv. þm. tekur gilt í þessu efni, þegar það er sannað, að allir, sem frystihús starfrækja hér á landi, selja beitusíld allt að tvöfalt dýrara. Þegar hin frjálsa samkeppni hefir úrskurðað, að síldarverðið skuli vera svona hátt, þá ætti það a. m. k. að vera sönnunargagn í augum þessa hv. þm., sem trúir á ágæti hinar frjálsu samkeppni. En þegar svo kemur fram á sjónarsviðið fyrirtæki, sem selur síldina ódýrara en öll önnur, hvernig ætlar þá hv. þm. að sanna, að það sérstaklega leggi fyrir sig okur, þó að einnig sé upplýst, að þessi starfsemi á fullt í fangi með að bera sig með þessu söluverði sínu:

Ég get að vísu ekki greint nákvæmlega frá einstökum kostnaðarliðum, en ég veit, að þessu er svona farið. Hv. þm. taldi upp eftirfarandi kostnaðarliði: Kaupverð 5 aurar, frysting 4—5 aurar, geymsla 1 eyrir á mánuði. Segjum að geymslukostnað verði að greiða í 9 mánuði. Þá eru komnir 19 aurar. Eru þá eftir 6 aurar, sem frystihúsin hafa fyrir áhættuna, þá, að þau verði e. t. v. að liggja með síld, sem ekki selst. Hefir það þráfaldlega komið fyrir í frystihúsum, bæði á Suður- og Norðurlandi, að henda hefir þurft miklum birgðum af síld, og verður slíkt vitanlega að leggjast á þá síld, sem seld er. Hér er því ekki um neitt okur að ræða. En svo ber þess að gæta, að aðrir þm. telja það fjarri lagi, að frystingin kosti aðeins 4 aura.

Þykist ég nú hafa sýnt, hversu fráleitt það er, að þessu athuguðu, að tala um okur hjá því fyrirtæki, sem selur síld ódýrast allra hérlendra seljenda.