05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (4113)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Guðbrandur Ísberg:

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr. eftir að hv. 1. flm. hafði talað og rakið skýrt og skilmerkilega rök öll fyrir máli þessu. En ummæli tveggja hv. þm. n. hafa gefið mér tilefni til þess að taka til máls. (BJ: Hverra?). Hv. þm. Barð. og hv. þm. Ísaf. Þeir hafa beint til mín þeim ásökunum, að ég hafi flutt frv. án þess að þekkja efni þess, og byggja þetta á afstöðu minni í öðru máli, sem var hér til 2. umr. fyrir nokkrum dögum, nefnilega um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Ég flutti þá brtt. við það frv., þess efnis, að útflutningsgjaldinu af landbúnaðarafurðum yrði haldið að mestu, og ennfremur, að ½% útflutningsgjalds af sjávarafurðum skyldi renna til landhelgisgæzlunnar sem varanlegt gjald. Þetta var fram borið tveim dögum áður en ég sá þetta frv., sem hér liggur fyrir. Mér varð strax ljóst, að ákvæði þessa frv. og brtt. mín rákust að nokkru leyti á, en ákvað þó að halda brtt. áfram, sem hafði að geyma ákvæði um varanlegt gjald í sérstökum tilgangi. Ég bjóst við, að till. mínar væru dauðadæmdar, því að ég vissi um marga samflokksmenn mína, sem voru þeim andvígir. Ennfremur bjóst ég við því, að þetta mál, sem nú er hér til umr., mundi eiga erfiða leið gegnum þingið. Ég bjóst við þessu af því, að ég veit ekki til, að sá flokkur, sem aðallega ræður stj., hafi nokkru sinni tekið vel undir hagsbótamál sjávurútvegsins. — En hér var þó ekki í raun og veru um annað að ræða en tilfærslu milli vasa. Ef till. mínar um útflutningsgjaldið hefðu verið samþ., svo að ½% af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum gengi til sérstakrar notkunar, svo sem þar var gert ráð fyrir, er augljóst, að þar væri létt af ríkissjóði jafnmikilli upphæð, og lá þá beint við að bera fram brtt. þess efnis, að jafnmikil upphæð yrði greidd beint úr ríkissjóði í skuldaskilasjóðinn tiltekið tímabil. Þetta hefði ég að sjálfsögðu gert, ef brtt. við útflutningsgjaldsfrv. hefði verið samþ. Það, að ég hélt þannig á málunum, gaf hæstv. fjmrh. tilefni til þess að kasta í mig skætingi, sem ég þó hirti ekki um að svara. Mér er mjög óljúft að leggja rökin til hliðar og grípa til þeirra vopna, sem mér virðast sumum hv. þm. of töm, sem sé persónulegs skætings og útúrsnúninga. Þessu veldur bæði skapgerð mín og uppeldi. En nú hafa aðrir hv. þm. höggið í sama knérunn. Svo sem kunnugt er, þýðast flestur skepnur gott atlæti, og flestir menn meta það að nokkru, að þeim sé sýnd almenn kurteisi a. m. k., jafnvel þótt þeir eigi lítið til af henni sjálfir. En það eru til þær skepnur, t. d. sumir gamlir húðarjálkar, sem eru svo skapillir og kargir, að þeir ganga ekki undan neinu nema svipunni. Og það eru til menn, meira að segja þm., sem ekki virðast taka nein önnur rök til greina en skammir, og þá helzt óbótaskammir.