14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (4164)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir nú leyst mig frá þeim vanda, að þurfa að segja hér miklu meira en það, sem ég áður hefi sagt. Hann talaði stutt og svaraði fáu úr ræðu minni, enda hafði ég ekki miklu til hans vikið, og minna en vert var. Þó eru nokkur þau atriði í ræðu hans, sem ég finn ástæðu til þess að minnast á. Hv. þm. sagði, að mþn. í sjávarútvegsmálum hefði ekki komið fram með neinar frambærilegar till. um lausn á vandræðum sjávarútvegsins, aðrar en þetta frv. um Skuldaskilasjóð. Þetta er hreinasta fjarstæða. Hv. þm. hafa flestir kynnt sér álit mþn. og þau frv., sem borin hafa verið fram að tilhlutun hennar, og þar eru mörg fleiri vandamál útvegsins tekin til lausnar en skuldaskilamálin. Við nm. lögðum aðaláherzluna á þörfina á því, að færa niður kostnaðarliði útgerðarinnar. Og við lögðum í allmikla fyrirhöfn og kostnað til þess að afla okkur sem beztra upplýsinga um það, hvað útgerðin kostaði í einstökum greinum, og gerðum svo samanburð á því, hvað útgerðarvörur kostuðu hér og í nágrannalöndunum. Þetta gerðum við með það fyrir augum, að reynt yrði að gera ráðstafanir til þess, að nauðsynlegustu útgerðarvörurnar gætu lækkað í verði. Ég hefi sérstaklega talað um brennsluefni, kol og olíu, beitu, veiðarfæri og vexi. Ég veit, að hv. þdm. er það kunnugt, að auk þessa frv. hefir n. borið fram frv. um vátryggingu opinna vélbáta, og frv. um rekstrarlánafélög. Og með því að koma fyrir lánum til útgerðarinnar á hagkvæman hátt hefir verið bent á, að megi færa kostnaðarliði mikið niður. Ég veit ekki, hvað er meiri fjarstæða en að halda því fram, að n. hafi gengið framhjá þessu atriði. Ég get ekki í fljótu bragði talið upp öll þau atriði, sem n. bendir á í þessa átt. Með frv. um rekstrarlánafél. er að mínu áliti, ef ekki tryggt, þá a. m. k. opnuð leið til þess, að menn geti gert, ekki aðeins félag um kaup með staðgreiðslu, og fært þannig kostnað við útgerðarvörur niður, heldur auk þess, eftir frv. ef að l. yrði, yrði smáútgerðarmönnum fært að taka verzlunargróðann af fiskinum í sínar hendur gegnum sölusambandið. Þetta hefir hv. þm. skotizt yfir, og verð ég að álíta, að hann hafi ekki lesið grg., því þó að ég hafi ekki borið lof á þennan hv. þm., verð ég að halda hann svo greinagóðan mann, að hann hefði skilið þetta, ef hann hefði lesið það. Hv. þm. sagði, að fyrsta skilyrðið fyrir því, að útgerðin gæti borið sig, væri það, að hún gæti tekið verzlunargróðann í sínar hendur. Þetta er einmitt tilætlunin og lögð áherzla á það í frv. um rekstrarlánafélög og á mörgum stöðum í nál., að þetta geti orðið. Það er ekki rétt, að bankarnir hafi slegið því föstu, að í nál. væri ekki lagður grundvöllur að þessu, þó í umsögn þeirra á einum stað segi, að þetta megi gera með þeim l., sem nú eru; en það þýðir ekki að segja það, þegar það er ekki gert. En hér hefir verið brotinn ísinn, og er hin mesta fjarstæða, að frv. þetta, ef að l. yrði, gæti engu til leiðar komið til hjálpar. Hv. þm. hafði þau orð, að frv. væri tilgangslaust og gagnslaust, og eru það allt önnur orð en hann sagði í sjútvn. Þar voru ummæli hans byggð á skilningi, sem nú virðist hafa yfirgefið hann í hitanum um þetta máli.

Þá sagði hv. þm., að aldrei hefði verið minnzt á þann verðmun, sem væri á útgerðarvörum á ýmsum stöðum á landinu. Þetta hlýtur að stafa af því, að hann hafi ekki lesið nál. Einnig vildi hann hafa eftir mér þau ummæli, að þessi verðmunur á stærri og smærri stöðum væri ekki óeðlilegur. Ég sagði ekki þetta, heldur að ef hver einstaklingur væri að kvotlast út af fyrir sig með salt og aðrar nauðsynjar, þá yrði það dýrara en ef fengnir væru á hafnirnar heilir farmar. Þetta ætti að vera hverjum manni skiljanlegt. Við veiðistöðvarnar hér suður með sjónum. t. d. í Grindavík, er salt og aðrar nauðsynjarvörur til útgerðar afskaplega dýrt, sem stafar af því, að menn verða að fá þetta flutt með bifreiðum langar leiðir frá öðrum stöðum, og geri ég þó ráð fyrir, að flutningsgjöldin séu ekki of há, eftir því sem þeir flutningar kosta, enda óhugsandi, þar sem jafnmargir bifreiðaeigendur keppa um flutningana. Það er því mikill galli, að þessir flutningar þurfi að eiga sér stað, en geta ekki fengið vörurnar beint á höfn. Úr þessum galla álitum við að megi bæta, með því að fleiri keyptu í félagi og fengju vörurnar allar fluttar í einu fyrir vertíð.

Þá sagði hv. þm., að hvergi væri minnzt á af okkur, að stjórnarkostnaður við fyrirtækin væri óeðlilega hár. Það er nú svo, að stjórnarkostnaður var yfirleitt ekki sérgreindur í rekstrarreikningunum, og mismunandi hvernig menn telja hann. Sumir telja vinnu í skrifstofu með venjulegum vinnulaunum, og hjá flestum er þar í falinn partur af stjórnarkostnaði, og svo var það á skýrslu frá fyrirtæki því, sem hv. þm. veitir forstöðu. Þyrfti því sérstaka rannsókn til þess að ganga úr skugga um, hvort rétt er talið. Ég veit, að stjórnarkostnaður er mismunandi, þó ég telji ekki rétt að tilfæra eða nefna ákveðnar tölur, sem mér er trúað fyrir. En mér er kunnugt um eins og fleirum, að stjórnarkostnaður við það fyrirtæki, sem hv. þm. veitir forstöðu, er óeðlilega hár. Það koma því úr hörðustu átt ummæli hans og upptugga úr blöðum til þess að vekja tortryggni um, að stjórnendur þessara fyrirtækja hefðu óeðlilega há laun. Ég gæti bent á eitt slíkt fyrirtæki, sem ég þekki, og sýnt fram á, að forstjórinn hefir lægst laun af öllum þeim, sem við það vinna að staðaldri, og minna en lægst launaði hásetinn. Þetta er velkomið að sýna reikningslega, því ég hefi það á reiðum höndum, og ég býst við, að þetta verði á sama hátt þó skipt verði um framkvæmdastjóra.

Hv. þm. mótmælti harðlega, að það fyrirtæki, sem hann veitir forstöðu, hefði orðið byrði borgurunum á Ísafirði. En þessu þýðir ekki að mótmæla. Þetta hefir verið rætt opinberlega og sýnt og sannað, að það skuldar Ísafjarðarkaupstað á annað hundrað þús. kr. auk ábyrgða, og birt opinberlega, að því hafa verið gefnir eftir vextir. Og það er ekkert ámælisvert, þó fyrirtæki, sem veitt hefir mikla atvinnu, væri gefið eftir, og ekki nema eðlilegt, þó bærinn og ríkið hlaupi undir bagga. Hitt er óeðlilegt og leiðinlegt, að fyrirtæki, sem búið er að hlaða jafnmikið undir og búa jafnvel að, skuli vera byrði á bænum, og þó einkum hve stjórnin á því hefir mistekizt herfilega. Hv. þm. var að skora á mig að sanna þetta. Ég held, að ekki þurfi annað en taka reikninga Ísafjarðarkaupstaðar og leggja fram, og þeir munu sýna þetta. Þetta held ég, að sé, það eina efnislega atriði úr ræðu hv. þm., sem til mín kemur að svara.

Ég ætla ekki að víkja mikið að persónulegu aðkasti hv. þm. Hann sagði, að ég hefði mestan hluta æfinnar lifað á molum, sem dottið hefðu af borðum kaupmanna á Vesturlandi. Það er satt, að ég hefi verið nægjusamur og lifað á litlu, en borið mig að vinna fyrir því. Ég hefi lengst af setið í einni lægst launuðu stöðu þjóðfélagsins, kennarastöðunni, og unnið auk þess ýms störf í frístundum, og ekki verið undan kvartað. Hefir það ekki frekar verið hjá kaupmönnum en öðrum, en mest aukavinna í minni grein — kennslunni. Var form. í skattan. Ísafjarðar, sem ekki var hátt launað starf, og form. í fasteignamatsn. með 5—6 kr. kaupi á dag. Þeir menn, sem þessi störf vinna, munu flestir skoða það fremur borgaralega skyldu en atvinnu. Annars ætla ég ekki að þræta við hv. þm. um, hvernig ég hefi leyst þau verk af hendi.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið hneyksli að setja mig í mþn. í sjávarútvegsmálum, því ég væri ekki líklegur til þess að vinna þau verk samvizkusamlega. Þar er langbezt að leita umsagnar meðnm. minna og ríkisstj. um. hvernig hafi tekizt um árangur af þessu verki og öðrum, sem ég hefi verið settur til að vinna. Það hefir gengið svo, að ýtt hefir verið á mig fleiri störfum fyrir það opinbera en þægilegt hefir verið, þar sem þau eru flest lítt launuð. Ég veit ekki til, að nokkur maður hafi fundið að starfi mínu sem form. í skattan. Ísafj. (Þori ég að fullyrða, að 2 flokksmenn hv. þm., sem sátu með mér í n., hafa aldrei látið orð falla um það við hv. þm., að starf mitt þar hafi mistekist. Ég ætla ekki að þakka það mér fremur en samnm. en ég get sagt, að fulltrúi í stjórnarráðinu lýsti yfir, að hann hefði ekki fengið eins greinagóða skýrslu og frá Ísafirði, nema úr Reykjavík: þá var hér skattstjóri Einar Arnórsson. Þetta hygg ég, að hv. þm. sé nú fullkunnugt, en annað sé mælt meir vegna þess, að hann hafi kennt nokkurs sársauka undan viðskiptum okkar hér á Alþ. — Þá held ég, að ég hafi ekki fleiru að svara.

En hvað viðvíkur afgreiðslu þessa máls nú þ. e. a. s. atkvgr. um dagskrá þá, sem hér liggur fyrir, vildi ég segja nokkur orð, því það mun fara að líða að atkvgr. Dagskrártill hafa hv. þm. fyrir sér, en ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp:

„Þar eð vandræði sjávarútvegsins yrðu ekki leyst nema að mjög litlu leyti með afgreiðslu frv. þessa og fyrir liggja umsagnir frá bankastjórum landsbankans og Útvegsbanka Íslands h. f. um að eigi þurfi að óttast stöðvun á útgerð landsmanna eða eigendaskipti umfram venju vegna skulda, fyrir næstu vertíð, og ennfremur að skuldaskil kæmu eigi heldur til framkvæmda fyrir vertíðina, þó frv. næði fram að ganga, og í trausti þess, að stj. leggi fyrir næsta þing framhaldandi till. um viðreisn sjávarútvegsins, þar á meðal till. um aðstoð ríkisins til skuldaskila vélbátaútvegsins, er fram fari á næsta ári, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er náttúrlega frá mínu sjónarmiði og okkar flm. frv. ekkert á móti því, að ríkisstj. taki málið í sínar hendur til rækilegrar athugunar og leggi það svo fyrir næsta þing, ef frv. verður ekki afgr. á þessu þingi. Á móti því getum við vitanlega ekki verið. Hitt er annað mál, að rökstuðningur dagskrárinnar er hvergi nærri viðunandi. Þar sem stendur í upphafi till., að „vandræði sjávarútvegsins verði ekki leyst með afgreiðslu frv.“ er rökvilla. Þó þau hefðu ekki verið leyst nema að nokkru leyti á þessu þingi, er vanhugsað, að ekki þurfi fyrir því einhversstaðar að byrja. Ég ætla, að ég hafi fært rök að því, og þó e. t. v. betri í grg. frv., að sá þáttur í þessu máli, sem byrja verður á, er skuldaskilin — að koma fjárhag útgerðarinnar á sæmilegan grundvöll. Það verður alltaf byrjun að viðreisninni. Allar aðrar aðgerðir hljóta að bíða þar til skuldaskil eru gerð. Okkur flm. er ljóst, að frv. um rekstrarlánasjóð er í raun og veru gagnslaust, nema skuldaskilin fari fram áður. Eftir frv. er ætlazt til, að menn í sömu verstöð gangi saman í félag til að panta vörur og greiða við móttöku, en til þess að það geti orðið, þarf að setja á stofn rekstrarlánafélög og sjá mönnum fyrir einhverri frambærilegri tryggingu, því ég geri ráð fyrir, að þær verði víða af skornum skammti, og einhvern viðauka þurfi við það, sem menn hafa í fjármunum. Þennan viðauka verða menn að skapa sér með því að standa saman — að menn séu samábyrgir fyrir þær lántökur, sem teknar eru í félaginu. Eitt kemur ekki til greina um lántökur eða ábyrgðir einstakra manna. Nú eru kannske aðeins 2—5 af þessum mönnum vel stæðir, en allir hinir annaðhvort félitlir eða félausir. Þá gefur að skilja, að það yrði erfiðara að fá þá til að ganga í þennan félagsskap í þeim tilgangi að standa hver með öðrum, ef ekkert er búið áður að laga fjárhag manna almennt. Það er því búið við, að þessi félagsskapur næði ekki að komast á, ef skuldaskil hefðu ekki áður farið fram. Aftur á móti, ef búið væri að gera þannig upp fjárhag manna, svo að enginn útgerðarmaður skuldaði meira en, við skulum segja 65% móti eignum eins og stungið er upp á í frv., þá væri ólíkt aðgengilegra fyrir þá, sem eru efnum búnir, að ganga saman í samábyrgð. Ég bendi á þetta til sönnunar því, hvað það er alveg nauðsynlegt, að útgerðin sé reist við með skuldaskilum. Því er það rökvilla að halda því fram, að skuldaskil hafi enga þýðingu, hvort þau byrja ári fyrr eða síðar. Þau eru nauðsynlegt upphaf annara aðgerða, sem á eftir koma.

Þá er dagskráin rökstudd með því, að bankarnir hafi látið það í ljós, að skuldaskil gætu hvort sem er ekki farið fram fyrir næstu vertíð. Þetta er líka rökvilla. Það liggur í augum uppi, að fullnaðarskuldaskil gætu aldrei tekið stuttan tíma. Við flm. frv. höfum gert ráð fyrir, að það gæti orðið allt að 2 árum, sem það tæki að gera fullnaðarskuldaskil. Það er síður en svo að það velti á litlu, hvenær á þessu er byrjað. Þetta sannar miklu frekar álit okkar, að nauðsynlegt sé, að þessi skuldaskil byrji sem allra fyrst. Hitt er annað mál, að ef einhver hefir þann ranga skilning á þessu máli, að skuldaskil geti gengið fyrir sig á nokkrum mánuðum, t. d. milli vertíða að frá sjónarmiði slíkra manna mundi þessi frestur ekkert gera til, en þessi skoðun er röng og ekki byggð á athugun á málinu.

Vegna þessa rökstuðnings get ég ekki verið með þessari dagskrá, enda þótt ég sé niðurlagi hennar að því leyti samþykkur, að ég vil skora á hæstv. stj. að gera ráðstafanir til þess, að á næsta þingi verði gengið frá því að setja þær reglur, sem skuldaskilin eiga að fara fram eftir. Ég er ennfremur algerlegu samþ. því, að ef unnt væri að binda atkv. þm. við frv. með samþykkt þessarar dagskrár, eins og hv. þm. tók réttilega fram, þá er það þó nokkurs virði. Ég vil ekki halda því beint fram, að á þeim loforðum væri lítið eða ekkert að byggja frá hendi stuðningsmanna hæstv. stj. Ég veit, að á slíkum loforðum væri fullkomlega að byggja frá sumum þeirra, ef maður mætti vænta, að handjárnin yrðu rýmri á næsta þingi, en ég get ekki annað en látið í ljós, að ég byggi ekki á slíkum loforðum frá öllum stuðningsmönnum hæstv. stj.

Þessar framhaldstill. um viðreisn sjávarútvegsins virðast mér benda í þá átt, að það hafi vakað fyrir þeim, sem sömdu þessa dagskrártill., að á sama þingi ætti að gera fleiri ráðstafanir en um skuldaskil. Það er náttúrlega ekki nema gott um það að segja, en það veltur þó mjög á því, hverjar þær ráðstafanir eru. Mér skilst t. d. á hv. þm. Ísaf. og mörgum fleiri, að þeir vilji t. d. kalla það ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum, sem gerðar eru með frv. um fiskimálan. En sumt í því frv. er frá mínu sjónarmiði beinlínis fjörráð við útgerðina. t. d. einkasalan. Þannig getur mönnum mjög borið á milli um það, hvað séu ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum, og ég mundi telja það mjög mikilsverðar till. til viðreisnar sjávarútveginum, ef hv. þingmeirihl. snerist á þá sveif til næsta þings, að fylgja fram þeim till., sem fram eru fluttar í frv. um fiskiráð, því að það er enginn vafi á því, að þar er stefnt að því að ráða bót á einhverjum stærstu vandræðum útgerðarinnar, en það frv. hefir átt lítilli velvild að mæta af fylgismönnum stj. Og ég vil þá, fyrst ég minnist á það frv., nota tækifærið til að vekja athygli á því, að mþn. í sjávarútvegsmálum tók það einmitt fram, þegar hún ræddi um þær umbætur, sem þyrftu að fylgja strax á eftir skuldaskilum fyrir sjávarútveginn, og safnaði að sér ýmsum gögnum frá kunnáttumönnum, um það, hvað helzt mætti verða til þess að rýmka markaðina fyrir sjávarafurðir og koma þeim í það verkunarástand, að þær yrðu aðgengilegar á fleiri markaðsstaði en nú. Í því sambandi vísaði n. einmitt til þessa frv., sem form. Sjálfstfl. þá hafði borið fram á þingi. frv. um fiskiráð, sem að áliti n. átti að geta, ef vel hefði verið undir það tekið, einmitt bjargað við þeim þætti af vandræðum sjávarútvegsins. Ég held því, að enginn maður mundi geta sagt annað, ef hann vildi tala af sanngirni, en að mþn. hafi reynt að benda á flest þau mál, sem til viðreisnar megi verða fyrir sjávarútveginn, engu síður önnur atriði en þetta um skuldaskilin. — Ég hefi þá lokið máli mínu að þessu sinni.