18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (4218)

53. mál, opinber ákærandi

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, hefir mál þetta legið fyrir allshn., og n. hefir klofnað um afgreiðslu þess, eins og raunar flestra mála, sem fyrir henni hafa legið. Meiri hl. n. vill leggja það til, að málinu verði frestað, og ber fram sérstaka rökst. dagskrá um þetta efni, og mun ég koma að því síðar. En minni hl. n., hv. 8. landsk. og ég, er þeirrar skoðunar, að þetta mál sé nytjamál og horfi til umbóta á réttarfarslöggjöf þjóðarinnar, og þess vegna sé rétt, að það nái fram að ganga. Frv. felur það í sér, að ákæruvaldið sé tekið úr höndum framkvæmdavaldsins og falið sérstökum ópólitískum embættismanni. Það er tvímælalaust til bóta, ef sú skipun verður tekin upp, og þar með ætti það að vera tryggt, að ákæruvaldið yrði eingöngu notað til þess að koma fram refsingu gegn þeim, sem brotlegir hafa orðið við landslögin, en að því yrði ekki misbeitt í pólitískum tilgangi, til ofsókna á pólitísku andstæðinga, eins og því miður stundum hefir komið fram með þjóð vorri.

Meiri hl. allshn. heldur því fram, að þar sem nú sé búið að skipa lögfræðinganefnd, sem á að endurskoða réttarfarslöggjöfina í heild, þá sé rétt, að þetta atriði bíði eftir niðurstöðum n. þeirrar. Ég verð nú að telja, að það sé mjög tvísýnt, hvenær þessari rannsókn verði lokið hjá þessari lögfræðingan., og í öðru lagi hvenær málið verði afgr. af þinginu. Það er vitanlegt, að þetta er ákaflega mikið starf, sem n. á að framkvæma, og hún hefir verið skipuð fyrir fáum dögum og er því ekki farin að taka neitt til starfa ennþá, þar sem 2 nm. eru alþm. og hafa til þessa tíma verið bundnir við þingstörfin. Og ef þingið á að koma saman eftir nokkru mánuði, eins og virðist ráðgert af hendi stjórnarflokkanna, þá tel ég mjög litlar líkur til þess, að n. hafi lokið rannsókn sinni fyrir næsta þing, og enda þótt svo yrði, þá er þetta svo yfirgripsmikið verk og þýðingarmikið, að þess má vænta, að þingið þurfi að athuga og ræða það mál mjög gaumgæfilega. Það bendir því allt til þess, að hinar væntanlegu till. n. nái eigi fram að ganga á næsta þingi.

Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, þá hefir minni hl. n. leitað álits lagadeildar háskólans um þetta frv., og það er einróma álit prófessora lagadeildarinnar, að þetta mál eigi nú að ná fram að ganga, en engin ástæða sé til þess að fresta því. Það segir svo í þessari álitsgerð háskólans, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagadeildin telur, að það muni yfirleitt verða til bóta, og einkum til aukningar réttaröryggis í landinu, ef skipaður verður opinber ákærandi með því starfsviði, sem ákveðið er í frv. vald hins opinbera ákæranda er að vísu nokkuð meira samkv. frv. en slíkum embættismönnum er fengið sumstaðar annarsstaðar, en eftir því, sem til háttar hér á landi, mundi embættið ekki koma að verulegu gagni, nema því sé, fengið slíkt vald, sem í frv. er ákveðið.

Þar sem starf opinbers ákæranda samkv. frv. getur mætavel fallið inn í núgildandi réttarfar og hlýtur að verða mjög svipað, þótt róttækar endurbætur réttarfarsins verði lögleiddar, þá telur lagadeildin enga ástæðu til að fresta stofnun embættisins vegna þess, að slíkar allsherjar endurbætur séu bráðlega væntanlegar. Enda hlýtur alllangur tími að líða þangað til slíkar endurbætur komast í framkvæmd, ef þær eiga að vera svo víðtækar sem nauðsyn er á.“

Hér staðhæfir því lagadeild háskólans, þ. e. a. s. allir prófessorar deildarinnar, sem ættu að hafa manna bezta þekkingu og vit á þessu máli, að það sé engin ástæða til þess að fresta framgangi þess. Þetta fellur að þeirra áliti mætavel inn í núgildandi réttarfarslöggjöf, og það mundi, þó að gagngerðar endurbætur yrðu framkvæmdar, einnig, að öllum líkindum, geta fallið inn í þar.

Ég verð því að leggja ríka áherzlu á umsögn þessara manna um þetta mál og vænta þess, að hv. þm. taki fyllsta tillit til þeirra í slíku máli sem þessu.

Minni hl. allshn. hefir gert nokkrar breyt. á frv., og eru þær í samræmi við álit lagadeildarinnar. Veigamesta breyt., sem við viljum láta gera, er sú, að konungur skipi þennan embættimann, eins og aðra slíka embættismenn, en að það ákvæði 1. gr. frv. sé fellt niður, að skipan þessa manns fari fram eftir tillögum hæstaréttar. Minni hl. allshn. getur algerlega fallizt á þá skoðun lagadeildarinnar, að það sé ekki rétt að láta hæstarétt ráða því, hvernig skipað skuli í þetta embætti, og hann telur, að það gæti orðið til þess að veikja aðstöðu hæstaréttar, og auk þess liggur það eiginlega fyrir utan verksvið hæstaréttar að taka ákvörðun um slík mál.

Þetta er nú aðalbreyt., sem við viljum láta gera á frv., en auk þess viljum við sameina öll ákvæðin um það, hvenær opinber ákærandi skuli ófær til þess að ákveða rannsókn, málshöfðun eða áfrýjun opinbers máls, og við viljum miða við þá reglu, að hann verði að víkja frá þessu starfi, þegar hann samkv. hæstaréttarl. yrði ófær til þess að dæma mál í hæstarétti, ef hann væri dómari þar.

Ég þarf ekki að fjölyrða miklu meira um þetta, en vil að lokum aðeins geta þess, að ég álít, að þessari rökst. dagskrá beri að vísu frá, þar sem hún virðist ekki hafa við nein veruleg rök að styðjast í málinu, og ég tel það mjög æskilegi, að Alþ. fari við afgreiðslu þessa máls eftir því, sem langadeild háskólans hefir lagt til, sérstaklega þegar þess er nú gætt, að það virðist í rauninni ekki vera neinn ágreiningur um, að þetta mál eigi að ganga fram síður. Ég hygg, að þetta sé. eitt af stefnuskráratriðunum í 4 ára áætlun Alþfl., og það vill svo einkennilega til, að það mun vera tekið þangað upp úr stefnuskrá Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þetta ákvæði um opinberan ákæranda er eitt af stefnuskráratriðum Heimdalls, og er þaðan komið inn í stefnuskrá Alþfl. Og þegar svo er ástatt, að allir flokkar eru sammála um efnishlið málsins, tel ég því síður ástæðu til að ganga framhjá þessu rökstudda áliti prófessoranna við lagadeild háskólans.