19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (4545)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Ég vil aðeins láta þess getið, að þetta mál var ekki þannig flutt af mér, að ástæða væri til þess, að lagt sé út í harðar deilur út af því.

Mig undrar það að vísu ekki, þó að hæstv. fjmrh. telji sig ekki sammála um þetta atriði, og maður veit það, að fjmrh. skoðar það skyldu sína að vera íhaldssamur í þeim efnum, sem hér um ræðir. Ég skal ekki lá hæstv. ráðh., þó að hann hafi sýnt hér íhaldssemi og afturhaldssemi, sem er jafnvel meiri en ég hefði getað búizt við af manni á hans aldri.

Hæstv. ráðh. véfengdi ekki það, sem ég sagði, að það hefði ekki náðst til allra sparifjáreigenda Íslandsbanka, en hélt því fram, að þeir, sem lögðu sparifé sitt fram sem hlutafé, hefðu gert það af frjálsum vilja, og það kæmi ríkinu ekki við, og það ætti engin áhrif að hafa á aðstöðuna til þessa frv., hvernig fór um fé þeirra, sem ekkert vildu leggja til Útvegsbankans, svo að sparifé þeirra var fært inn á sparisjóðsreikning þeirra í Útvegsbankanum og komst síðar undir áhrif og vernd ríkissjóðs. Í þessu atriði er ég honum ekki sammála. Mér virðist einmitt, að þetta atriði, að ríkið tekur ábyrgð á innstæðufé þessara manna í Útvegsbankanum, það hnígi mjög að því að styðja okkar mál, sem flytjum þetta frv. Það er einmitt með hliðsjón af því, að þetta er réttlætisráðstöfun í garð þeirra manna, sem létu þetta fé af hendi — við skulum segja af fúsum og frjálsum vilja — , og ég hefi aldrei haldið öðru fram um það en að þeir hafi gert það á þann hátt. Og það er stórt atriði í málinu, að þeir, sem engu vilja fórna, hafa eftir á fengið ríkisábyrgð á sínu innstæðufé.

Þar sem háar upphæðir hafa verið nefndar í þessu sambandi og í frv. er gert ráð fyrir, að skuldbindingar ríkissjóðs muni nema allt að 2 millj., þá vil ég skýra þetta nokkuð. Ég hefi spurzt fyrir um þetta atriði tvívegis í Útvegsbankanum, hve miklu næmi það hlutafé manna þar, sem hefði verið sparifé í Íslandsbanka. Svörin voru ekki alveg á sama veg, í öðru tilfellinu var sagt, að það væri 1,6 millj., en í hinu tilfellinu 1,8 millj. Þess vegna er í þessu frv. sagt „allt að 2 millj. kr.“, en auðvitað ætlazt enginn til, að gefin verði út skuldabréf fyrir hærri upphæð en þetta reynist að vera við rannsókn á þessu atriði í Útvegsbankanum. Og ef maður tekur það svo, sem ég tel nálægt sanni, að það sé um 1,6 millj. kr. það sparifé, sem menn létu í Útvegsbankann, og reiknað er með 4%, sem eru sparisjóðsvextir, þá er þetta ekki nema 64000 kr. fyrstu árin. Fyrstu 5 árin er það jöfn upphæð, sem ríkissjóður yrði að leggja fram sem vexti af þessu fé, en sú upphæð mundi smálækka, eftir því sem bréfin væru dregin inn, en eftir 5 ár bættist við sú upphæð, sem færi til inndráttar bréfanna árlega, sem er 1/30 þeirrar heildarupphæðar, sem hér á að leggja á ríkissjóð. Hæstv. ráðh. taldi, að einhver ríkasta ástæðan fyrir því að hafa á móti þessu máli, væri það, að Privatbankinn og Hambrosbanki mundu einnig heimta tryggða sína eign í Útvegsbankanum. Ég sé ekki, að þetta þurfi að vera rík ástæða í þessu máli, fyrst og fremst af því, að það er engin trygging fyrir því, að þessir bankar féllu frá sinni kröfu um þetta atriði hvort sem væri. Og ef það yrði, að við yrðum að verða við þeirri kröfu þessara útlendu aðilja, þá sé ég ekki, hvernig ætti að gera upp á milli útlendinga og innlendra manna í þessu efni. En það virðist hvorki hæstv. ráðh. né sá hv. þm., sem tók til máls á eftir honum, vilja skilja, að það er hjá öllum nærliggjandi þjóðum a. m. k., að það verði að gera mjög mikinn mun á þeim siðferðislega rétti, sem sparisjóðsinnieign manna á á sér, og önnur innieign í bönkum.

Hv. 2. þm. Reykv. hefi ég litlu að svara. Hann kom hér fram með þessari venjulegu hvatskeytlegu aðferð sinni til þess eins að láta á því bera, að hann hefði ekki svo lítið vald í þessu máli eins og öðrum hér á þingi. Hann segir, að ég vilji halda því fram, að það eigi að gefa innstæðueigendum þessar umræddu 2 millj. kr. Ég lít ekki svo á, að hér sé verið að gefa mönnum neitt. Málið er flutt á þeim grundvelli, að ríkið sé skylt til að verða við þessari réttlætiskröfu gagnvart þessum mönnum, sem — mér liggur við að segja — hafa verið féflettir. Og þó að sú féfletting hafi að vísu ekki verið beinlínis gerð af ríkisvaldinu, þá er enginn vafi á því, að aðgerðir þingsins 1930 í Íslandsbankamálinu, sú fantalega aðferð, sem málið sætti hjá þeim flokkum, sem þá fóru með ríkisvaldið, og þar var hv. 2. þm. Reykv. fremstur í flokki, það er enginn vafi, að þessi fyrirfram uppkveðni dauðadómur yfir bankanum átti sinn mikla hlut í því, að fólkið hafði í bili tapað þessu fé. Mætti þá eins vel segja það, að við, sem berum fram þessa réttingu þessa máls nú, séum að reyna að bæta fyrir það, sem hv. 2. þm. Reykv. var að reyna að skemma hér á árunum. Og ég vil taka það fram, að ég flutti þetta mál án allrar áreitni í nokkurs manns garð, og því var það algerður óþarfi fyrir hv. 2. þm. Reykv. að taka málið upp á þeim grundvelli, sem hann gerði.

Þá fannst hv. 2. þm. Reykv. eitthvert ósamræmi í því hjá mér að standa að frv. um skuldaskilasjóð til viðreisnar útgerðarmönnum og vilja um leið rétta hjálparhönd þessu fátæka fólki, sem var knúð til að leggja fé í Útvegsbankann. En þetta er ekkert ósamræmi. Sú byrði, sem lögð er á ríkissjóð samkv. þessu frv., er svo lítil í þessi fyrstu 5 ár, að það er ekki nein ástæða, hvorki fyrir hv. 2. þm. Reykv. né aðra, að gera úlfalda úr þeirri mýflugu. Þessir háu herrar depla ekki augunum við að auka byrðar ríkissjóðs um 60000 kr. í sambandi við þau mál, sem þeir endilega vilja berja fram.

Þá skoraði hv. 2. þm. Reykv. á mig að vera örari í garð útgerðarinnar en ég væri, — að því er mér skildist. Þessu hefi ég engu að svara öðru en því, að ég vil benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að hann hefir, með sinni valdsmannsaðferð hér á þingi, það alveg á sínu valdi að láta þær till., sem ég og aðrir hafa borið fram og miða til viðreisnar útveginum, ná fram að ganga eða ekki. Þennan geir, sem hann hefir sent að mér, hef ég þess vegna á loft og beini honum að hv. þm. aftur. Það er ekkert leyndarmál, að ég og fleiri hv. þm. hér hafa komið með þær kröfur til hagsbóta fyrir útgerðina, sem hæstv. fjmrh. fordæmdi mjög og gekk svo langt, að hann kallaði þær skrípaleik og brá okkur um allskonar óráð í því efni. Þannig leit hann á, hve langt væri hér gengið. Ef hv. 2. þm. Reykv. þykist þurfa að skora á mig að vera örari í garð útgerðarinnar, þá hlýtur það að vera af því, að hann álíti, að ég hafi gengið of skammt. Ég vil skora á hann að beita flokksfylgi sínu til að styðja till. okkar fyrir útgerðina. Og ef hann vill bæta um þær, þá skal ég ekki átelja hann fyrir það. Ég mun ljá mitt lið til þess að koma fram þeim skynsamlegum till., sem hann kann að koma fram með við till. okkar til að rétta við útgerðina. Ég vona því, að þessi áskorun hans þýði þetta, að hann ætli að beita flokksvaldi sínu hér á þingi til þess að bera fram til sigurs þær till., sem gerðar hafa verið fyrir útgerðarinnar hönd í frv. um skuldaskilasjóð, sem hér hefir verið borið fram.