18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (4580)

70. mál, strandferðir

Thor Thors:

Hv. þm. Mýr. hefir að mestu leyti tekið undir það, sem ég gat um í fyrstu ræðu minni, sem sé það, að milliríkjasamningar væru að öllum líkindum því til fyrirstöðu, að frv. megi ganga fram, en ég hygg, eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið, að enginn vafi sé á því, að milliríkjasamningar séu beinlínis því til fyrirstöðu, að frv. megi ganga fram.

Hv. 1. flm. frv. vildi álíta, að þar sem ríkið ætti að taka einkarétt til strandferða, þá bryti þetta ekki í bága við milliríkjasamninga. En við þetta er það að athuga, að það er búið að veita talsvert rúma undanþáguheimild frá þessu í frv. sjálfu, bæði í 2. gr. frv. og þar sem ákvæði er um, að l. skuli ekki ná til fiskiskipa og báta. Ég hygg því, að þær erlendar þjóðir, sem veit, okkur rétt til strandferða hjá sér, mundu álíta hér beinlínis um brot að ræða á milliríkjasamningum. En ef þessi víðtæka undanþágu er ekki í frv., þá er það beinlínis hættulegt, þar sem vitað er, að íslenzka ríkið hefir sjálft ekki nándar nærri nægilegan skipakost til að annast strandferðir. Ég álít meira að segja, að ef frv. ætti að verða að l., — sem ekki er hægt vegna milliríkjasamninga — þá ætti undanþágan að verða miklu víðtækari. Ég vil benda á, að síðustu 2 árin hafa verið keypt til landsins 4 stór flutningaskip, sem fara meðfram öllum ströndum landsins, og væri býsna hjákátlegt, ef ætti með l. að fara að skylda þessi skip til að hækka fargjöld sín um 2% í skatt til ríkisins. Mönnum hefir verið það mikill fengur úti um land að geta ferðazt með þessum skipum milli hafna, þar sem fargjöldin hafa verið sérstaklega lág og sanngjörn. En þau mundu vitanlega hækka talsvert, ef þetta frv. næði fram að ganga.