10.10.1934
Efri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (4767)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Flm. (Magnús Jónsson):

Ég heyri það á hæstv. fjmrh., að hann tekur vel í þetta mál, svo ég býst við, að það fái athugun í n. og af þinginu. En þessu verður aldrei ráðið til lykta nema gera tilraunina. Reynslan verður svo að leiða í ljós, hvort þetta fyrirkomulag er gott. Það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er stöðugt nauð um greiðslur úr ríkissjóði, og það ætti því að vera gott fyrir fjmrh. að hafa samþykki slíkrar n., sem skipuð er af öllum flokkum, bak við sig. Það er að mínu áliti mjög mikilsvert. Ég álít það líka mjög mikils virði fyrir hverja stjórn eftir á, að hafa fengið samþykki allra flokka að nokkru leyti fyrir þeim umframgreiðslum, sem þarf. Að hægt sé að koma pólitík inn í málið, held ég sé næstum útilokað af eðli málsins, því að hver sá flokkur, sem kemur fram með þetta, getur verið að búa í hendur á sjálfum sér, jafnvel þótt hann sé minnihlutaflokkur. Hann getur þá innan skamms farið með völdin í landinu. — Hv. 4. landsk. hlær. Þess er þó ekki langt að minnast, að hv. þm. sat einn síns liðs á þingi, en nú á flokkur hans mann í ríkisstjórn. Þá er varla óhætt að samþ. lög með þeirri tryggingu, að flokkur, sem hefir bak við sig rúml. hálfa þjóðina, komist aldrei til valda.

Mér virtist ákvæði 5. gr. valda hæstv. ráðh. nokkrum ótta. Það verður aldrei hægt að vísu að búa svo um, að ekki sé viss hætta fyrir fjmrh., af því að þessi l. eru sett beinlínis til að tryggja, að hann ávísi ekki meiru en hann má. Lögin eru gagnslaus, ef ekki felst í þeim viss hætta fyrir fjmrh.; hann verður að gefa gaum að þessu atriði, til þess eru l. sett. En hæstv. ráðh. kom líka inn á þá hugsun, sem einmitt vakti fyrir okkur sem trygging fyrir hann, það, sem veitt væri til óvissra útgjalda. Þingið ákveður upphæð til óvissra útgjalda, og ráðh. getur gripið til þeirrar fjárveitingar án þess að spyrja ríkisgjaldanefnd, svo lengi sem hún hrekkur. Það er fyrst þegar hann vill ekki nota þá fjárveitingu, heldur fer fram á fjárveitingu á ákveðna liði, eða heimild til útgjalda er upp gengin, að hann þarf að spyrja ríkisgjaldanefnd eða ábyrgð er hægt að koma fram.

Annars verð ég að segja, að það hefir a. m. k. verið svo, að meiri hl. hefir staðið nokkuð fast um stj. Ég óttast sannast að segja meira, að l. verði gagnslítil vegna þess, að þingið fríkenni ráðh., þótt hann fari fram úr áætlun, heldur en að það klekki á honum. En úr því sker reynslan. (Fjmrh.: Það væri skipt um þingmeirihluta). Já, og landsdómur kæmi eftir á. En það er ekki opnara eftir en áður. Auðvitað er opin leið að klekkja á ráðh., ef þingmeirihluti tæki upp þá nýbreytni að samþ. ekki fjáraukalög.

Ég óska að endingu eftir, að frv. fái þá lagfæringu, sem þingið sér sér fært að gera.