19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (4816)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara að hefja neinar verulegar umr. um þetta mál, en þó langar mig til að segja nokkur orð áður en það fer til nefndar.

Það hljóta allir að taka undir það með hv. flm., að jafnan sé tekið vel undir það, sem gert er til þess að tryggja öryggi manna á sjónum, að svo miklu leyti sem það virðist vera kleift. Það er sjálfsagt fyrir öll skip að gera allar mögulegar tryggingarráðstafanir, en þær stranda bara á þessum fyrirvara hv. þm.: að svo miklu leyti, sem það er kleift. Ég býst við, að n., sem fær þetta mál til athugunar, líti einmitt á þetta atriði, hvort þessi fyrirvari verði þessu þarfa máli ekki til fyrirstöðu.

Í grg. frv. eru talin upp þau skip, sem hér mundu koma til greina, og er það einmitt þessi nýi floti, sem landsmenn hafa komið sér upp á síðari árum til þess að annast fiskflutninga til Spánar, sem hingað til hafa verið í höndum útlendinga, aðallega Norðmanna. Ég held, að flestum landsmönnum hafi þótt vænt um það, að hér hefir verið komið upp íslenzkum flota til þess að ná í nokkuð af þessu mikla fé, þar sem flutningsgjöldin nema mörgum milljónum. Þó kannske sé ekki hægt að tala um mikinn ágóða, þá skapast samt atvinna fyrir íslenzka menn.

Nú er það vitað, að einmitt þessir flutningar eru — eins og nú hagar til í heiminum — knúðir niður í lágmark þess, sem hægt er upp úr þeim að hafa. Það er fullt af skipum á öllum höfnum, sem eru dregin út hvenær sem tækifæri gefst til að hafa nokkuð upp úr þeim, og farmgjöldin eru þess vegna knúð niður. Norðmenn, sem hér keppa við okkur, eru allra manna lagnastir á að sigla ódýrt. Þeir reka alla sína útgerð á hinn ódýrasta hátt, og það svo, að við getum hvergi nálægt þeim komizt í því. Ég hefi raunar ekki getað aflað mér mikilla upplýsinga um málið, en mér er sagt, að kaupgjaldið eitt kosti íslenzku útgerðina tugum þús. kr. meira en Norðmenn. Þetta eitt gerir okkur því samkeppnina við Norðmenn svo erfiða, að það má ekki hársbreidd muna, svo íslenzki flotinn verði ekki að hætta, en það er enn ekki komin reynsla fyrir því, hvort Íslendingar geti haldið þessum siglingum áfram. Nú er farið fram á það hér, að þessi íslenzku skip taki á sig nokkurn árlegan kostnað fram yfir það, sem samskonar útlend skip hafa.

Ég held ekki, að nein útlend skip, sem hingað sigla í þessum erindum, hafi loftskeytastöðvar um borð. Hér er því farið fram á að bæta þó nokkrum kostnaði ofan á þá tugi þús. kr., sem hvíla á þessum skipum umfram keppinautana. — Mér hefir verið sagt, að þessar loftskeytastöðvar, sem talað er um í frv., muni kosta um 10 þús. kr. Og þessi tæki eru þannig, að þau ganga fljótt úr sér og verður að endurnýja þau oft. Má reikna með því, að viðhald og endurnýjun þessara stöðva kosti ca. 1500 kr. á ári. Auk þess verður að hafa færan loftskeytamann. Mér er ekki kunnugt um, hvað það mundi kosta, en geri ráð fyrir, að það yrði ekki undir 5000 kr. á ári. Kostnaðurinn yrði þá alls um 6500 kr., sem bætast yrði á annan útgerðarkostnað. Hafa menn gert sér ljóst, hverjar tekjur muni verða af þessari útgerð? Það hefir orðið að nota til þessara flutninga gömul skip og viðhald þeirra því mikið, og ekki nema um takmarkaðan tíma, sem borgar sig að „klassa“ þau.

Skipin verður því að vera hægt að afskrifa á mjög skömmum tíma. Ég held því, að við verðum að varast að íþyngja þessari útgerð frá því, sem nú er. Það eru auðvitað ýmsir kostir við að hafa sendistöðvar á skipum þessum. Þess er getið í grg. frv., að hægt sé þá fljótar að koma tilkynningum frá farmsendendum eða eigendum skipanna. Þetta er Alþ. óviðkomandi. Slíkt er útgerðarinnar sjálfrar að ákveða, ef þetta er talið nauðsynlegt. Ég held, að vel mætti komast af með litla og ódýra talstöð. Þegar upp að landinn kemur, er slíkt fullnægjandi, en ég held, að þeim hafi ekki dottið í hug að setja upp svona fullkomnar sendistöðvar. Tryggingin fyrir skipshöfnina er mikil að sendistöðvunum; því ber ekki að neita. En það kemur naumast fyrir oftar en einu sinni á æfi hvers skips, að merki þurfi að senda um, að þeir geti ekki borgið sér sjálfir, og getur það þá orðið skipshöfninni til lífs að hafa slík tæki. Það er satt, að að þessu leyti má setja loftskeytastöðina við hlið annara þeirra tækja til öryggis, sem skip nú þegar hafa, hvort sem það er nú miðunarstöð eða djúplóð. Sum hafa miðunarstöð nú þegar. Notkun djúplóða hygg ég, að takmarkist af því, hve mikið hægt er að leggja á þessa útgerð, sem fjárhagslega á mjög erfitt uppdráttar. Áður en menn gera háar kröfur, verður að líta á hagnaðinn af rekstrinum. Þegar menn metast á um það, hvort leggja skuli veg eða brú, stendur deilan ekki um, hvort það væri betra að hafa brúna og veginn eða ekki, heldur einungis, hvort það geti fjárhagslega borið sig. Það myndu allir kjósa þessa hluti, ef þeir fengjust ókeypis. Ég þykist vita, að hv. sjútvn. fái þetta frv. og muni athuga það mjög gaumgæfilega með hagsmuni þessa nýja atvinnuvegar okkar Íslendinga fyrir augum.