23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (4835)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Flm. (Jón Baldvinsson) [yfirl.]:

Á síðari árum hafa aukizt sérstaklega mikið flutningur til landsins af fóðurmjöli og öðrum fóðurbæti. Þetta stendur yfirleitt ekki í sambandi við slæmt tíðarfar og þar af leiðandi lítið heyfóður hjá bændum, heldur er aðalástæðan aukin búpeningseign, einkum kýr, í bæjum og kauptúnum. Er þar notað mikið af kraftfóðri, og einnig nokkuð úti um sveitir, sérstaklega í nánd við kaupstaðina. Innflutningur þessara vara hefir orðið á undanförnum árum 600—700 þús. kr. og mun á þessu ári fara yfir 1/2 millj. Nú gæti verið ástæða til þess, að ríkið færi að athuga, hvort þörf væri á þessum mikla innflutningi og hvort ekki mundi vera hægt að nota meira af innlendu fóðurefni en gert hefir verið. En hver ætli væri líklegri til að taka sig fram um, að það sé gert, en ríkið sjálft, ef það hefði þessa verzlun með höndum? Það er þegar að nokkru leyti af þessari ástæðu, að frv. er flutt. Það er sjálfsagt svo, að það má segja það sama í þessu efni eins og um frv. næsta á undan (frv. um breyt á 1. um vigt á síld), að það fer ekki ætíð eftir því, hvað varan er nauðsynleg, hve mikið af henni er selt, heldur að verulegu leyti eftir því, hvað sölumennirnir eru duglegir að bjóða vöruna fram.

Ríkið ætti að gefa haft til eftirlits við þessa verzlun menn, sem hefðu sérþekkingu á þessum málum og gætu gefið leiðbeiningar um, bæði hvað, fóðurtegundir bezt væri að flytja inn, og hvað hægt væri að nota af innlendum fóðurefnum. Mér er sagt, að kaup á innlendum fóðurbæti séu stórum að aukast, þó ekki sé miðað við árið í ár, þegar heyfengur bænda varð óvenjulega lítill og skemmdur, enda allmikið verið talað um „fóðurskort bænda“ hér á hv. Alþ. Nú mun líka gert ráð fyrir, að í ár verði innlendur fóðurbætir keyptur fyrir á aðra millj. kr. Mér vitanlega hafa ekki verið gerðar hér vísindalegar rannsóknir, er sýni fóðurgildi þeirra innlendu kraftfóðurtegunda, sem völ er á. Þó er til Búnaðarfél. Ísl. og ráðunautar þess, sem ættu að geta haft þetta með höndum.

Það er einmitt staddur nú hér í deildinni hv. þm., sem fyrir nokkrum árum átti sæti í Nd. og vildi þá setja upp heyforðabúr í sveitum, sem safnað væri í í góðum árum og notað þegar harðindi bæru að höndum, svo ekki þyrfti að flytja inn erlendan fóðurbæti. En það mun nú ekki verða fullnægjandi, bæði vegna þess búskaparlags, sem nú er, og þó einkum vegna þess, að kaupstaðirnir nota mikinn hluta fóðurbætisins. Það mun því ekki verða komizt hjá því fyrst um sinn að flytja inn allmikið af fóðurefnum. Ég hafði leitað álits Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra og beðið hann að semja grg. fyrir frv., en var ekki búinn að fá hana þegar frv. fór í prentun. Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp kafla úr umsögn hans:

„Á landi voru er fólgin ógn fóðurefna. Grasið er eitt kjarnmesta og bezta, sem til er. Í þaranum kringum strendur landsins liggur ógrynni fóðurefna, ef rétt er að farið. Og svo má síldarmjölið eigi gleymast. Lítill hluti af öllu þessu er enn hagnýtt. Rannsóknir og tilraunir þurfa að sanna, hvernig bezt er að hagnýta og blanda saman hinum miklu fóður- og næringarfurða, sem land vort framleiðir, eða getur framleitt, og þá mun koma á daginn, að vér þurfum eigi að flytja inn fóðurefni, heldur getum miðlað öðrum þjóðum af vorum fóðurefnaauðæfum, sem nú er að nokkru gert með síldarmjölinu“.

Ég þykist vita, að sá, sem samdi þessa klausu, hafi farið nærri því rétta. Ég geri ráð fyrir, að Sigurður búnaðarmálastjóri hafi svo mikið vit á þessum málum, að þó ekki sé fyrir hendi vísindaleg rannsókn í því efni, þá megi taka fullt tillit til þess, er hann segir, að gnægð fóðurefna muni vera í landinu ónotuð, sem muni ekki einungis vera jafngóð, heldur að öllum líkindum betri en þau útlendu fóðurefni, sem inn eru flutt. Það er því aðkallandi nauðsyn að láta fara fram ábyggilegar vísindalegar rannsóknir á okkar innlendu fóðurefnum, og það litla fé, sem til þess er ætlað, ætti að fást meira en borgað. Það má einnig telja fulla ástæðu til þess að hafa eftirlit með, að ekki séu fluttar inn í landið fóðurtegundir, sem bæði eru óhentugar og lélegar og koma því að litlu gagni, eins og áreiðanlega hefir átt sér stað. Þetta mun verða bezt tryggt með því, að ríkið taki verzlunina í sínar hendur, eins og frv. gerir ráð fyrir. — Ég vil svo mælast til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn.