23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (4840)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Flm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Mér finnst að heimta mætti það af þeim hv. þm., sem standa hér upp og flytja ræður, að þeir kynntu sér það, sem felst í grg. Þar er talað um það, sem eigi að vinna með þessu frv., og er það þá fyrst, að ekki verði fluttur inn nema sá fóðurbætir, sem kemur að sem beztu gagni. Þar er líka talað um að láta fram fara rannsókn á íslenzkum fóðurbæti. Þessi atriði minntist ég á, og ég sé ekki, að það sé neitt annað en það, sem frv. sé ætlað að vinna. Ég tel það stórt atriði ef með þessari einkasölu gæti unnizt það, að við gætum hér í landinu unnið fóðurefni jafngóð og keypt eru nú frá útlöndum.

Hv. þm. hafa fett fingur út í það, að hér er aðeins talað um að hafa fóðurbirgðirnar í Rvík. Það er eðlilegt, að þetta sé sett í frv., af því að þetta er eingöngu frv. um verzlun með þessar vörur, en ekki jafnframt sérstök bjargráðaráðstöfun fyrir Norðurland í hafísaárum. Til þess þarf að gera alveg sérstakar ráðstafanir og leggja fram fé í því skyni, því að kostnaðarlaust verður það ekki gert, vegna vörurýrnunar og verðbreytinga, sem alltaf má búast við, að bakaði ríkinu útgjöld, og ennfremur það, að verða að láta mikið fé liggja í þessari vöru, sem þarna verður að geyma frá haustnóttum og kannske fram á vor.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að tala um kostnaðarverð og þessi 2%, sem ættu að fara til rannsókna á innlendum fóðurbæti. Með kostnaði er átt við allan þann kostnað, sem ríkið hefir af því að útvega þessa vöru, og þessi 2% sé nettóafgangur. Má vera, að það mætti vera hærra, því að samkv. innflutningi að undanförnu mundi þetta nema 12—15 þús. kr., og er það vitanlega ekki mikið til vísindalegra rannsókna. Ég geri ráð fyrir, að þar yrði þá fyrst og fremst að fá einhvern hæfan sérfræðing, sennilega útlendan, til þess að hafa þessa rannsókn með höndum. Væri þessi fjárhæð þá lítið meiri en árslaun slíks manns. Hinu álít ég að þurfi ekki að gera ráð fyrir, að kaupa þyrfti mikil hráefni til að gera þessar tilraunir. En verði þessi upphæð of lág, þá er vitanlega alltaf hægt að hækka álagið eða veita nokkurt fé í fjárl. til þessara hluta, eða þá að Búnaðarfél. legði fram til þess eitthvað af sinn fé. Hér er þá lagður grundvöllurinn að þessu, og ég get ekki fundið, að þær aðfinnslur, sem fram hafa komið við þetta, hnekki því að neinu leyti.

Andstaða hv. 1. þm. Reykv. gegn frv. kemur sennilega bara af því, að hann er á móti einkasölu. Þar er um stefnumun að ræða, og um það hefir verið deilt hér í tvo síðustu daga í sambandi við önnur frv., og ég kann því ekki við að fara inn á þær umr. nú.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um kornforðabúrin, sem eitt sinn voru til umr. hér á þingi, vil ég benda á það, að þar var um bjargráðaráðstöfun að ræða og ríkið átti þar að taka einkasölu á korni, til að ná upp kostnaðinum, sem af því leiddi, að verða að liggja með kornið frá haustnóttum og fram á vor. En ef hér á að gera það sama, þá verður að fara öðruvísi að en hér er ráð fyrir gert og leggja fé fram úr ríkissjóði, því að þá er tilgangurinn annar.