02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Mín aðalástæða fyrir því að vera á móti þessu frv., er sú, að ég sé enga ástæðu til þess, að það skuli vera borið fram. Til þess að setja ný lög þarf að færa ástæður fyrir þeim. (Fjmrh.: Ég var nú að færa ástæður fyrir þessu máli).

Hæstv. fjmrh. var að gera tilraun til að útskýra sínar eigin ástæður, og ég verð að segja, að þær voru lítið sannfærandi. (Fjmrh.: Það er erfitt að sannfæra hv. þm.). Það getur verið, að það sé ekki auðvelt að sannfæra mig, og það þarf a. m. k. að færa mér einhverjar ástæður fyrir því, sem á að sannfæra mig um.

Mér fannst, eftir því sem hæstv. fjmrh. sagði, að það vera aðalástæðan fyrir því, að þessar vörur á að draga undir Áfengisverzlunina, að enginn annar en Áfengisverzlunin geti búið þær til.

Hæstv. fjmrh. sagði, að til þess að geta búið til flestar þessar vörur, sem nefndar eru í frv., þurfi spíritus, sem enginn má nota til þess nema Áfengisverzlunin. Með því að banna öðrum að nota spíritus í þessar vörur, eru þeir, eftir því, settir út úr möguleikanum til samkeppni um framleiðslu og sölu á þessum vörum, og þar með er Áfengisverzlunin ein um þetta.

Mér þykir nú skörin fara að færast upp í bekkinn, ef á að fara að kalla þessar vörur, sem aðrir framleiða en Áfengisverzlunin, sviknar, með tilliti til þess, hvort notuð séu í þær lögleg efni, en það skilst mér af ræðu hæstv. ráðh., að dr. Jón Vestdal álíti þær vera, vegna þess að ekki sé notaður í þær spíritus. Í staðinn fyrir spíritus hafa þeir notað annað efni, sem dr. Jón Vestdal segir, að sé eitrað og geri bökunardropa, sem það sé haft í, hættulega fyrir neytendur. Annars held ég, að við ættum ekki að fara langt út í þessar eiturumræður, því að sú skýrsla, sem dr. Jón Vestdal hefir gefið um þessar eitranir, sannar ekkert um hættur, sem af því stafi að framleiða þessa dropa með því að nota annað efni en spíritus til upplausnar. Það hafa nú fleiri gefið umsagnir um þessi efni en fræðimaðurinn Jón Vestdal, og þeir menn hafa verið ekki síður lærðir og fróðir en hann. Og þeir segja, sem mun vera mála sannast, að við munum ekki lifa einn dag svo, að við látum ekki ofan í okkur meira eða minna af eitri. Ýmist uppleysast eiturefnin ekki í líkama okkar eða þá að líkaminn framleiðir móteitur gegn þeim, sem gera þau óskaðleg.

Ég vil nú tilnefna eina sláandi ástæðu, frá sjónarmiði hæstv. ráðh. og fylgjenda hans í þessu máli, mjög sláandi ástæðu fyrir því, að þessi eiturkenning er tóm vitleysa. Landlæknirinn ætlar ekkert að amast við því til áramóta, að okkur verði byrlað þetta umþráttaða eitur, og hann ætlar að lofa okkur að éta það í friði til áramóta. Ég býst við, að hvorki hæstv. ráðh. né aðrir mundu ætla landlækninum okkar það, að hann dragi neitt af því, ef hann áliti hér vera nokkra hættu á ferðum. Hann hefir því dæmt þessa eiturkenningu eintóma vitleysu. En ef landlæknirinn vissi, að eitur væri látið í neyzluvörur, en ætlaði samt að lofa mönnum að neyta þeirra í nokkra mánuði, og ef hann héldi, að þetta eitur væri skaðlegt fyrir heilsu manna, þá væri þetta ógurlegt afbrot hjá landlækni, og væri fyrir það skyldast að setja hann frá embætti. Það getur enginn hrakið.

Mér finnst hæstv. ráðh. hafa gengið svo frá þessu frv., að óþarft sé að samþ. það. Hann hefir haldið því fram, að spíritus sé nauðsynlegur til framleiðslu á þessum vörutegundum, og enginn má framleiða þessar vörur með spíritus nema þessi eina stofnun, Áfengisverzlun ríkisins. Eftir því ætti að vera óþarft að setja það í lagasetningu sérstaklega nú, að ríkisstj. ein megi framleiða þessar vörur.

Það, sem réttast hefði verið gagnvart þeim, sem framleiða þessar vörur aðrir en Áfengisverzlunin, er að hafa eftirlit með því, að þeir noti til framleiðslunnar þau beztu efni, sem þeir hafa yfir að ráða. En hitt getur ekki náð neinni átt, að kalla vörur þeirra falsaðar fyrir það, þó þeir hafi þurft að nota önnur efni við framleiðslu þeirra heldur en þau allra heppilegustu.

Ég skal ekki deila um álagningarákvæði frv. Það hefir verið sagt, að nokkuð hafi verið eftir geðþótta vissra manna lagt á vínin fram að þessu. En það er eins og það sé trygging í því fyrir löggjafann, að ákveðið sé að leggja einhvern hundraðstoll á vörur, sem Áfengisverzlunin verzlar með, og því fleiri sem vörurnar eru, því meiri ástæða er til þessa. Ég veit ekki, hvað tekið er fram um þetta atriði í samningnum við Spánverja um undanþáguna frá bannlögunum. Þó var það tekið fram í þeim samningi, að við mættum ekki með löggjöf gera neinar þær ráðstafanir, sem gerðu undanþáguna að engu. Ef þau hámarksákvæði, sem nú gilda um álagningu á vín, eru afnumin, og það gersamlega lagt á vald ríkisstj. og forstjóra Áfengisverzlunarinnar, hve há álagningin skuli vera, þá er Spánverjum þar með gert torvelt að hafa eftirlit með sölu spánskra vína hér. Ég skal ekki segja, hvort álagningarákvæði frv. er alveg ótækt, en ég álít, að það sé rétt að athuga það gaumgæfilega. Því að þótt samningur þessi við Spánverja sé í sjálfu sér nauðasamningur, þá er hann þó samningur við aðra þjóð, sem við verðum að halda.