08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

8. mál, tekju- og eignarskattsauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og menn sjá af frv., er í því farið fram á heimild handa stj. til að innheimta tekju- og eignarskatt með 40% álagi fyrir árið 1934.

1933 var tekju- og eignarskattur innheimtur með þessu sama álagi, með samþykki þeirra flokka á þingi, er þá stóðu að stj. Var og reiknað með því, að sama álag yrði innheimt 1934, en vitanlega beðið eftir samþykki Alþingis, sem nú er háð óvanalega seint á árinu.

Ég vona, að þar sem svo stendur á, að hér er aðeins um framlengingu að ræða á lögum, sem fyrrv. stjórnarflokkar stóðu einhuga að, þá verði þetta mál ekki gert að deiluefni nú. Er nú svo áliðið árs, að þegar verður að lögbinda þetta, ef innheimtan á að takast sæmilega.

Ég vænti þess, að máli þessu verði vísað til fjhn., og vil ég beina þeim tilmælum til n. að hraða afgreiðslu málsins sem mest, og vona, að hv. deild veiti því greiðan framgang. Ástæður til þessa skattauka eru eigi síður fyrir hendi nú en 1933, nema fremur sé, þar sem á árinu 1934 lenda ýms framlög til kreppuráðstafana, sem samþ. hafa verið utan fjárlaga.