08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég verð að lýsa því yfir sem mínu áliti, að það hafi borið nauðsyn til að setja bráðabirgðal. um þetta efni. Og hefði n. sú, sem hafði málið til meðferðar, verið búin að ljúka störfum sínum að þessu leyti meðan ég hafði með þessi mál að gera, þá hefði ég óhikað gripið til þess að gefa út bráðabirgðal. um kjötsöluna.

Ég held, að lögin hafi gert gagn þegar. Það má vera, að það kunni að hafa verið einhverjar misfellur á lögunum eða framkvæmd þeirra. En þegar á heildina er litið, þá hafa lögin þegar gert gagn. Ég hefi aflað mér upplýsinga um það, eftir því sem hægt er, hvort nokkuð hafi selzt minna af kjöti hér í Rvík en venjulega. Virðist, að það muni ekki verulegu, svo að það virðist ekki ástæða til að kvarta yfir, að kjötverðið hafi verið of hátt. Enda er áreiðanlegt, að það hefði þurft að vera hærra, til þess að þessi grein landbúnaðarins hefði fengið sinn framleiðslukostnað fyllilega endurgreiddan.

Hinsvegar mun því ekki hægt að neita, að það hafa verið nokkrir smágallar á því, hvernig lögin voru úr garði gerð, og á framkvæmd þeirra. Má vera, að þetta sé að sumu leyti barnasjúkdómar, sem geti lagazt síðar. Ég get ekki borið á móti, að það hefir verið ef til vill fulllangt gengið í því að takmarka einkaviðskipti, einkum í smærri þorpum. Get ég í því sambandi ekki stillt mig um að minna hæstv. forsrh. á, að hann fór ekki nákvæmlega með ummæli sín, þegar hann talaði um kjötstimplunarskyldu. Það er að vísu skylt í kaupstöðum að stimpla allt kjöt, sem selt er innanlands, en það er ekki tilgreint í lögunum, að það þurfi að afhenda kjötið neinni sérstakri verzlun fyrir því, heldur á bæjarstjórnin að sjá fyrir sérstöku húsi til þess, þar sem menn geti fengið kjöt stimplað, jafnvel þótt þeir selji það í einkaviðskiptum.

En viðvíkjandi umr. um þetta mál, einkanlega hér í bænum, þar sem það hefir verið töluvert rætt frá báðum hliðum, þá verð ég að líta svo á, að ýms blöð hafi ekki haft neinn sóma af þeim skrifum.

Ef leyfilegt er við þessa umr. að fara inn á einstök atriði, þá vil ég taka fram, að það var eitt atriði, sem vakti undrun mína, þegar ég las lögin, en það er, að fulltrúum bænda sjálfra er ekki tryggður meiri hl. í verðlagsnefnd. Ég játa að vísu, að hæstv. stj. hefir tekizt vel um val formanns í nefndina, sem er oddamaður, en hinsvegar er ekki nein trygging fyrir því, að svo verði ávallt. Og það er nokkuð langt gengið gagnvart framleiðendum, að ætla þeim ekki að sjálfsögðu fullan meiri hl. í kjötverðlagsnefnd. Ég hygg, eftir þeirri kynningu, sem ég hefi af löggjöf annarra þjóða, þá sé þetta einsdæmi. Í Noregi minnist ég þess ekki, að aðrir aðilar en bændurnir sjálfir og fulltrúar þeirra hafi sæti í verðlagsnefnd. Og ég hygg að metnaður norskra bænda hefði ekki annað þolað. Og vil ég þá líta svo á, að íslenzkir bændur geti ekki haft minni metnað en norskir stéttarbræður þeirra.