08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að ég færi villur vegar, þegar ég í umr. um annað mál kvartaði undan því, að bráðabirgðal., sem nú eru til umr., heftu milliliðalausa verzlun með kjöt og kæmu í veg fyrir vöruskiptaverzlun. Hann sagði, að öllum væri vöruskiptaverzlun frjáls samkv. þessum l., en síðar í ræðu sinni sagði hann, að samkv. l. um kjötmat frá 19. júní 1933 yrði að stimpla allt kjöt í kaupstöðum og þess vegna yrði öll sala að fara gegnum sláturhúsin. Ég fæ nú ekki skilið, hvernig hann kemur þessu saman. Það er alveg víst, að vöruskiptaverzlun getur ekki átt sér stað, ef bændur eru ekki frjálsir að láta vörur sínar milliliðalaust til manna við sjávarsíðuna, hvort sem er upp í skuldir eða gegn vörum. Annars verð ég að segja það, að það hefir a. m. k. í Ísafjarðarsýslu sýnt sig við framkvæmd þessara 1., að þau hafa talsvert önnur áhrif en ráð var fyrir gert samkv. þeim ástæðum, sem voru færðar fram fyrir þeim í upphafi, sem sé að greiða fyrir viðskiptum og verzlun bænda með sláturfjárafurðir. Þau hafa ekki greitt fyrir vestur þar. Það hefir verið venja, að bændur hafa selt allt eða mestallt sitt kjöt beint til neytenda. Langminnstur partur farið í gegnum verzlanir, og fyrir þann litla hluta hafa bændur greitt aðeins 3-5 aura á kg. fyrir rýrnun, sundurvigtun og kostnað við innheimtu og þess háttar. En nú eiga sláturhúsin að taka 5% fyrir að vigta kjötið út í heilum kroppum til kaupenda. Auk þess er stórkostlegur kostnaður við flutning fjárins lifandi til Ísafjarðar - en þar er vitanlega aðalmarkaðurinn -, og sama er auðvitað um flutning slátursins heim aftur, og sumstaðar með öllu ókleift vegna samgönguörðugleika.

Það kemur öllum saman um, að kjötverðið hafi verið of lágt undanfarið og að það hafi nauðsynlega þurft að hækka, en menn getur vitanlega greint á um það, hve hátt verðið hefði átt að vera, því að bændur þurfa að fá hærra verð en það, sem nú hefir verið ákveðið á þessari vöru. Hinsvegar eiga kjötneytendur nú við meiri örðugleika að stríða en nokkru sinni áður og kaupgeta þeirra því minni en að undanförnu; a. m. k. er það svo vestur í Ísafjarðarsýslu. Eftir því sem skattskýrslur herma, þá voru árið 1933 meðaltekjur sjómanna og verkamanna þar vestra ca. 2000 kr. yfir árið, lítið eitt minna hjá sumum, en talsvert meira hjá mörgum, en nú er útlit fyrir að það verði a. m. k. 500 kr. lægra að meðaltali. Gjaldgeta þessara manna er því mun minni en áður. Bændum er lítill hagur í því, að svo og svo mikið af kjöti liggi óselt þegar komið er fram á vetur, en á því er talsverð hætta þar vestra, og það hygg ég, að stafi fremur af því, að einkaviðskipti eru bönnuð en hinu, að kjötverðið sé of hátt. Svo er það líka ákaflega erfitt fyrir bændur í afskekktum héruðum að mega ekki slátra heima að einhverju leyti, en nefndin hefir verið mjög ófús á að leyfa það, og þó að það hafi kannske verið leyft í einstökum örfáum tilfellum, þá hefir það verið gert þar, sem minni ástæða hefir verið til heldur en þar, sem þörfin til undanþágu var mest.

Það var talið snemma í sumar, að kjötverðið yrði um 90 aura í heilum kroppum, og virtust neytendur ánægðir með það og bændur einnig. Nú er það svo, að krónu verðlag er lakara fyrir seljendur og hærra fyrir neytendur og þeirra aðstaða verri til að kaupa, og kemur það líka fram á seljendum.

Ég álít það talsvert athugavert að setja almennar reglur um slíkt fyrirkomulag sem þetta, reglur, sem eiga að gilda fyrir allt landið, án tillits til þess, hvernig þetta hefir verið framkvæmt undanfarin ár, og hafa þetta fyrirkomulag þannig, að það verði bæði seljendum og neytendum í sumum héruðum a. m. k. mun dýrara en þyrfti að vera, eða svo hefir það a. m. k. orðið þar vestra. Það er því ekki óeðlilegt, að bændur vestur þar séu mjög óánægðir með þetta fyrirkomulag, og það get ég fullyrt, að þeir eru, með kannske örfáum undantekningum.