25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefði óskað þess, að hv. frsm. hefði minnzt á, hvaða afstöðu hv. landbn. hefir tekið til brtt. á þskj. 168. (PHerm: Það er markað með till. n.). Þá er það svo að skilja, að hv. n. setji sig á móti þessum brtt. Ég veit, að það muni vera að nokkru af því, að kjötverðlagsnefnd er gefin heimild til þess að undanþiggja þá bændur ákvæðum l., sem hafa sérstaklega erfiða aðstöðu til að flytja afurðir sínar til sláturhúsa, og leyfa þeim að selja kjötið beint. Ég hygg, að í framkvæmdinni yrði þetta svo, að nokkrum einstökum bændum verði heimilað slíkt. En nú er svo ástatt víða á Vestfjörðum, að aðstaða bænda er mjög slæm í þessu efni, og sérstaklega er það svo í N.-Ísafjarðarsýslu. Þar eru fleiri en 1 og fleiri en 2 hreppar, sem hafa ákaflega erfiða aðstöðu um að flytja fé til Ísafjarðarkaupstaðar. Hinsvegar mætti greiða fyrir þessum mönnum og létta af þeim þeim stórkostlega kostnaði, sem þeir hafa af því að flytja fé til Ísafjarðar - bæði kostnaði, sem er við að flytja það á fæti, og þeim óbærilega kostnaði, sem hlýzt af því, að þeir geta ekki selt aðrar afurðir, t. d. slátrið, og ekki heldur tekið það heim. Það hagar svo til á þessum slóðum, bæði vegna fjarlægðar og vegleysa, að ómögulegt er að koma þessum mat óskemmdum heim. Nú síðustu daga hefir verið mikið kvartað um þetta við mig gegnum síma, að bændur hafi algerlega misst þessa vöru, slátrin, sem þeir hafa notuð mjög mikið til heimila sinna, og ýmist orðið að selja hana fyrir sáralítið verð eða hún hefir orðið að engu hjá þeim nú á þessu hausti. En ef þessum bændum, sem svona er ástatt um, væri nú leyft að mynda með sér sölufélag, þá gætu þeir slátrað fé sínu heimar í hreppnum. Þeir gætu sennilega búið sér til hentugt húsnæði til slátrunar og þeir hafa jafnvel nú þegar húsnæði, sem þeir gætu breytt í sæmileg sláturhús. Þetta er þeim alls ekki leyfilegt eftir frv., eins og það nú liggur fyrir, og ekki heldur þó að brtt. n. verði samþ., því að eftir frv. eru það aðeins samvinnufélög, og svo þeir, sem hafa starfrækt sláturhús á árinu l933, sem mega starfrækja sláturhús hér eftir. Þó bændum væri leyft að hafa sölufélög, þá þurfa þeir ekkert verzlunarleyfi og engan lögskráðan félagsskap, en aðeins samþykkt innan félagsins, því að ekkert verzlunarleyfi þarf til þess að verzla með eigin afurðir.

Ég get ómögulega skilið, að hv. landbn. eða hv. d. geti verið minnsta þægð í því að gera þessum bændum, sem hér um ræðir, slík óþægindi sem þessi, er lýst hefir verið hér á undan, og sem mætti leysa á einfaldan hátt, með því að samþ. brtt. mínar og leyfa kjötsölufélögum bænda frjálsa verzlun með það, sem í sláturhúsum þeirra yrði slátrað.

Hv. þm. sagði, að það væri tvennskonar tilgangur, sem ætti að nást með þessum 1., sem sé að halda kjötverðinu hæfilega háu, svo að bændur gætu framleitt kjöt - og er það rétt og að sjálfsögðu nauðsynlegt -, en hinn tilgangurinn sagði hann að væri að halda uppi verði á erlendum markaði. Til þess höfum við vitanlega engin ráð. Við getum aðeins gefið þeim mönnum nokkra uppbót, sem selja á erlendum markaði, með því að taka af söluverði kjöts, sem selt er á innlendum markaði, þeim til uppbótar. En þetta hækkar í raun og veru ekki kjötverðið á erlenda markaðinum.

Ég vil að endingu benda hv. n. og hv. d. á það enn á ný, að ég tel það mjög misráðið og ósanngjarnt að leyfa ekki slíkan félagsskap, sem hér hefir verið farið fram á, sölufélag bænda, og þá sérstaklega af þeim ástæðum, sem ég hefi fært hér að framan.