05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

27. mál, sláturfjárafurðir

Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. A.-Húnv. hefir lýst afstöðu minni hl. landbn. til þessa frv., og að því er snertir brtt. okkar. á þskj. 288, sé ég ekki ástæðu til að tala um þær nánar en hann hefir gert.

Þó ég sé samþykkur frv. í aðalatriðum, þá vil ég samt taka það fram, að ég ætlast til þess, að í framkvæmdinni verði gætt hófs með álagningu á kjöt það, sem selt verður á innlendum markaði; ég tel að þann veg muni hagsmunum bæði framleiðenda og neytenda bezt borgið. Það getur vel svo farið að mikið af kjöti okkar verði óseljanlegt. Það var bent á það af hv. frsm. meiri h. landbn., að markaðurinn í Noregi væri ákaflega þröngur, og hann getur þrengzt enn meir, svo að lítið verði á hann að treysta. Kjötframleiðsla okkar fer ekki minnkandi, og þó neyzla kjöts í landinu fari nokkuð vaxandi, þá er raunar hæpin von um það, að innlendi markaðurinn taki ennþá við öllu því kjöti, sem ekki er hægt að selja til Englands. En ef svo bættist ofan á, að verð á kjöti yrði sett svo hátt, að það drægi úr neyzlunni í landinu, þannig, að kaupstaðarbúar minnkuðu sín kjötkaup, þá yrði tvísýnn hagur að hinu háa verði. Slíkt gæti ennfremur leitt til þess, að ýmsir menn í kaupstöðum og kauptúnum, sem hentugleika hefðu til þess, færu að rækta sauðfé og á þann hátt framleiða kjöt fyrir sig og sína, en slík sauðfjárrækt við erfið skilyrði er ekki eftirsóknarverð eða hagkvæm fyrir heildina. Hvernig sem á þetta mál er litið, er það áreiðanlega hagsmunamál beggja aðila, bæði framleiðenda og neytenda, að kjötverðinu sé stillt í hóf. Ég vil því undirstrika það, að ég greiði frv. atkv. í því trausti, að fyllsta hófs verði gætt í þessu efni, en ég verð að efast um, að þessa hafi verið gætt á þessu hausti, þó ekki liggi enn fyrir gögn, er skeri úr um þetta. Hitt veit ég, að verðlagsákvæði kjötverðlagsnefndar hafa orðið til þess að draga úr kjötsölunni í öðrum stærsta kaupstað landsins, Akureyri, vafalaust að mestu eða öllu leyti vegna of mikils álags á kjötið, miðað við sölu á erlendum markaði.