19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 5. þm. Reykv. er sár út af því, að ég hafi ekki tekið vel málhreinsunartill. hans. Ég skal fúslega verða við öllum hans réttlátu óskum um málhreinsun.

Það mun rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að mörg lönd, sem komið hefðu á hjá sér eldspýtnaeinokun, hefðu gert það til þess að afla sér lána. Það er sama og hér er verið að gera. Frv. er borið fram til þess að afla fjár. Öll þessi ríki hafa látið undan nauðsyn þess að afla fjár, er þau tóku upp eldspýtnaeinokun.

Ég gat þess, að hæstv. stj. myndi gera ráð fyrir, að tekjur af einkasölunni yrðu ekki minni en 40 þús. kr., jafnvel þó ekki sé beitt að fullu því ákvæði um álagningu, sem heimilað er í frv. Ég get ekki gefið upplýsingar um, hve mikill hagnaður muni verða af sölu á vindlingapappír, en ég geri fastlega ráð fyrir því, að þar verði beitt að fullu heimildinni um 100% álagningu. Að öðru leyti má gera ráð fyrir, að af álagningu verði jafn ágóði og nemur innkaupsverði, og er það allgóður búbætir fyrir ríkissjóð.

Hv. 3. þm. Reykv. heldur því ákveðið fram, að ágóðinn af þessum tveimur vörutegundum hljóti að lækka, því kaupmenn fái minni tekjur af eldspýtnasölunni. Ég vil benda á þann möguleika, ef margar vörur ganga undan kaupmönnum, að þá er líka til sá möguleiki, að kaupmönnunum sjálfum fækki, og ég verð að segja, að það álít ég skaðlítið fyrir kaupmennina sjálfa og þjóðfélagið.

Það hefir orðið svo, að í þeim miklu verðlagsbreytingum, sem orðið hafa eftir stríðið, hefir smásöluverðið ekki lækkað tiltölulega við þá lækkun, sem orðið hefir á vörum í heildsölu. Ég hygg, að þessir verzlunarhættir hafi ekki orðið kaupmannastéttinni að sérlega miklu liði, vegna þess að með þessu móti, að hækka smásöluálagninguna og auka á þann hátt gróðann, hafa skapazt möguleikar fyrir fleiri menn að gera kaupmennsku að starfi sínu, svo þó að álagningarhækkun hafi orðið, hafa kaupmenn ekki haft meiri ágóða af starfi sínu, því fjöldi fólks hefir hlaðizt utan um þessa atvinnugrein. Ég get því ekki, þó svo færi, að nokkrir menn hættu smásölustarfi sínu, talið það skaða kaupmannastéttina sjálfa né heldur þjóðfélagið. Ég tel ákaflega hættulítið fyrir þjóðfélagið, þó kaupmannastéttin yrði takmarkaðri en nú er, innan vissra takmarka.

Bæði hv. 6. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. hafa lagt mikla áherzlu á að útmála spillingu nútímans, og þá sérstaklega þá sjúkdóma, sem jafnaðarstefnan hefði í för með sér og ýmsir væru smitaðir af, og þar á meðal væri ég einn. Ég skal játa það, að ég er smitaður af því, sem kalla má rauða hunda þessara tíma, og ég tel mér það til gildis sem manni og þm. að vera það. Ég kýs heldur að vera það, sem þessir hv. þm. kalla smitaður, heldur en fylgjast ekki með þróun tímans, og ég kalla það frekar sjúkdómsmerki að liggja aftur í tíma Laissez-faire stefnu 19. aldarinnar, og það vil ég segja, að er svo hættulegur sjúkdómur, að liggja aftur í feni miðaldanna, að það getur dregið þjóðfélagið til dauða.