09.03.1935
Neðri deild: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

30. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Jón Pálmason):

Það kemur sjálfsagt fáum á óvart, sem fylgzt hafa með gangi þessa máls á undanförnum þingum, þó slíkur ágreiningur komi fram, sem felst í brtt. á þskj. 89, frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Sk.

Um þessar brtt. vil ég fyrst segja það, að þær eru ekki stílaðar á réttan hátt, þar sem þær eru bornar fram sem brtt. við frv. um útrýmingarböðun, því þær eru blátt áfram brtt. við l. um þrifabaðanir frá 1914, og það meira að segja mjög óverulegar brtt., því í þeim l. eru mjög skýr ákvæði um það, að almennar þrifabaðanir skuli vera undir eftirliti hreppsnefnda. Hér er því í sjálfu sér ekki um neinar nýjar till. að ræða, og er því nú með þessum brtt. kominn í ljós sá meginágreiningur, sem jafnan hefir uppi verið um þetta mál milli þeirra, sem ekkert vilja gera til þess að útrýma sýkinni, og hinna, sem telja það nauðsynlegt. Það er augljóst, að flm. þessara brtt. þykjast ætla að halda sýkinni í skefjum með samskonar ráðstöfunum og lögskipaðar hafa verið alla tíð síðan 1914 og menn hafa nú séð, hvernig hafa gefizt.

Snertandi það, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að hér væru sömu öryggisákvæði og í frv. okkar landbn.manna, þá er það fjarstæða ein, því að í þessum till. er ekki gert ráð fyrir neinni allsherjar útrýmingarböðun, svo sem tvöföldu baði og öðrum þeim ráðstofunum, sem í frv. greinir. Að nokkur von sé til þess, að svipaður árangur náist með því að samþ. þessar brtt., liggur í augum uppi, að ekki getur verið. Hvað það snertir, að kostnaðurinn við framkvæmdina eftir frv. muni verða margfaldur, eins og hv. þm. Borgf. hélt fram, þá má mikið um það deila, hvað sé dýrast og hvað ódýrast í þessum efnum. Ég fyrir mitt leyti tel það dýrara en allt annað í þessum sökum að láta þessa fjársýki vera viðloðandi í okkar landi eins og hún hefir verið, er og verður, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að fá henni útrýmt. Það er ekkert annað en grýla, að útrýmingarkostnaðurinn verði svo gífurlegur. Það er ekkert annað en fjarstæða. Hvað ríkissjóð snertir á hann ekki að leggja fram annað en baðlyf í aðra böðunina. Í eina böðun verða fjáreigendur hvort sem er að leggja fé, og er því ekki um aukinn kostnað fyrir þá að ræða. Í l. um þrifaböðun er gert ráð fyrir, að eftirlit sé jafnan framkvæmt, og það gera flm. brtt. einnig, en ég geri ekki ráð fyrir, að kostnaðurinn verði meiri fyrir það árið, sem böðunin fer fram, og því verði á því sviði ekki um aukin útgjöld að raða frá því, sem ella myndi. Ef við lítum á þetta frá hálfu ríkissjóðsins sjálfs, má gera ráð fyrir, að baðlyfið kosti um 20–30 þús. kr. í aðra böðunina. En árið 1933 þurfti ríkissjóður að leggja fram til þessara prófbaðana, sem ekki komu að neinn gagni, rúml. 12,7 þús. kr., og árið 1934 rúml. 9,9 þús. kr. Hér er því í mesta lagi um 10–20 þús. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóðinn sjálfan að ræða, ef ekki verður um útrýmingarböðun að ræða nema eitt ár, sem við vonum, að muni nægja. Allar þessar kostnaðargrýlur er því ekki ástæða til að taka alvarlega. Hitt er miklu meiri kostnaður fyrir fjáreigendur landsins, auk annars, sem hægt er um það að segja, að láta þessa þyki vera viðloðandi í sauðfénu eins og nú er og fer sífellt versnandi.

Hvað því viðvíkur, að hv. síðasti ræðumaður var að tala um smíðagalla á frv. landbn. hvað snertir útrýmingarböðun í kaupstöðum, þá er það, að mér skilst, misskilningur hjá honum, því að í 1. gr. frv. stendur, að útrýmingarböðun skuli fram fara á öllu sauðfé á landinu. Og þótt það sé rétt, að ekki sé tiltekið, að sérstakur eftirlitsmaður skuli vera í kaupstöðum, þá er það gefin sök, að kaupstaðir fylgja með þeim sýslufélögum, sem þeir eru í. (PO: í hvaða sýslufélögum eru kaupstaðirnir?). Þeir tilheyra þá næstu sýslufélögum. Í kaupstöðum er ekki það margt fé, að ekki megi vel hafa sama eftirlitsmanninn fyrir t. d. Gullbringusýslu og Reykjavík, og fyrir Eyjafjörð og Akureyri. Hvað kaupstaðina snertir eiga þeir því að teljast til þeirra sýslufélaga, sem þeir landfræðilega eru í. En ef það þætti eitthvað öruggara að koma því inn í frv., að sérstakir eftirlitsmenn væru í kaupstöðum, þá er auðvitað opin leið til þess. Það verður aldrei að ágreiningsefni.

Annars vænti ég, að hv. þm. athugi það, að hér er um tvær gagnólíkar stefnur að ræða í þessu máli. Önnur er sú, sem landbn. fylgir, að gera alvarlega gangskör að því að útrýma þessari plágu úr landinu. Hin er að halda áfram kákinu og láta allt vera eins og það hefir áður verið. Sú stefna er grundvölluð á vantrú á því, að unnt sé að útrýma kláðanum með öllu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en að sjálfsögðu má gera ráð fyrir, að einhverjar frekari umr. verði um málið, og munum við í landbn. Þá hafa einhverju til að svara, ef á okkur verður deilt.