09.03.1935
Neðri deild: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

30. mál, útrýming fjárkláða

Þorbergur Þorleifsson:

Það er rangt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði í ræðu sinni, og fleiri hafa látið lík orð falla um, að þeir, sem ekki vildu samþ. þetta frv. landbn., séu andvígir því að útrýma kláðanum úr landinu. Brtt. okkar hv. þm. Borgf. miða að því að útrýma kláðanum úr landinu, hér er ekki um skoðanamun á því að ræða, hvort útrýma skuli kláðanum eða ekki, heldur hvaða aðferð beri að nota til þess, og um það hefir verið deilt frá öndverðu í þessu kláðamáli, sem er gamalt hér á landi. Það liggur svo opið fyrir, að ekki þarf um að deila, að enginn maður í landinu vill halda kláðanum við, en um útrýmingaraðferðina eru skiptar skoðanir.

Þá talaði hv. þm. A.-Húnv. um það, að þessar brtt. okkar væru ekki rétt stílaðar. En ég vænti, að hann hafi athugað það, að við leggjum til, að fyrirsögn frv. verði breytt til samræmis við það efni, sem eftir okkar till. á að fjalla um. Sé ég því ekki annað en að vel megi samþ. okkar till. til gagns fyrir málið. Annars kom fátt nýtt fram í ræðu hv. þm., og mér finnst hann ekki eins ákveðinn í málinu og hann var upphaflega, og vona ég, að hann sannfærist smátt og smátt um það, að sú aðferð, sem hann og samnm. hans vilja hafa í þessu máli, nfl. demba yfir landið tveimur útrýmingarböðunum hvorri á eftir annari, er svo hættuleg, að óforsvaranlegt er að samþ. hana. Það, sem er þyngst á metunum hjá mér í þessu máli, er heilsa fénaðarins í landinu. Það er óhætt að fullyrða, að af því myndi stafa hinn mesti voði, ef notuð væri sú aðferð, sem í frv. er gert ráð fyrir, að baða tvisvar sinnum með stuttu millibili. Og þótt sýna megi fram á það, að bein fjárútlát við böðunina yrðu miklu meiri en 10–20 þús. kr., eins og hv. þm. A.-Húnv. var að tala um, þá er samt líf og heilsa fénaðarins það, sem mestu ræður hjá mér um afstöðuna til þessa máls. Ég er nokkuð kunnugur á svæðinu frá Langanesi og til Reykjavíkur og veit, að heilsa fénaðarins á því svæði er þannig vegna ýmiskonar pesta, annara en fjárkláðans, að slíkar baðanir, sem frv. ráðgerir, myndu valda stórfelli. Og ég hygg, að aðrir landshlutar hafi ekki ósvipaða sögu að segja. Þessu til sönnunar vil ég leyfa mér að lesa upp kafla úr bréfi ekkju vestur á landi, sem sækir um styrk til fjvn. vegna plágu í fé hennar. Þessi kafli hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ég er hér einstæðingur, eins og þér vitið, og sé engar leiðir á efnalegu sviði til að komast áfram, vegna þess tjóns, sem ég hefi beðið við skepnumissi síðastl. vor. Ég varð fyrir því óláni, að þessi mikla fjárpest, sem víða gekk yfir, kom hér, eftir að skepnur voru farnar af húsi, og missti ég 30 ær, 30 gemlinga og fimmtíu unglömb, og þar að auki vantaði mig 30 ær í ull, þegar smalað var til rýjunar í vor, og býst ég við, að þær séu með öllu dauðar. Og þær fáu kindur, sem eru hér í kring, virðast ekki taka neinum sumarbata, að líkindum af veiki, sem í þeim er“.

Eins og þessi bréfkafli ber með sér, þá er sýnilegt, að þessa sömu sögu geta tugir, jafnvel hundruð bænda sagt um land allt. Og þá má nærri geta, hvort fé með slíka pest í sér þolir aðra eins meðferð og frv. gerir ráð fyrir. (TT: Þetta fé er nú farið). Já, að vísu, en ef hv. þm. Snæf. ímyndar sér, að þar með sé útrýmt öllu lasburða fé úr landinu, þá á hann mikið eftir að læra búnaði vitkomandi. (TT: Ég myndi ekki fara til þessa hv. þm. til að nema búfræði). Þótt hv. þm. Snæf. bæri ekki gæfu til að læra hjá mér, er ekki útilokað, að hann gæti samt sem áður eitthvað lært.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ak. hélt fram, að kláðinn myndi vera víðar en menn grunaði, því að honum væri leynt, þá vil ég segja það, að kláðinn er ekki eins voðaleg pest og lýst hefir nú verið, ef hægt er að leyna honum. Og þetta dæmi hans, að 2 kláðakindur úr Árnessýslu hefðu verið seldar í Húnv.s., sannar alls ekkert um kláða í Árnessýslu, því að auðvitað hafa kindurnar haft samgang við fé úr Húnav.s. Ætti málstað hv. þm. að vera heppilegast, að sem minnst kæmi fram af slíkum dæmum máli hans til stuðnings. En það er eðlilega reynt að gera það að rökum, sem þó engin rök eru.