11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

30. mál, útrýming fjárkláða

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég á hér brtt. við þetta frv., og er skjótt af að segja, að ég tel eins og þessum málum er nú komið, og ástandið í landinu er með kláðann, að í fyrsta lagi sé það rétt, að þetta frv., sem hv. landbn. hefir komið með, nái ekki fram að ganga, og sé ég ekki, að hún bæti mikið úr með brtt. mínum á þskj. 108, en hinsvegar tel ég, að það mundi fullnægja, og fyrst um sinn vera rétt, að samþ. brtt. þær, sem nú liggja fyrir á þskj. 39, frá tveimur hv. þm. Ég mun því greiða þeim brtt., sem að vísu umsteypa frv., atkv. mitt, en hefði þó viljað tryggja, að málið felli ekki, ef þær næðu ekki fram að ganga, í sama óheillafarið og það nú er í, að því er snertir till. landbn., sem nú liggja fyrir.

Ég tel, að það ákvæði í 1. gr. frv., sem samþ. var við 2. umr. málsins hér í hv. d., nái ekki tilgangi sínum, sem að vísu gekk í þá átt að fullnægja óskum okkar, sem ekki viljum skylda héruð, sem laus eru við þenna ófögnuð, til þess að ráðast í mikinn og óbærilegan kostnað, með öllum þeim afleiðingum, sem leiðir af böðun sauðfjár. Ég flyt því brtt. á þskj. 107. sem skilyrðislaust undanskilur þau héruð, þar sem kláða hefir ekki orðið vart síðustu 5 árin. Ef fylgt hefði frá hv. landbn. það álit, og svo góð ummæli eins og vænta hefði mátt, að hún meinti með sinni till., að það skyldi undanskilja þau héruð, þó að orðalagið gefi annað til kynna, þá hefði ég sætt mig við það, en það hefir ekki komið fram, og gerir líklega ekki, svo að það fullnægi mér og öðrum, því að ákvæðið í síðari mgr. 1. gr. eins og það er, er allt of loðmullulegt.

Í fyrsta lagi er ráðh. heimilt að undanskilja þessi svæði, og í öðru lagi er það lagt undir dóm Búnaðarfélagsins, hvort það sé óhætt, eða um smitun af sýktu fé úr öðrum héruðum geti verið að ræða. Það er vitanlega ekki hægt að dæma um það — og hvar er sá staður á landinu, sem ekki getur verið um smitunarhættu að ræða?

En mér skildist það ekki meiningin hjá hv. landbn., að hún ætti með þessu að útrýma kláða, sem alls ekki er til. M. ö. o., útrýmingin eigi að gilda svo víðtækt, að það megi ekki vera álit fyrir hendi um það, að komið geti til mála, að nokkurntíma geti sýkzt fé á einhverju svæði, sem ætti að undanskilja, af fé á öðrum svæðum. Þessi málsgr. leggur það í vald Búnaðarfél. og ráðh., hvort böðun á að fara fram um land allt og íþyngja þannig um skör fram þeim héruðum, sem eiga að vera laus allra mála. Það er að vísu gefið, að það hérað, sem sjálfsagt er að undanskilja, eru báðar Skaftafellssýslurnar, sem að vitund allra manna eru þau héruð landsins, þar sem ekki er kláði, en það geta þó verið önnur svæði, þar sem engin ástæða er til að ráðast í þetta, þó að það séu ekki heilar sýslur, heldur aðeins einstakir hreppar. Það er nokkur mismunur á því, hvort allt er morandi í kláða eða aðeins ein eða tvær kindur koma með kláða á hausti, og það kannske hrútar, sem hafðir eru inni, og alveg ástæðulaust að fyrirskipa allsherjar böðun, þó að slík tilfelli komi fyrir. Það segja mér skilríkir menn úr ýmsum héruðum, að víða séu til þau svæði, þar sem ekki er kláði, eins og t. d. í sumum hreppum Múlasýslna, Barðastrandarsýslu og hér á Suðurlandsundirlendinu í Árnessýslu.

Það getur verið, að þetta mál nái ekki fram að ganga, og er þá betur en nú horfir, þó að þeim þyki kannske súrt í broti, er um þetta eiga að fjalla. En ég vil undanskilja mig og mitt hérað frá því, að verið sé að lögbjóða um það, sem ekki á sér stað. Þar sem kláði er á annað borð, verður honum vart útrýmt með einni böðun, enda gerir frv. ráð fyrir, að það misheppnist og fari þá önnur böðun fram, og ef á að fara að þröngva héruðum, sem eru „hrein“, að endurtaka böðun hvað eftir annað. þá vil ég ekki standa að þeim leik.