30.03.1935
Neðri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þessi brtt., sem landbn. flytur, er eiginlega ekki annað en leiðrétting, eins og minnzt var á við 2. umr. þannig, að það, sem þarf að breytast samkv. c-lið 12. gr., eru 4 tölur í ræktunarsjóðslögunum, þrisvar sinnum 6% og einu sinni 51/2%, en fyrir vangá hefir ein talan, sem þurfti að breytast, fallið niður, 6%, svo að ekki fæst út úr þessu fullkomin meining eins og fyrir landbn. vakti, eins og það er nú. Er því nauðsynlegt að fá breytt öllum 4 tölunum, því að það eru aðalákv. í l. til að tryggja það, að vextirnir lækki úr 6% í 5%. En af því að aðeins er um að ræða þrisvar sinnum töluna 6% og einu sinni töluna 51/2%, þá virtist n. hún ná því, sem fyrir henni vakti, með brtt. þeirri, sem hér er fram komin, þannig að alstaðar í stað 6 komi 5, og í stað 51/2 komi 41/2. Það er prentvilla í þskj. þar sem stendur, að í stað 5 skuli koma 4; það á að vera 41/2, og vænti eg, að hæstv. forseti sjái um, að þetta verði lagað í prentun þingtíðindanna. Það er eins og það séu álög á þessu máli, að prentvillupúkinn skuli fylgja því frá því fyrsta til hins síðasta. Um þetta hefi ég svo ekki fleira að segja, en vildi lauslega minnast á brtt. frá hv. þm. N.-Þ. N. hafði hana til meðferðar, og leggur á móti henni. Eins og nú er, eru engin ákvæði um það í ræktunarsjóðslögunum, til hve langs tíma megi veita lán til rafveitubygginga í sveitum, en með reglugerðarákvæði er þetta ákveðið 10 ár. Er tíminn ákveðinn að mestu leyti með hliðsjón af þeim varanleika, sem þessi mannvirki hafa. Að vísu má segja, að þetta sé nokkuð misjafnt, eftir því hve vandaður frágangurinn er, en mér er sagt, að reikna megi með 15 ára endingu rafstöðvanna til jafnaðar, þannig, að lánin ætti að vera búið að greiða niður á þeim tíma.

Það er ekki venja að færa lánstímann hærra en upp í það ýtrasta, sem gert er ráð fyrir, að viðkomandi framkvæmdir endist, og þó frekar hafður lægri. Það virðist því ekki hyggilegt að fara mikið hærra en í 10–12 ár, og alls ekki ráðlegt að færa lánstímann upp í 20 ár. Hinsvegar er ég ekkert á móti því, að hann sé eitthvað lengdur, og til þess er opin leið með reglugerð, en ef till. þessi verður samþ., er þetta fastbundið við 20 ár. En það verða menn að athuga, að þó rafveitur séu nauðsynlegar framkvæmdir fyrir landbúnaðinn og létti undir um ýms vinnubrögð, eru þær samt einhver óarðgæfasta framkvæmd, sem bændur hafa með höndum og fá lán til úr ræktunarsjóði. Það verður að gera þá kröfu til bænda, sem setja upp rafstöðvar, að þeir geti greitt þær upp nokkuð ort. því það gildi, sem þær hafa fyrir efnahag þeirra, er ekki eins mikið og annara framkvæmda.