27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Thor Thors:

Ég skal ekki lengja umr. mikið frá því, sem orðið er, en ég sé ástæðu til að segja nokkur orð í sambandi við þau ummæli, sem ég lét falla við 1. umr. Ég gat þess þá, að það væri yfirleitt sjónarmið Sjálfstfl., að frv. stj. um skuldaskil vélbáta væri aðallega flutt til þess að slá ryki í augun á útgerðarmönnum. Ég byggði það á því, að þar sem ekki var um annað að raða en að taka 11/2 millj. kr. lán í þessu skyni, þá gæti þessu engin alvara fylgt, af því að stj. hefir nýlega gefið yfirlýsingu um það, og reyndar skuldbundið sig til þess að forðast allar lántökur erlendis. Og þar sem ennfremur er vitað, að peningamarkaðurinn innanlands er ekki slíkur, að þess sé nokkur von, að hægt sé að fá lán innanlands, þá væri þessi heimild einskis virði fyrir bátaútveginn.

Mér er ánægja að sjá, að stj. hefir nú í raun og veru fallizt á þessi ummæli okkar sjálfstæðismanna, þar sem hún hefir vikið frá fyrri afstöðu til þessa máls og farið inn á þá lausn málsins, sem forsvarsmenn okkar fyrir sjávarútvegsmálin, hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., einmitt bentu á í sínu frv. Þeir bentu á þá lausn, að gefa út handhafaskuldabréf, sem væru lögboðinn gjaldeyrir til þeirra, sem skuldir eiga á hendur útgerðarmanna. Hæstv. stj. hefir því, þrátt fyrir öll hin stóru ummæli hæstv. atvmrh. við fyrri umr. þessa máls, neyðzt til að fara inn á þá einu frambærilegu lausn málsins, sem henni hefir verið bent á við meðferð þess á þessu þingi, og ég verð að láta í ljós ánægju mína yfir því, að stj. hefir þó að þessu leyti viljað taka leiðbeiningum sjálfstæðismanna.

Ég sé fram á það, að með þessari aðferð, að gefa út þessi bréf, er þessu máli þó sinnt nokkuð, en ég tel, að sú upphæð, sem verja á í þessum tilgangi, sé allsendis ófullnægjandi. En vegna þess, að hér getur um vísi til úrlausnar verið að ræða, þá mun ég eigi greiða atkv. gegn þessu frv., en mun sitja hjá við atkvgr., þar sem ég tel lausnina algerlega ófullnægjandi.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða það, hverjar ástæður geta legið til þess að vilja ekki sinna nauðsyn allra útgerðarmanna. En ég skal minna á það einu sinni enn, að þegar skuldaskil bænda voru hér til meðferðar, þá var ekki spurt um það, hvort það væru stórbændur eða smábændur, heldur átti að sinna málefnum þeirra allra, en nú þykir ástæða til að beita annari aðferð hér, þegar útgerðarmenn eiga í hlut. Og ef þeir láta sér það ekki vel líka, þá er þeim brugðið um smásálarskap, illkvittni og öfund. Þessu er slegið fram með stórum orðum í blöðum stjórnarflokkanna og fínum orðum í ræðu hæstv. ráðh., sem eftir að hafa fyrst verið hávær og heimtufrekur þm. í andstöðuflokki stj., hefir nú komizt í þá virðulegu stöðu að vera atvmrh. En ég hygg, að allir þeir, sem bíða með eftirvæntingu eftir raunverulegri og fullnægjandi lausn þessa máls, láti sér ekki lynda þetta músarrindilssjónarmið stjórnarflokkanna, og þess verði ekki langt að bíða að alþjóðarnauðsyn heimtar, að þetta mál verði tekið fyrir á ný og grundvöllurinn lagður á víðari og víðsýnni hátt en hér er gert.