19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

75. mál, hæstiréttur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég vona, þar sem n. er í raun og veru klofin í þessu máli, að hæstv. forseti verði mér ekki mjög reiður, þó að ég tali í lengra lagi um málið.

það væri ekki óeðlilegt, þó að ég þyrfti að endurtaka mest af því, sem ég hefi áður sagt um þetta mál, vegna þess, að aðalflm. málsins, hv. þm. Barð., hefir ekki verið í deildinni, þegar það hefir verið rætt. En ég skal, af því að ég hefi ekki leyfi til að gera nema stutta aths., aðeins drepa á tvo eða þrjú atriði, sem að mínu áliti skipta mestu máli. Mér virðist sem hv. þm. Barð. muni eiga erfiða aðstöðu með að vera á móti því, að settir skuli aukadómarar, þar sem hann var frsm. allshn. á þinginu 1932 og mælti þá eindregið með slíku ákvæði, og nú eru allar þær sömu ástæður fyrir hendi og þá voru. (SJ: Það er vond aðstaða fyrir hv. þm. að vera með þessu núna). Ég vil benda hv. þm. á, að það er rangt hjá honum, að fimmtardómsfrv. hafi strandað að þessu leyti til vegna andstöðu Sjálfstfl. Einar Arnórsson, sem þá var frsm. minni hl. allshn., mælti með því, að brtt. um, að aukadómarar yrðu settir, yrði samþ. Þó að frv. hafi af ýmsum ástæðum strandað vegna andstöðu Sjálfstfl., þá var það ekki í sambandi við þetta atriði.

Það var líka rangt hjá þessum hv. þm., þar sem hann var að tala um, að það mundi geta orðið stríð milli dómsmrh. og hæstaréttar vegna þess, að dómsmrh. gæti sett hvaða mann í réttinn, sem hann vildi, svo og svo lengi. Þetta er ekki rétt, vegna þess að það er eingöngu takmarkað við lagadeild háskólans. Ég fæ ekki séð, hversvegna ekki má nú, eins og þessir hv. þm. vildu 1930, 1931 og 1932, sætta sig við að taka aukadómara hæstaréttar úr flokki kennara háskólans, eins og minni hl. allshn. vill nú.

Um dómaraprófið hefi ég áður talað tvisvar sinnum, og skal ég því ekki lengi tefja við það. En ég vil leggja sérstaka áherzlu á, að ég fæ ekki séð, að það sé samræmi í því að krefjast frekari skilyrða af málafærslumönnum við réttinn heldur en dómurunum sjálfum, og það eru engir til, sem eru færari um að dæma hæfni nýrra dómara heldur en hæstaréttardómararnir sjálfir. Það er alveg sama, hvernig þetta mál er varið af hv. flm., það verður aldrei framhjá því gengið, að þetta ákvæði er sett til þess, að viðkomandi ráðh. nái meira valdi yfir dómurunum en nú er.

Hv. þm. Barð. sagði, að þetta væri pólitískt mál hjá Sjálfstfl. Ég hygg, að þeir, sem lesa það, sem fram fór á Alþingi 1919, þegar lögin um hæstarétt voru sett, muni sannfærast um, að Alþingi gerði þá allt, sem það gat, til þess að tryggja öryggi þessa réttar — tryggja, að hann yrði sem óháðastur framkvæmdavaldinu, og Sjálfstfl. hefir ótrauður viljað halda þeirri stefnu áfram. En mér finnst sem þessir lögfræðingar, sem eru flm. þessa máls, sjái ástæðu til þess að teygja umboðsvaldið inn á vettvang hæstaréttar. Ég held, að hv. þm. Barð. ætti ekki að vera að kasta hnútum að Sjálfstfl. um, að hann væri að koma með pólitíska árás á þennan rétt, rétt eftir að hann er búinn að flytja tvær ræður, sem voru að mestu leyti níð um tvo dómara hæstaréttar. Ég verð að segja það í fullu bróðerni við hv. þm., að ég álít það ósæmilegt af hv. þm. að leyfa sér hér í þingsalnum að ráðast á þessa tvo virðulegu dómara hæstaréttar og bera þeim á brýn, að þeir hafi sýknað mann af ákæru — sem hann er viss um, að hafi við rok að styðjast — af því að þeir séu vinir hans. Ég hygg, að vegur þessa hv. dómara, hv. þm. Barð., vaxi ekkert, þó að hann leyfi sér að ráðast með slíkum ummælum sem þessum á þessa menn, jafnvel þó að hann álíti sig hafa á réttu að standa. Ég vil benda hv. þm. á, að það er sitt hvað að komast að rangri niðurstöðu, en dæma eftir beztu vitund, eða að kveða upp rangan dóm, jafnvel þó að maður viti betur, og það var einmitt það, sem hv. þm. var að bera hæstaréttardómurunum á brýn. Mér finnst það einnig ósmekklegt af hv. þm. Barð. að vera að ráðast á hv. þm. V.-Sk. og segja, að hann hafi veizt að sér vegna þess, að honum hafi verið veitt embætti, sem hv. þm. V.-Sk. hafði ekki fengið, en hann þó sótti um. Mér finnst þetta óviðeigandi, þó að hv. þm. V.-Sk. hafi tekið upp hanzkann fyrir þá menn, sem voru fjarverandi, sem sé hæstaréttardómarana, alveg á þinglegan hátt og vítt þennan hv. þm. harðara en hæstv. forseti gerði, sem hann þá hefði átt að gera. Það er harla einkennilegt, að í sömu andránni sem þessi hv. þm. er að halda því fram, að sá virðulegi dómsmrh., sem nú situr, muni áreiðanlega hér eftir sem hingað til sýna fullkomið réttlæti í embættaveitingum, halda því fram, að þessi andmæli hv. þm. V: Sk. komi af því, að sér hafi verið veitt embætti, sem hv. þm. V.-Sk. hafði sótt um. Hv. þm. (BJ) verður að viðurkenna það, að þessi veiting á embættinu til hans var alveg þvert ofan í allar reglur, sem hingað til hafa þekkzt. Og með fullri virðingu fyrir hv. þm. Barð., þá held ég, að ég verði að leyfa mér að slá því fram, að hv. þm. V.-Sk. muni þola allan samjöfnuð við hann sem dómari, sýslumaður og þingmaður. Og hvað er þá eftir?

Það er óviðkunnanlegt af hv. þm. að færa rök fyrir sínu máli á þessum vettvangi á þann veg að ráðast með persónulegu níði á fjarverandi menn og segja, að þeir hafi vísvitandi kveðið upp rangan dóm. Ég er hissa á því, að hann skuli leyfa sér slíkt.