22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Torfason:

Mér er ánægja að geta lýst því yfir, að það hefir fagurlega komið fram í umr. um þetta mál, að deiluefnið er eðlilega aðeins það, hvernig tryggja megi sem bezt öryggið í réttarfarsmálum í landinu. Öllum kemur saman um, að það beri að tryggja sem bezt.

Það, sem menn greinir á um, er aðeins aðferðirnar til þess. Er ekki nema gott til þess að vita, að hv. þm. skuli láta sér svona annt um hina háu dómstóla.

Ég hefi ekki viljað láta hjá líða að koma með brtt. við þetta frv., sem ganga í þá átt að gera réttaröryggið í landinu ennþá öruggara en það þó mundi vera með frv. án þeirra breyt., sem mínar brtt. gera ráð fyrir á því. Og að ég kem hér með þessar brtt., sérstaklega breyt. um það, að fjölga hæstaréttardómurum er af því, að það er vitað, að þjóðin var nokkurn veginn ánægð með hæstarétt á meðan hann skipuðu 5 dómarar. En eftir að fækkað var í réttinum, þá setti dóminn talsvert ofan. Því verður ekki neitað. Það er líka að vonum, að svo hafi farið, blátt áfram af því, að með því var breytt á móti reglu, sem hefir reynzt vel og verið alveg ófrávíkjanleg í öðrum siðuðum löndum. Þessi regla er að hafa hina æðri dóma, og þá sérstaklega þá, sem æðstir eru, sem fjölmennasta. Árið 1919 var talið, að hæstaréttardómarar mættu ekki vera færri en 5, því er það, að ég fyrir mitt leyti tel rétt að koma dómnum í sama far og áður var í þessu efni.

En nú er þetta ekki svo að skilja, að ekki sé ennþá meiri þörf á því að fjölga dómurum réttarins heldur en var 1919. Það er víst, að störf hæstaréttar hafa farið óðum vaxandi með ári hverju. Ég hygg, að þau séu orðin það mikil sum árin og það margbreytt og vandasöm, að það sé hæpið, að dómurinn hafi fullkomlega nægilegan tíma til þess að athuga nógu vel hin vandasamari mál, sem oft og tíðum eru mikil fyrirferðar- og umfangsmikil. Því er það, að ég held mér sé óhætt að segja, að enn meiri ástæða sé til þess nú að hafa dómaratöluna þá sömu og hún var 1919, fyrir 15 árum. En sérstaklega er það varhugavert að hafa mjög fáskipaðan dóm í þessu kunningsskaparins landi sem vort land er, þar sem við þekkjum allir, að allt smátt verður stórt og stórt verður smátt. Ég get þess t. d., að þegar um vafaatriði hefir verið að ræða, þá hefði verið komizt fram hjá sumu af því, sem hneykslað hefir menn, ef dómararnir í hæstarétti hefðu verið 5. Það er ekki hægt hjá því að komast, að hæstaréttardómurum beri að dæma í málum vina sinna og kunningja. Þá segir það sig sjálft, að ástæða getur verið til þess, að menn færist undan slíku. Nú er það svo oft og tíðum, að menn hafa ekki rétt til þess að færast undan slíku. Menn geta það ekki með núv. fyrirkomulagi á dóminum. Þess háttar vandræðum má ráða bót á með því að fjölga dómurunum. T. d. í bæjarfógetamálinu, sem mikið hefir verið um talað og um deilt, þá er ég ekki í vafa um, að þeir skólabræður og háskólabræður bæjarfógetans hefðu getað látið málið afskiptalaust, ef reglulegir dómarar hefðu verið 5 í hæstarétti, og látið aðra fjalla um málið.

Ég hefi með 2. brtt. minni lagt til, að með konunglegri tilsk. verði kveðið á um hvenær dómur skal settur með 5 mönnum. Að sumu leyti er þessi brtt. afleiðing af því, að það er ekki lagt til, að 5 menn skuli alltaf sitja í dóminum. Og þar sem ekki er heldur til þess ætlazt, að fjölgunin fari fram nú þegar, heldur síðar, þá er það nauðsynlegt, að þetta sé haft þannig.

Í fyrra frv. er ákveðið um það, hvenær eigi að setja dóminn með 5 mönnum og í hverjum málum. Menn voru alls ekki ásáttir um það, hvað væri heppilegast í þessu tilliti. Ég hygg líka, að talsverður vandi sé að ákveða um það fyrirfram. Því býst ég við, að það sé að mun hagkvæmara að láta gera þetta með konunglegri tilsk. Það er m. ö. o., að venja og reynsla dæmir svo um. Og að sjálfsögðu ætlast ég til, að tilsk. um þetta verði ekki sett nema að dómurum hæstaréttar heyrðum.

Þá er 3. brtt. mín um það, að dómarar skuli þó aðeins vera 3 þangað til fé er veitt í fjárl. til fjölgunar dómurum. Ástæðan til þess að ég legg þetta til, er sú, að ég tel varhugavert að demba mörgum nýjum dómurum í einu inn í réttinn. Ég tel heppilegra, að svo verði til hagað, að hægt sé að skipta aðeins um einn í einu, svo að ekki verði kippt í sundur þeirri tradition, sem er í réttinum. Því er heldur ekki að neita, að mér er kunnugt um, að sumir menn setja fyrir sig í þessu sambandi fjárhag ríkissjóðs eins og hann er nú og treysta sér ekki til þess að vera með því að ákveða, að fjölga skuli strax í dómnum. Þetta er mjög skiljanlegt, eins og nú lætur í ári. Ég tel ekki heldur, að það saki svo mjög, þó þetta sé gert, að fjölga ekki dómurum strax, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, sem ég talaði um áðan, en svo líka af því, að það má fjölga í dómnum hvenær sem þörf er, og það verður nokkurskonar reiddur vondur á hæstarétt. Ég hefi þá trú, að ekki verði fjölgað í hæstarétti nema því aðeins, að menn verði óánægðir með hann. M. ö. o., að ákvæði um fjölgun á hæstaréttardómurum komi fram eins og nokkurskonar vantraust á þeim dómurum, sem fyrir eru.

Því hefir verið haldið fram sem ástæðu fyrir því að fjölga ekki dómendum, að ekki væri nógu mikið mannval úr að velja til þess að skipa dóminn. Þetta hygg ég ekki vera rétt, og svo mikið var víst, að þegar hæstiréttur var fluttur hingað heim, þá lét einn merkur lögfræðingur þau orð falla, að svo mikið úrval væri hér af góðum lögfræðingum, að vel væri hægt að tvísetja réttinn. Ég vil nú ekki trúa því, að lögfræðimenntuninni hafi farið svo mjög aftur þau 15 ár, sem liðin eru síðan, að ekki sé hægt að fá sæmilega menn í réttinn. Ef sú væri raunin á, að það væri ekki hægt, þá væri fenginn ófagur dómur um lagakennslu okkar hér við háskólann. Þó er það víst, að sumir mjög mætir menn hafa haft kennsluna með höndum.

Þá er brtt. á þskj. 231 þess efnis, að þeir, sem fengið hafa 2. einkunn við embættispróf, geti orðið málflutningsmenn við réttinn, ef þeir hafa gegnt þeim störfum, sem sett eru sem skilyrði fyrir því að geta orðið málflutningsmenn við réttinn, í 6 ár, í stað þess sem þeir, sem hlotið hafa 1. einkunn, þurfa ekki að hafa gegnt þeim nema 3 ár. Út af þessu ákvæði brtt. vil ég taka það fram sem mína skoðun, að ég býst ekki við, að menn þessir með hina lakari einkunn batni nokkurn hlut, þó að þeir starfi helmingi lengur í þessum embættum.

Ég gæti að sjálfsögðu farið um þetta fleiri orðum, en tel þess ekki þörf að sinni. Vona aðeins, að till. mínum verði vel tekið, enda þótt ég, sem hálfgerður einstæðingur hér, geti ekki búizt við, að þær verði samþykktar.