25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

111. mál, gelding húsdýra

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta mál hefir nú legið fyrir ýmsum undanförnum þingum, og býst ég því við, að flestum hv. þm. sé meira og minna kunn forsaga þess. Það er borið fram af meiri hl. landbn., eftir beiðni Dýraverndunarfélags Íslands, og er tilgangur þess vitanlega sá, að lögbjóða meiri mannúð en hingað til hefir tíðkazt gagnvart húsdýrunum, þessum þörfu þjónum landbúnaðarins. Vænti ég, að ekki þurfi að fylgja þessu frv. mörg orð, því að ég býst við, að hv. þdm. sjái, að fullkomin ástæða er til þess að sýna meiri mannúð við geldingu húsdýra en hingað til hefir viðgengizt yfirleitt og að löggjafarvaldið láti til sín taka um það efni. Vil ég vænta þess, að hv. þm. láti þetta mál sjá meiri náð fyrir sínum augum heldur en raun hefir á orðið á undanförnum þingum og afgr. málið fljótlega.