21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Allir þeir fjhnm., sem voru á fundi, þegar þetta mál var rætt, voru sammála um að leggja til, að það yrði samþ. með tveimur breyt. Önnur er við 2. gr. og er aðeins orðabreyt. til lagfæringar á máli, en hin er við 5. gr. og er til leiðréttingar prentvillu, sem komizt hafði inn í frv.

Eins og frv. þetta ber með sér, fer það fram á að veita Ísafjarðarkaupstað heimild til þess að leggja á tvennskonar gjöld, annarsvegar til þess að leggja á fasteignagjald innan lögsagnarumdæmisins, og hinsvegar til þess að afla tekna með því að bærinn hafi einkarétt til uppskipunar og framskipunar á vörum á höfninni. Um leið og ég minnist á þetta frv. vil ég taka það fram út af þeim umr., sem orðið hafa um næsta mál á undan á dagskránni og verða kunna um næsta mál á eftir (frv. um bæjargjöld í Vestmannaeyjum og frv. um bæjargjöld á Akureyril, að þetta frv. er ekki sambærilegt við þau tvö mál, því í þeim, sem ég hefi lagzt á móti, er farið fram á að afla bæjunum tekna með vissu gjaldi, vörugjaldi af öllum vörum, sem fara gegnum höfnina, og þar af leiðandi jafnt af nauðsynjavörum eins og öðrum vörum, sem til bæjanna koma. Þetta sérstaka gjald var óþekkt þangað til það var tekið upp í Vestmannaeyjum með l., sem nú er farið fram á að fá framlengd, því áður höfðu aðeins verið lögð á hafnargjöld í þágu hafnanna sjálfra til eigin afnota, en ekki til almennra útgjalda í viðkomandi kaupstað. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er engu slíku til að dreifa, og vil ég nota tækifærið til þess að leiðrétta þann misskilning, sem fram kom hjá hv. þm. V.-Húnv. um þetta atriði, þar sem hann taldi, að það, sem ræðir um í 2. tölul. 1. gr. þessa frv., væri sama eðlis eins og það, sem um ræðir í frv. um bæjargjöld á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Hér er aðeins að ræða um lögfestingu á fyrirkomulagi, sem notað hefir verið á Ísafirði um 10 ára skeið samkv. samningi, sem gerður var á sínum tíma um það, að bærinn hefði með höndum alla fram- og uppskipun á vörum, sem fara um bæjarbryggjurnar. Þessi fram- og uppskipun var framkvæmd nákvæmlega með sama taxta eins og einstaklingarnir fóru eftir bæði fyrir og eftir að bærinn hafði þetta með höndum, eftir þeim upp lýsingum, sem ég hefi fengið. Hér er því ekki verið að leggja til, að lagður verði neinn nýr skattur eða tollur á þær vörur, sem ganga gegnum Ísafjarðarhöfn, heldur aðeins að sá hagnaður, sem hægt er að hafa af uppskipun og framskipun þar, renni í bæjarsjóð, í staðinn fyrir að hann renni í vasa einstakra manna. Það er því um svipaða tekjuöflun að ræða eins og þegar ríkið aflar sér tekna með einkasölu án þess að þær vörur, sem einkasala er tekin á, lækki við það í verði. — Ég vildi taka þetta fram strax, að gefnu tilefni, og eins sýna fram á, að það er ekkert ósamræmi í afstöðu minni til þessa máls og afstöðu minni til málanna næst á undan og eftir á dagskránni.

Þá skal ég geta þess, að þetta frv. fer fram á, að Ísafjarðarkaupstað sé veitt heimild til þess að leggja á hjá sér fasteignaskatt. Meira en helmingur allra bæjarfélaga á landinu hafa eftir núgildandi lögum heimild til þess að leggja slíkt fasteignagjald á hjá sér. Þessi fasteignaskattur til bæjarsjóðs er nokkuð mismunandi hár. Í einum kaupstað á landinu, Akureyri, og einn kauptúni, Húsavík, nemur hann af lóðum, en t. d. hér í Reykjavík 8%. Nú er farið fram á í þessu frv., að Ísafjarðarkaupstaður geti lagt á hjá sér fasteignaskatt, sem nemi 4% til 1 % af húsum og bryggjum, en 1% til 1% af lóðum. Hér er því farið fram á fasteignagjald innan takmarka þess, sem áður hefir verið veitt heimild til einstökum bæjar- og sveitarfélögum á landinu, og virðist ekki ástæða til að neita Ísafjarðarkaupstal, er hann æskir eftir að fá þann gjaldstofn, sem löggjafarvaldið hefir áður veitt öðrum bæjarfélögum.

Hitt er aftur nýmæli í löggjöf, sem farið er fram á, að veita bænum leyfi til þess að taka einkarétt á uppskipun og framskipun á vörum í skip, sem við bryggju bæjarins leggjast. En eins og ég gat um áðan, er það ekki nýmæli hvað Ísafjörð snertir, því bærinn hafði slíkan einkarétt í framkvæmdinni um tíu ára skeið, eins og skýrt er frá í grg. frv. Sá einkaréttur var byggður á samningi, sem gerður var á sínum tíma milli h/f Hæstakaupstaðar, eða í raun og veru firmans Nathan Olsens annarsvegar og bæjarstj. hinsvegar, og samkv. þeim samningi, sem hlaut staðfestingu stjórnarráðsins, hafði bærinn með höndum alla upp- og framskipun í 10 ár, nema hvað einstökum mönnum, sem fengu heila skipsfarma, var leyft að skipa upp sjálfum, gegn því að greiða visst gjald í bæjarsjóð. En svo reis upp ágreiningur um það, hvort þetta væri rétt og lögum samkv. Sá ágreiningur var borinn undir dómstólana, og honum lauk á þá lund, að ekki var talið, að heimild væri til þess í hafnarlögum Ísafjarðar, að bærinn hefði slíkan einkarétt til upp- og framskipunar á staðnum. Þetta fyrirkomulag féll því niður með hæstaréttardómi, sem um málið gekk. Nú er farið fram á, að bænum sé með lögum veittur þessi réttur, og sé ég ekki, að neitt mæli á móti því, þar sem þetta fyrirkomulag hefir verið reynt þar á staðnum með þeim árangri, að bæjarstj. telur sig hafa af því hlunnindi, án þess þó að það hafi haft áhrif á verðlag eða kostnað við uppskipun og framskipun.

Þetta eru þá þau tvö atriði, sem þetta frv. ræðir um. Annarsvegar fasteignagjaldið, sem þekkt er í flestum bæjarfélögum og sumum sveitarfélögum, og hinsvegar þessi einkaréttur, sem tíðkazt hefir í þessum kaupstað alllengi. Ég vil því vænta, að frv. fái að ganga fram, þar sem sýnt er, að það er í fyllsta máta eðlilegt.