25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég fæ ekki betur séð en að með þessari löggjöf, sérstaklega að því er fasteignaskattinn snertir, sé bæjarstj. Ísafjarðar nokkurnveginn í sjálfsvald sett, á hvern hátt hún notar þá heimild, sem hér er um að ræða. Það segir, að gjald af lóðum og öðrum fasteignum skuli vera frá 1‰ til 1%. ég vil nú spyrjast fyrir um, hvort ekki er í þeim l. öðrum, sem heimila bæjarfélögum að leggja á fasteignaskatt, ákveðið með l. sjálfum, hvernig skatturinn leggst á fasteignir. Er það ekki svo í I. um fasteignagjöld á Akureyri, Húsavík, Reykjavík og víðar, að það sé að engu leyti komið undir geðþótta eða samþykktum bæjarstjórnanna, hvernig þessi skattur leggst á? Mér skilst, að hér sé nýtt fyrirbrigði á ferðinni hvað þetta snertir, þar sem bæjarstj. getur hagað álagningu fasteignaskattsins eftir eigin vild, jafnvel breytt til frá ári til árs. Það má, að því er mér skilst, nota þessa heimild til þess að leggja fasteignaskattinn á eftir sama principi og t. d. útsvör. Þannig getur orðið úr þessum skatti gjald, sem ekki leggst með jöfnum þunga á allar fasteignir, sem það nær til, eftir matsverði, heldur gjald, sem bæjarstj. hefir opna leið til að ákveða sérstaklega af hverri einstakri eign og þannig mismuna eigendunum. Ef þetta er svo, þá sýnist mér hér stefnt inn á ranga braut. Og ég heyrði frá hæstv. forseta nú í fundarbyrjun, að komin eru mótmæli gegn þessu frv. frá Ísfirðingum, sem við þessa löggjöf eiga að búa, — mótmæli, sem mér skilst, að byggist einmitt á því, að menn óttist, að úr þessu verði ekki fasteignaskattur miðaður við verðgildi hverrar eignar, heldur sé bæjarstj. gefinn möguleiki til þess að haga þessu í hendi sér, allt öðruvísi heldur en hægt er með fasteignagjöldin í hinum kaupstöðunum, sem þau hafa. Mér finnst þetta mjög stórt atriði og vil spyrja hv. fjhn., hvort þetta hefir ekki verið athugað sérstaklega í n.

Ég sé, að það vantar menn úr fjhn., sem e. t. v. hefðu fengizt til að svara þessu, ef þeir hefðu haft tækifæri til. (Forseti: Ég get ekki gert að því. 3. umr. er eftir, og þá verða málinu væntanlega gerð betri skil).