29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hafði ákveðið að kveðja mér hljóðs við 2. umr. þessa máls, en af sérstökum ástæðum var ég ekki viðstaddur, þegar hún fór fram. En þar sem mál þetta hefir verið til meðferðar hjá hv. fjhn. og mælt er með því af meiri hl. hennar, en hinsvegar hefir ekkert nál. komið fram frá minni hl. n., þá þykir mér hlýða, að eitthvað heyrist frá þeim hlutanum.

Það er eftirtektarvert í sambandi við þetta frv. — eins og raunar hefir orðið vart við í flutningi mála hér —, það er flaustrið, sem hefir verið við samningu þess. Meiri hl. flytur tvær brtt., sem eingöngu eru til að leiðrétta, en samt er eftir enn leiðinlegt smíðalýti á 5. gr. frv., sem meiri hl. hefir sézt yfir.

Það var svo fyrir mælt í frv. upphaflega, að upp- og útskipunargjaldið skyldi miðað við meðaltal síðustu ára. Hv. meiri hl. hefir séð, að þetta var mjög óákveðið og að nauðsynlegt væri að tiltaka einhvern árafjölda, og hefir dottið í hug 3 ár. En þeim hefir alveg sézt yfir þann hortitt, sem er að segja fyrir 3 síðustu árin. Því ef það á að lesast eins og íslenzka, þá getur það ekki þýtt annað en að gjaldið eigi jafnan að miðast við síðastl. 3 ár, en meiningin er vitanlega síðustu 3 árin áður en lög þessi ganga í gildi. En það er bara ómögulegt að lesa þetta þannig né skilja. Ég skal náttúrlega ekki segja um, hvað menn treysta sér til að samþ. og hvernig menn ætla sér að framkvæma lögin þrátt fyrir svona tvíbent ákvæði, sem óneitanlega er smíðalýti. En ef ekki væri annað eða meira athugavert við frv. en smásmíðalýti og hortittir, þá væri ekki ástæða að hafa langar umr. En það er annað, sem er miklu furðulegra, og furðulegast af því öllu, hvernig fyrirhugað er um framkvæmd fasteignagjalda. Það fyrirkomulag er allt öðruvísi en tíðkast í öðrum kaupstöðum. Virðist vera hugmyndin að leggja það á eftir efnum og ástæðum, og er það allvel óþekkt hér á landi, og að ég held alstaðar erlendis. Hefir það hvergi verið öðruvísi ákveðið en eftir verðmæti fasteignarinnar eða matsverði. En hér virðist eiga að fara eftir íbúafjölda og hússtærð. Ég skal ekki segja um, hvernig þetta er hugsað, hvort skatturinn á að vera hærri eða lægri þar, sem íbúarnir eru flestir. Þetta er ekki ljóst í frv. En það virðist vera ástæða til að hafa skattinn hærri á stórum húsum, þar sem fátt er fólk eða það sem kallað er „lúksus“-íbúðir. Líka gæti verið um hærri skatt að ræða af húsum, þar sem margir búa og miklar tekur eru af. Ég skal ekki segja. hvor meiningin er rétt, en óneitanlega væri skemmtilegra að fá einhverja hugmynd um, við hvað er átt, áður en d. samþ. frv. Annars virðist mér þetta gersamlega meiningarlaust og þýðingarlaust, ef ekki er annar tilgangurinn en að mismuna mönnum með skattaálagningu eftir öðru en efnum og ástæðum, því eftir þeim má leggja á útsvörin, og er bæjarfélaginu í lófa lagið að mismuna með því, svo ekki virðist þurfa nýjan gjaldstofn til að leggja á eftir efnum og ástæðum. Af hvaða nauðsyn, skal ekki um sagt. Hér virðist líka gert ráð fyrir því, að leggja megi á geymsluhús og fiskhús, og jafnt öll hús á Ísafirði, eftir efnum og ástæðum. Ekki er heldur hægt að segja um, hvaða áhrif þetta hefir gagnvart þeim eignum, sem bundnar eru lögveði. Og reglum þessum má svo breyta frá ári til árs. Er þetta alveg einstæð löggjöf, hvar sem leitað er, og algerlega óhæf, því hana má misnota, og tilgangurinn, sem látinn er í veðri vaka, á sér engin rök, því mismuna má mönnum í skattaálögum í annan hátt, eins og ég hefi tekið fram.

Um hitt atriðið, að heimila bæjarfélaginu að hafa upp- og útskipun í öllum skipum, er ferma eða afferma við bæjarbryggjuna, er það að segja, að þetta er miklu meiri og óhentugri skattaálagning en önnur bæjarfélög hafa farið fram á og verið neitað um. Því þar hefir vörugjaldið átt að vera mismunandi á vörutegundir, en hér á aðeins að miða við þunga, enda bersýnilega ekki ætlazt til annars en miða við þungann, en ekki verðmæti vörunnar. Þetta frv. hefir því alla hina verstu galla, sem hv. flm. og flokksbræður hans, og þá sérstaklega hv. 1. landsk. hefir fundið hinum frv. til foráttu. Hér er því borið við, að ekki sé um nýtt gjald að ræða, upp- og útskipunargjald sé greitt nú af vörunum og þetta séu því ekki nýjar álögur á eigendur þeirra. Þetta er ekki satt; það er hreint og beint ósatt. Og það er ekki til nokkurs fyrir hv. flm. að nota þennan einstaða málflutning, að sega vísvitandi rangt frá, því það er öllum kunnugt, að mjög mikið af vörum, sem fluttar eru hvort heldur sem er inn eða út, er skipað upp og fram af eigendum sjálfum, og leggst því ekki annað á vöruna en beinn kostnaður. En samkv. þessu frv. á að leggja á vöruna upp- og útskipunargjald eftir taxta. Hér er því lagður nýr skattur á, sem ekki hefir verið áður, virðist vera sama, hvaða vörur eru, hvort það eru útfluttar afurðir eða innfluttar nauðsynjavörur, eins og t. d. kol. salt eða matvara. Hér við bætist, að sýnilega kemur þessi skattur margfaldur á sumar vörur. Það stendur þannig á, að í grennd við Ísafjörð eru flestar vörur fluttar sjóveg að og frá kaupstaðnum, og því verða bændur við Ísafjarðardjúp ekki aðeins að borga vörugjald, heldur líka upp- og útskipunargjald fyrir að fá vöruna fluttu heim.

Og svo þykjast þessir sömu menn berjast fyrir sanngirni og réttlæti í lögum, er þeir drepa samskonar frv. fyrir öðrum kaupstöðum. Það var ekki meira, sem ég vildi segja, en ég vildi láta koma fram, að minni hl. n. telur frv. þetta óverjandi og óalandi.