29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jakob Möller:

Hv. 1. landsk. taldi það fremur kost á fasteignaskattinum, að hann væri ekki eingöngu miðaður við verð eignarinnar, heldur meir miðaður við verðmæti eignarinnar en matsverð, eins og hann orðaði það. Hann sagði líka, að það væri kostur á fasteignaskattinum, að hann væri miðaður við efni og ástæður, og það má vera, að þetta eigi hvorttveggja að þýða það sama.

En ég held hann hafi ekki alveg hugsað þetta ofan í kjölinn, jafnvel eftir að ég hafði vakið alveg sérstaka athygli á því, að bæjar- og sveitarfélögum er heimilt að leggja alveg sérstakt gjald á eftir efnum og ástæðum, það er að segja útsvar. En hver verður svo afleiðingin, ef fyrst er lagt á útsvar eftir efnum og ástæðum — og hlutfallslega réttlátlega — og svo þar á ofan fasteignaskattur, líka eftir efnum og ástæðum? Hv. l. landsk. kemst ekki framhjá því, að með þessum hætti verða menn tvískattaðir — alveg óhjákvæmilega — eftir efnum og ástæðum. Einn gjaldþegn er skattlagður tvisvar sinnum á móts við annan, sem hefir lakari ástæður. Og þetta telur hv. 1. landsk. kost á álagningunni. Ég veit ekki, hvernig þm. hugsar þetta. Kosturinn er náttúrlega sá, að það fæst meira upp úr þessu; en réttlæti fæst ekki. Sannleikurinn er sá, að ef ætti að framkvæma þetta með fullu réttlæti, ætti útsvarsálagningin eftir efnum og ástæðum að miðast við það, hvaða fasteignaskattur hefir verið borgaður af eigninni. En ef það er gert, hvað þýðir þá að hafa fasteignaskattinn eftir efnum og ástæðum, ef útsvarið verður að lækka þess vegna? Ef það gerir það ekki, þá er bersýnilegt, að um tvísköttun er að ræða. Og mér skilst, að það sé einmitt tilgangurinn, því að annars væri þetta tilgangslaust, eins og ég hefi áður bent á.

En þó að það sé rétt til getið, sem ég gat til, að með þessu muni það vera tilgangurinn að leggja fasteignaskatt á eftir efnum og ástæðum, þá fer fjarri því, að það sé tryggt með þessari löggjöf, því að í frv. er aðeins svo fyrir mælt, að skatturinn skuli vera mismunandi, eftir því til hvers eignin er notuð, auk þess sem miðað sé við matsverð. Þannig mun það vera tilgangurinn að skatta hærra húseign, sem fáir búa í, heldur en jafnstóra húseign, sem margir búa í. En þá kemur hér eitt til greina, ef þetta er gert. Það getur komið þannig út, ef eign, sem er svo skuldum hlaðin, að það er ekkert verðmæti í henni fyrir eigandann, aðeins fyrir það, að fáir búa í henni, verður skatturinn miklu hærri. Slíkur skattur er ekki lagður á eftir efnum og ástæðum, heldur frekar af handahofi, svo að þessi réttlæting hv. 1. landsk. hrekkur ekki til.

Ég staðhæfði, að slík álagning fasteignaskatts mundi hvergi eiga sér stað í heiminum. Ég endurtek það, og ég vil vekja athygli á því, að hv. 1. landsk. kom ekki til hugar að reyna að andmæla þeirri staðhæfingu, og það er ekki heldur til neins, því að þetta er alveg fullvíst.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir nógsamlega gert grein fyrir því, að þetta . svið frá 0,1% upp í 1% skatts er nægilega stórt til þess að það geti valdið gífurlegu misrétti, hvernig skatturinn er lagður á, þó að sviðið sé ekki stórt, og skal ég ekkert frekar endurtaka um það.

Viðvíkjandi uppskipun og framskipun segir hv. 1. landsk., að þetta, sem farið sé fram á í frv., sé ekkert annað en það, sem hafi átt sér stað á Ísafirði áður. Náttúrlega er það engin réttlæting á því, að þetta verði lögfest, því að til þess yrði það að vera sannað, að á þessu hefði verið heppilegt fyrirkomulag á Ísafirði áður. En það eitt, að það hafi viðgengizt á Ísafirði einhverntíma, er fyrir dómi almennings engin algild sönnun þess, að fyrirkomulagið sé réttmætt. Ég hygg, að jafnvel hv. þm. Ísaf. telji það ekki fullgilda sönnun.

Þar við bætist svo, að það er engin trygging fyrir því, að þessi l., þótt þau verði samþ., verði framkvæmd eins og hv. 1. landsk. segir, að rétta hafi verið framkvæmt á Ísafirði áður.

Ég hafði bent á það, að eins og væri, þá væri kostnaðurinn við uppskipun á öllum farmi, t. d. kolum og salti, aðeins það, sem borgað væri í vinnulaun, en samkv. frv. ætti það að koma undir uppskipunartaxta kaupstaðarins. Hv. þm. svaraði þessu þannig, að það hefði verið svo áður á Ísafirði, að menn hefðu fengið leyfi til að skipa upp sjálfir slíkum förmum án þess að borga sérstakt uppskipunargald, en aðeins með því að borga sérstakt leyfisgjald. Nú hefir breytzt svo til á Ísafirði í seinni tíð, að þetta leyfisgjald er greitt sem hafnargjald og bryggjugjald, svo að þetta er þá frá því, sem nú er, enn nýr skattur, og að því leyti hefir þá verið sagt rangt frá, gerð röng grein fyrir, hvernig þessi löggjöf mundi verka, þar sem því hefir verið haldið fram, að af því mundi ekki leiða nýja skatta.

En þar við bætist svo það, að l. tryggja það á engan hátt, að mönnum verði getinn kostur á að skipa upp slíkum förmum sjálfir. Eftir á eiga slíkir farmar að falla undir þetta almenna uppskipunargjald, sem verður miðað við uppskipun á smásendingum, sem er tiltölulega hátt, til þess að leggja gjaldið á samkv. því á heila farma. Uppskipunargjald, sem er miðað við uppskipunina á „stykkjagózi“ — ég bið fyrirgefningar á málinu — verður þá lagt á uppskipun heilla kola- og saltfarma og útskipun heilla fiskfarma. Með þessum l. á þannig að heimila að leggja á alveg nýjan skatt, sem kemur sérstaklega niður á framleiðendunum. L. gera ekki ráð fyrir öðru.

Hinsvegar hefir hv. flm. og meiri hl. n. skrifað undir það, að með þessum l. sé ekki farið fram á neinn nýjan skatt, og svo þegar bent er á þetta, þá segja þeir, að það sé ekki meiningin að framkvæma það þannig, en slíkt þarf þá að tryggja með l. sjálfum. Heimildin er alveg ótakmörkuð, eins og ég benti á, og þessi heimild er þess vegna miklu varhugaverðari en sú heimild, sem farið var fram á fyrir hina kaupstaðina, sem hafa farið fram á að leggja sérstakt vörugjald á, mismunandi hátt, eftir því um hvaða vöru var að ræða.

Ég er ekki svo kunnugur á Ísafirði, að ég þori að fullyrða neitt um það, en ég gæti trúað, að það væru þar nokkuð breyttar ástæður frá því að það ólöglega ástand ríkti þar, þegar bæjarstj. tók einkarétt á upp- og framskipun. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Ísaf. Átti það við um allar bryggjur, sem í bænum voru, eða var það aðeins miðað við bryggju bæjarins? — Hv. þm. vill ekki svara því, en hér í frv. er það beint tekið fram, að átt sé við bryggju bæjarins. Nú veit ég ekki, en vil þá leyfa mér að spyrja hv. þm. aftur, hvort nokkrar einstakar bryggjur komi til greina í þessu sambandi. Eru ekki allar bryggjur á Ísafirði eign bæjarins? (FJ: Nei). Er Edinborgarbryggjan eign einstaklings? (FJ: Útvegsbankinn á hana, og á henni hvíla sérstakar kvaðir). En það er samt bersýnilegt, að síðan bæjarstj. tók sér þennan einkarétt fyrir utan lög og rétt, sem síðar var dæmt óheimilt, þá hafa ástæðurnar breytzt eða geta breytzt. Og þarna í frv. er talað um, að þetta nái til uppskipunar við bryggjur bæjarins. Þá getur farið svo, að allar einstaklingsuppskipanir verði útilokaðar, og skil ég ekki annað en að það sé meiningin með frv. Ég hygg, að áður hafi það verið svo, að þær bryggjur, sem voru einstaklingseign, hafi ekki komið undir þennan einkarétt bæjarfélagsins, það hefði verið allt of augljóst lögbrot til þess, að hægt hefði verið að framkvæma það svo langan tíma sem hér um ræðir.

Að öllu þessu athuguðu sé ég ekki, að það gjald, sem hér er farið fram á, sé að neinu leyti hagkvæmara gagnvart öllum almenningi heldur en þau gjöld, sem farið hefir verið fram á fyrir hina kaupstaðina, svo sem Vestmannaeyjar og Akureyri. Þess vegna er mér óskiljanlegt, hvers vegna stjórnarflokkarnir hafa getað fylgt þessu frv., fyrst þeir hafa lagzt af svo miklum ákafa á móti hinum frv.