29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég get skilið það, að hv. þm. Ísaf. geti fundið sambandið milli vatnsskatts og fasteignaskatts, en hitt er mér með öllu óskiljanlegt, hvernig hv. 1. landsk. getur fundið samband milli stóríbúðaskatts og vatnsins. Það er skiljanlegt, að menn geti glæpzt á því að rugla saman sköttum, sem borgaðir eru til ákveðinnar fullnægingar á þörfum, t. d. vatns- og fasteignaskatti, vegna þess að þau gjöld eru miðuð við matsverð á fasteignum, en hvaða samband er á milli vinnukvenna og íbúða beinlínis í þessu efni, get ég ekki skilið, og það væri æskilegt, að hv. 1. landsk. útskýrði það nánar. Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. sagði um stóríbúðaskatt og venjulegan fasteignaskatt, vil ég taka það fram, að ég hefi ekki neitað því, að sérstakur stóríbúðaskattur kynni að vera til. Hinsvegar hefi ég neitað því, að rétt væri að rugla saman almennum fasteignaskatti og slíkum skatti sem stóríbúðaskattur er.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum að hv. þm. Ísaf. Það var beðið eftir því með óþreyju, að hann léti ljós sitt skína yfir þetta mál. En það ljós var svipað og þegar frv. kom frá hans hendi fyrst, svo að frv. þarf nokkurrar skýringar og lagfæringar við, enda þótt það hafi töluvert verið heflað til af hv. n. Ég hafði gaman af útreikningi hv. þm., þegar hann fór að bera saman fasteignagjald í Reykjavík og á Ísafirði. Hann sagði, að á Ísafirði væru þau aldrei meira en 10‰, en í Reykjavík 8+6 = 14‰. Ég gæti vel trúað, að fasteignaeigendum í Reykjavík færi ekki að lítast á blikuna, ef þeir fengju þessar upplýsingar, en þeir kunna að kyrrast, þegar þeir frétta, hvernig hv. þm. komst að annari eins niðurstöðu. Sannleikurinn er sá, að í Reykjavík er greitt 6‰ af lóðum og 8‰ af húseignum, en hvernig hv. þm. hefir dottið í hug að leggja þetta saman, er mér lítt skiljanlegt. Þessar tvær tölur má að sjálfsögðu ekki leggja saman, því að þær eru miðaðar við sitt hvað. Ef allt, sem frá þessum hv. þm. kemur, er á sömu bókina lært og þetta atriði, þá þarf enginn að undrast, þótt það sé dálítið kynlegt. Annars var ekkert í ræðu hv. þm., sem þarf að svara, því að það var allt marghrakið fyrirfram, en hann hrakti alls ekki það, sem við andstæðingar frv. heldum fram í sambandi við það. Bæði þessi hv. þm. og aðrir hv. þdm. ættu að geta gert sér grein fyrir því, að vatnsskatturinn er að sjálfsögðu miðaður við vatnsnotkunina. Þess vegna er hann tiltölulega hærri á húsum, sem margir búa í, heldur en á húsum, sem fáir búa í. Ég held jafnvel, að hús geti verið vatnskattsfrjáls, ef ekkert vatn er notað í þeim. Þetta er vitanlega alveg réttlátt. Hv. þm. fær því engan stuðning í þessu við það fasteignaskattsfyrirkomulag, sem hann vill innleiða á Ísafirði.

Hv. 1. landsk. hefir víst þótzt bæta sinn málstað dálítið með því að slá því föstu, að það, sem hann ætti við með því að segja, að æskilegt væri, að fasteignaskatturinn yrði lagður á ettir efnum og ástæðum, væri það, að aðeins væri miðað við húsin sjálf út af fyrir sig, en ekki efni og ástæður að öðru leyti. En með þessu gerir hann sinn málstað enn verri, því að nú er einmitt kominn fram sá tilgangur, sem gert var ráð fyrir, að væri falinn í þessu frv., að taka húseignir og leggja á þær eins og þær gerðu menn stórríka, út af fyrir sig bara af því, að þær væru stórar, enda þótt þær séu veðsettar upp í topp og skuldir hvíli á þeim. — Annars kom ekkert nýtt fram, sem þarf að svara.