29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er hálfeinkennilegt, og þó ekki, að málssókn skuli vera hafin af hálfu hv. l. landsk. í þessu máli fyrir bæina. Þegar Ísafjörður á í hlut, þá sér hv. þm. ekkert athugavert við það, þótt komið sé hér með tvær nýjar skattaleiðir. En þegar önnur bæjarfélög eiga í hlut, þá fyllist þessi hv. þm. vandlætingu og finnst allt vera óréttmætt og ósanngjarnt, sem farið er fram á. Ég get ekki séð svo mikinn eðlismun á þessu tvennu, því að það er búið að lýsa yfir því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé borið fram til tekjuöflunar til þess að greiða fé fyrir bæjarfélag það, sem hér um ræðir. Ég get ekki séð mikinn eðlismun á því, hvort bæjarfélag græðir fé á því að banna öllum öðrum en sjálfu sér að hreyfa við uppskipun á vörum, eða það leggur nokkra aura á hverja vörueiningu, eins og víða tíðkast. Hv. 1. landsk. Lætur sem hann hafi ástæðu til þess að líta sérstaklega á þessa leið, þ. e. að grímuklæða vörugjaldið með þessu frv. En lítilfjörlegt, mjög smávægilegt gjald í öðrum kaupstöðum, sem enginn finnur til, vegna þess að því er stillt svo í hóf, er í augum hv. 1. landsk. ólöglegt, að frv. um það ber að sjálfsögðu að fella að hans dómi.

Ég er ekki hrifinn af málsflutningi þessa hv. þm. hér á hv. Alþ., og sé málflutningur hans í því starfi, sem hann aðallega hefir með höndum, á eins miklum holklaka byggður eins og hér á þingi, sérstaklega í þessu máli, þá þykir mér líklegt, að þess verði einhverntíma vart. Það gætir svo mikilla óheilinda í framkomu hv. þm. í þessu máli. Samt er mönnum vel kunnugt um, hvernig ástatt er í þessum efnum. Það er verið að leita að leið til þess að fá bæjarsjóði peninga, en á hann er herjað daginn út og daginn inn bæði af föstum starfsmönnum bæjarfélagsins og af mönnum, sem lögum samkv. eign tilkall til hjálpar úr bæjarsjóði, og því miður er það svo, að hinn nýi síður, sem haldið hefir innreið sína í landið undanfarin ár, hefir m. a. fært það með sér, að fólkið leitar ekki síður á náðir bæjarfél. heldur en áður var gert. Því miður er hægt að nefna þess, mörg dæmi, að vinnandi menn hafi krafizt hjálpar bæjarfélags, oft og tíðum á mjög. hæpnum grundvelli, svo að ekki sé meira sagt. Slíkt þekktist varla fyrir nokkrum árum. Auk þess er það kunnugt, að í kaupstöðum úti á landi a. m. k. eru útsvörin nú orðið aðeins á pappírnum. Það er nú orðið mjög erfitt að ná inn meiru en svo sem 2/3 af útsvörum, og sjá þá allir, að hverju stefnir í þessum efnum. Er vitanlega ekki til önnur leið en sú, að minnka að miklum mun útgjöld bæjarfélagsins eða auka tekjur þess. En að minnka útgjöldin er enginn hægðarleikur, því að þau eru mest fastir póstar, svo sem kostnaður við skólahald o. fl., sem er bundið í l. Þá vita og allir, að hvert bæjarfélag virðist leggja fram krafta og fé til að halda uppi atvinnubótavinnu svokallaðri. En þetta bæjarfélag, sem hér um ræðir, þarf að nota vöruflutninga, sem fara um höfnina, til þess að afla fjár í bæjarsjóð. Hvernig getur þá hv. þm. haft á móti þessum gjöldum, þegar um önnur bæjarfélög er að ræða? Það eru engin rök, þótt hann segi, að einhver privat maður græði á þessu. Bæjarfélagið hefir leiðir til að ná aftur nokkru af þeim gróða, þar sem eru útsvörin, og hann er venjulega ekki svo myrkrum hulinn, að niðurjöfnunarn. komi ekki auga á hann.

Það er hægt að segja, að Ísafjörður hafi sérstaklega auðvelda aðstöðu í þessu efni. Skipin liggja þar við land, og er hægt að reikna það nákvæmlega fyrirfram, hvað kostar að skipa upp hverju tonni, því að þar, sem skip leggjast við bryggjur, geta náttúruöflin ekki haft veruleg áhrif á þann kostnað.

Þetta, að taka vörugjald í bæjarsjóð, hefir hv. þm. fordæmt hjá okkur og kallað neyzluskatt. En hann hefir, eins og kunnugt er, sjálfur greitt atkv. með neyzluskatti, svo sem viðauka við verðtoll o. fl. Þetta allt er því ekki annað en vefur af óheilindum. Hann ræðst á það í öðru orðinu, sem hann ver í hinu. Hann fordæmir fjáröflunaraðferð hjá öðrum, sem hann ver hjá hinum, reyndar undir dálítið grímuklæddri aðferð. Það þarf eflaust bæði lærðan mann og vanan málflutningsmann til að verja þetta, svo að menn sjái ekki í gegnum það, og áreiðanlega þarf til þess skarpari mann en hv. 1. landsk., því að svo gagnsæ er hræsnin hjá honum. Væri honum nær að kasta heldur grímunni til fulls.

Ég sagði í gamni, þegar hv. þm. beindi því til okkar sjálfstæðismanna án tilefnis, að flokkur hans í Vín hefði á sínum tíma haft þessa og þessa skoðun á vinnukonum, „húsholdningu“ o. fl., að flokksbræður hans réðu ekki í Vín, því að mér virtist hann vilja láta flokksbræður sína þar hafa sérstöðu í þessu efni. Hann sagði út af þessu, að ég hefði verið að hlakka yfir því, að uppreisn hefði orðið í vin og verkamannabústaðir verið skotnir í auðn. Svo blóðþyrstur er ég nú ekki, og ég hygg, að slyngari málafærslumann þurfi til en hann er að sanna, að ég vilji láta skjóta niður hús manna.

En af því að hann tók þessu græzkulausa gamni mínu svona, þá vil ég minna hann á, að það voru flokksbræður hans, sem komu því til leiðar, að Dollfuszstjórnin varð að grípa í taumana eins og hún gerði. Þeir kunnu ekki þar frekar en annarsstaðar að taka sinn deildan verð í völdunum. Þeir vildu hafa meiri völd en þeim bar og landslýðurinn vildi láta þá hafa. Það, að þeir voru búnir að undirbúa þessa uppreisn og komu henni af stað, leiddi það af sér, að Dollfuszstjórnin neyddist til að jafna á þeim gúlana, þó að við það tækifæri væru skotnir niður verkamannabústaðir og önnur hús. Þetta er hv. þm. kunnugt. En þessu fór hann framhjá, og er því rétt, að það sé upplýst hér í d.

Sagnir segja, að hér á Íslandi hafi ríkt mestur friður — áður en Sturlungaöld hófst — áður en höfðingjar fóru að deila innbyrðis og, hætta að láta sér nægja völd þau, er þeir höfðu að réttu lagi. Það leiddi af sér ófrið, þegar flokkadeilur urðu svo miklar, að hver vildi sitja yfir annars hlut. Undirrót hinna sorglegu atburða í Vín var sú, að marxistar kunnu sér ekki hóf um völdin. Þeir sóttust eftir meiri völdum en þjóðin gat þolað. Þetta varð undirrótin að því, að Dollfuszstjórnin varð að gera það, sem hún gerði. Af þessu getur hv. þm. dregið lærdóma í framtíðinni. Annarsstaðar hafa líka svipaðar orsakir leitt til svipaðra atburða. Það getur komið fyrir hvar sem er, þar sem þeir, er völdin hafa, misbeita þeim eins mjög og þessir menn gerðu í Austurríki.