03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jón Auðunn Jónsson:

1 grg. fyrir þessu frv. segir, að það sé flutt samkv. ósk bæjarstj. Ísafjarðar. Þetta ber að skilja þannig, að það sé flutt samkv. ósk meiri hluta bæjarstj., því að flutningi þess standa 5 af 9 bæjarfulltrúum. Það er engan veginn svo um lög þau, er gilda um bæjargjöld á Ísafirði, að þau þurfi ekki endurskoðunar við; sumt í þeim er orðið úrelt, og það vantar að lögfesta nýja gjaldstofna. En sumt af því, sem hér er farið fram á, er nokkuð annað en venjulegt er, eða 3 ný ákvæði í frv. þessu.

Í fyrsta lagi um mismunandi íbúðarhúsaskatt, sem mótmælt er af minni hl. bæjarstj. og nálega öllum fasteignaeigendum á Ísafirði, sbr. mótmælaskjal, sem undirskrifað er af um 200 húseigendum og sent Alþingi. Það ákvæði er í síðari mgr. 2. gr.; áður hefir þessi skattur aðeins verið lagður á eftir fasteignamati. — Í öðru lagi er ákvæði um lóðagjald af lóðum, sem ekki eru notaðar undir byggingar og ekki má nota undir byggingar, eins og fiskreiti og erfðafestulönd, til jarð- og garðræktar. Er hér heimild til að leggja jafnhátt gjald á þær og byggingarlóðir. — Þá er það í þriðja lagi ákvæði í 2. tölul. 1. gr. um einkarétt bæjarins til upp og framskipunar á öllum vörum, sem flytjast til og frá kaupstaðnum. Um þetta atriði er það að segja, að ekki er nema 1 bryggja á Ísafirði, sem bærinn ekki á, og nálega öll uppskipun fer því fram við aðra af tveim bryggjum bæjarins, og mundi þetta því þýða, að öll upp- og útskipun færi fram um hendur hafnarstjóra. Með því að lögfesta þennan einkarétt bæjarins til upp- og framskipunar á öllum vörum er alveg sleppt gildandi öryggi um, að sanngjarnt verð sé tekið fyrir vinnu þessa. En það eru ekki eingöngu íbúar Ísafjarðarkaupstaður, sem hér eiga hlut að máli, heldur margir aðrir, þ. á. m. og ekki sízt íbúar N.-Ísafjarðarsýslu. Ef þessi skattaálagning á nauðsynjavörur, eins og t. d. útgerðarvörur allar, er leyfð fyrir Ísafjörð, þá er það sama sem og leyfa Ísafirði að skattleggja íbúa N.-Ísafjarðarsýslu og alla aðra, sem þurfa að umskipa vörum á Ísafjarðarhöfn. Ég hefi ekki hér álit hv. fjhn. Nd., en jafnvel þó hún hafi ekki skilið ákvæðið í þessu frv. um upp- og framskipunareinokunina, þá hefir það ekki í öðrum tilfellum verið álitið heppilegt né sanngjarnt, að kaupstaðirnir gætu á þennan hátt Skattlagt nærliggjandi héruð, og hafa verið felld frv., sem hafa farið í þessa átt, vörugjaldsfrumvörpin, og er þeim mun undarlegra, að þetta ákvæði frv. skyldi ná samþykki hv. Nd.

Til að upplýsa, hvernig skattur þessi muni verka fyrir íbúa N.-Ísafjarðarsýslu, skal ég geta þess, að bærinn leigði í nokkur ár vissum manni lóð og hús, og einskonar rétt til upp- og framskipunar á vörum með póstskipunum. Gjaldið, sem bæjarbúar og aðrir greiddu, var 10 aurar á stk., eða sama og tekið var á öðrum skipaafgreiðslum meðan kaupið var kr. 1.50 og kr. 1.70. pr. klst., en það var tekið sama gjald af bænum, þó kaupið færi niður í kr. 1.50—1.20 pr. klst. var þetta því raunverulega mikil hækkun. Þegar skipaafgreiðslurnar fengu frjálsræði til að sjá um upp- og útskipun lækkuðu þessi gjöld um 10%, jafnvel þó svo væri, að bærinn leigði vörugeymsluhús, sem stendur á bryggjunni, fyrir 8 þús. kr., sem er um 20% af verði hússins og því há leiga, sem óbeint hlaut vitanlega að hækka upp- og framskipunargjöldin.

Þá vil ég geta þess, að Djúpbáturinn, sem annast flutninga um Djúpið fyrir bændur, hefir sjálfur sína afgreiðslu, en þeir taka ekki nema 40 aura pr. kolló, sem vegur yfir 50 kg., en 25 aura pr. kolló, sem er léttara. En eins og allir vita, er mikið af þeim vörum, sem bændur flytja, smástykki, og mörg þeirra undir 25 kg. að þyngd. Er því sýnilegt, að hér er um þung an skatt að ræða fyrir bændur og aðra, sem skipa upp eða fram vörum sínum á Ísafirði.

Þá er annað viðvíkjandi þessu atriði. Það er mjög algengt, að menn leigi skip til flutninga t. d. á kolum og salti í heilum formum, og er þá vanalega ákveðið, að afferma þurfi á hverjum degi vissa tonnatölu — 250—300 tonn — og ef ekki er við það staðið, verður að greiða hátt aukagjald fyrir hvern dag, sem skipið er lengur að afferma en til er skilið í leigusamningi. Af reynslunni verður maður að álíta, að vel geti komið fyrir, að bærinn hugsi ekki um, hvort staðið sé við slíka samninga, svo komizt verði hjá dagsektum, og getur af því hlotizt hið mesta tap og óhagræði fyrir kaupandann.

Hingað til hefir það verið svo, að hver hefir séð um uppskipun á sinni vöru, nema þeim vörum, sem koma með póstskipum, og greitt sína leigu eftir samkomulagi, bryggjugjöld og vörutoll o. s. frv. Ég álít því, að af þessum ástæðum sé það algerlega óforsvaranlegt að samþ. þetta ákvæði frumv.

Þá kem ég að lóðagjöldum og húsaskatti. Ég gat þess í upphafi, að bæjarbúar væru á einu máli um nauðsyn þess, að bæjarfélagið fái aukna fasta tekjustofna frá því, sem nú er. Hefir bæði af mér og öðrum verið á það bent, að þörf væri á að breytu þessum lögum í því skyni að auka tekjustofnana. Eins og er nú, þá er ósamræmið og órétturinn alstaðar að því er snertir lóðagjöldin. Nú greiða allir jafnt eftir stærð lóðar, hvað sem verðmæti lóðarinnar líður. Þessu þarf að breyta, og eins því, að taka ekki jafnhátt gjald af þeim lóðum, sem notaðar eru til atvinnurekstrar fyrst og fremst, eins og fiskreitum og erfðafestulöndum til jarðræktar. Í öllum bæjarfélögum er gerður munur á þessu, eftir því til hvers á að nota lóðarnar. Hér í Rvík t. d. eru skattlagðar hærra lóðir, sem ætlaðar eru til bygginga, eða með 6 af þúsundi, en þær lóðir, sem notaðar eru til fiskverkunar og jarðræktar, með 1 af þúsundi. Sama er að segja um Akureyri, sem hefir mikið af slíkum lóðum og löndum.

Ég get nefnt sem dæmi, að ein slík lóð á Ísafirði hefir verið leigð af eigandanum fyrir 400 kr. á ári, en ef hann ætti að greiða þetta lóðagjald, þá yrði það mun hærra en leigan, sem hann hefir fengið. Geta menn því séð, að það er lítil forsjá, að breyta þannig við þá, sem eru að reyna að stunda atvinnurekstur í bænum.

Þá er þetta ákvæði um stighækkandi húsaskatt. Það verður að vera til að fullt samræmi fáist, að þeir, sem eiga verðlítil hús, borgi minna en þeir, sem eiga stór og verðmikil hús. Þetta næst með því að miða skattgjöld við fasteignamat. En í þessu frv. á líka að taka tillit til þess, hvað margir búa í húsinu. En það hygg ég, að verði næsta erfitt í framkvæmdinni, því að það getur á einu ári verið svo, að menn geti ekki leigt hús, og af þeim ástæðum búi þar fáir menn. Og þá á að borga hærra gjald eftir þessu frv. heldur en ef hægt hefir verið að leigja húsið að fullu. Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta, allir hljóta að sjá, hvað það er heimskulegt.

Svo er það líka vitað, að það getur verið nauðsyn fyrir eina fjölskyldu, þó að hún sé ekki stór, að hafa stórt húsnæði, t. d. ef veikindi, kannske langvarandi og sóttnæm veikindi, eru á heimilinu, svo að þurfi að einangra einn eða fleiri af íbúunum. Það væri næsta hastarlegt, ef ætti að leggja hærri skatt á þá, sem þannig er ástatt um, en aðra, sem heilbrigðir eru og hafa engin vanheilindi við að stríða. Auk þess er það vitað, að barnamenn þurfa minna húsnæði meðan börn þeirra eru ung en þegar þau eru komin upp, svo að einnig af þeim ástæðum er ákvæði sem þetta alveg óhæft.

Þetta er það, sem bæjarbúar á Ísafirði yfirleitt finna að þessu frv. Ég býst ekki við, að þetta frv. nái fram að ganga, áður en þingi er frestað, enda teldi ég það ótækt, þar sem fram hafa komið mótmæli frá langsamlega flestum fasteignaeigendum í bænum, ekki af því, að þeir skorist undan að gjalda hærra af fasteignunum en þeir gera nú — þvert á móti sjá þeir nauðsyn bæjarins á að fá aukna tekjustofna —, heldur eingöngu vegna þess fyrirkomulags, sem hér er stungið upp á.

Almennt séð væri eðlilegast og eiginlega sjálfsagt, að löggjöf um þetta efni væri samræmd þannig að Alþingi setti eina heildarlöggjöf um tekjustofna til handa bæjarfélögunum, tekjustofna, sem væru þá miðaðir við fasteign að einhverju leyti.

Ég vil einnig benda á það, að þessi gjöld, sem tekin eru af fasteignum í bæjunum, eru venjulega tekin til þess að nokkru leyti að standa straum af þeim útgjöldum, sem bæjarfélagið hefir til þarfa fasteignaeigenda. Þannig er t. d. um vatnskatt, salernahreinsunargjald, sótaragjald, holræsagjald og ýmislegt annað. Í þessu frv. er ekki farið fram á að leggja slík gjöld á. Það er reyndar svo, að salernahreinsunargjaldið er að mestu óþarft á Ísafirði. Bærinn er svo lítill og í flestum húsum eru komin vatnssalerni. Sótaragjald það sem tekið er, samsvarar nálega því, sem borga þarf fyrir sóthreinsun og eftirlit vegna eldsvoðahættu í bænum.

Ég býst við, að þetta frv. verði rætt heima í héraði, nú meðan þingfresturinn stendur yfir, og bæjarbúum gefist kostur á að láta álit sitt í ljós um frv. og þær breyt., sem þeir óska, að gerðar verði á núv. löggjöf.

Ég tel, að Ísafjarðarkaupstaður þurfi að fá lögfestan vatnsskatt. Það þarf að auka vatnsveituna stórkostlega á næsta ári, og er þá ekkert eðlilegra en að þeir, sem eiga fasteignirnar, og þeir, sem þurfa að nota mikið vatn handa sjálfum sér og sínum leigjendum og til atvinnurekstrar, borgi einhvern skatt til þess að standa straum af slíkum framkvæmdum. Það hefir ekki verið gert á Ísafirði, en ég hygg, að nálega allir séu sammála um, að rétt sé að leggja á vatnsskatt.

Ég hefi farið nokkuð nákvæmt út í þetta frv., til þess að sú n., sem fær það til athugunar, fái þó dálitla hugmynd um, hvað það er, sem bæjarbúar yfirleitt finna að þessu frv. En eins og ég gat um áðan, þá býst ég við, að þetta mál verði rætt heima í héraði meðan á þingfrestuninni stendur, og bæjarbúar geri sínar till. um fyrirkomulag á þessu og þær breyt., sem ég er sannfærður um, að þeir vilja fá á þessu frv., sem hér liggur fyrir.