04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Einar Árnason:

Hv. frsm. meiri hl. hrakti ekkert af þeim ástæðum, sem ég færði fram fyrir brtt. minni, og þarf ég því ekki mikið að segja. — Hann minntist, að mér heyrðist. á þrjú atriði. Hann taldi það ekki á rökum reist, að meiri árekstrar yrðu á milli þeirra, sem vöruna fá, og þeirra, sem vöruna flytja, þótt bærinn kæmi inn sem nýr liður. En ég hygg það augljóst, að því fleiri sem milliliðirnir verða, því hættara er við árekstrum, og ég hygg, að á þeim tíma, sem Ísafjarðarbær hafði þennan einkarétt, þá hafi orðið árekstrar.

Þá minntist hv. frsm. meiri hl. á, að uppskipunargjald yrði ekki miðað við verðmæti vörunnar; en það, sem ég átti við, var það, að ef bærinn ætlar að nota þetta sem verulegan tekjustofn, þá yrði ódýra varan að hækka mikið, ef ekki væri miðað við verðmæti vörunnar, og yrði því ósanngjarnt.

Þá sagði hann, að upp- og framskipun yrði ekki dýrari í höndum bæjarstj. heldur en í höndum afgreiðslumanns. Ég skal ekkert fullyrða um þetta, en ég held því fram, að einkarétturinn gefi ástæðu til að ætla, að þetta yrði dýrara. Bæjarstj. hefir það alveg í hendi sinni, hverja aðferð hún lætur hafa við uppskipun vörunnar og meðferð hennar. Nú er á sumum stöðum öll vara strax sett í hús, en á öðrum stöðum afhent á bryggju, eftir því sem hægt er. Nú gæti bæjarstj. tekið þá stefnu að setja alla vöru í hús, og við það yrði uppskipunin að sjálfsögðu dýrari og meiri kostnaður legðist á eigendur varanna. Það mætti ætla, ef bæjarstj. tæki slíka ákvörðun, þá væri það vegna þess, að sérstakar ástæður væru fyrir hendi, og þessar ástæður eru einmitt fyrir hendi nú, þegar svo er ástatt, að atvinnuleysi er mikið og bæirnir þurfa að leggja fram mikið fé til þess að bæta úr því.

Þar, sem ég þekki til — á Akureyri —, væri það mjög óheppilegt, ef bæjarstj. hefði einkarétt á öllum vörum, sem þangað flytjast. Þangað koma heilir skipsfarmar af byggingarvörum, kolum og salti og eigendur varanna leggja alla áherzlu á að gera uppskipunina sem allra ódýrasta, en það er engin trygging fyrir því, að bæjarstj. legði sig sérstaklega fram í því skyni eða hefði aðstöðu til að hafa þau vinnubrögð, að uppskipunin yrði ódýr. Ég skal benda á, að á Akureyri er stórt frystihús, og aðstaðan þar er þannig, að ef þau skip, sem taka vöruna frá frystihúsinu, yrðu að leggjast við bryggju bæjarins, þá yrði útskipunin miklu dýrari en þörf er á. Aðstaðan þar er sú, að bryggjur bæjarins eru langt frá íshúsinu, en aðrar bryggjur til, sem eru rétt hjá því. Auk þess, sem þetta mundi hafa mikinn aukinn kostnað í för með sér, er líka hætt við, að þessi vara, sem þarf mjög góða meðferð, yrði fyrir illri meðferð og skemmdum við að flytja hana langa leið til skips. Ég segi ekki, að það sé víst, að bæjarstj. grípi til þessa, en í skjóli einkaréttarins má búast við því, að eitthvað líkt þessu gæti komið fyrir, sem bæði væri til að auka kostnað og óþægindi. Mér fannst líka á hv. frsm. meiri hl., að hann væri ekki mjög harður á þessu atriði, og ég geri ráð fyrir, að það fari svo, að brtt. mín verði samþ.