18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. gerir mikið að því að tala um anda laganna, og er það vitanlega fyrsta undanhaldið hjá honum, en þó andinn sé ágætur, er hann ekki eins góður og skyldi. Þegar ég er búinn að hrekja öll atriði, sem frv. er byggt á, og búinn að sýna fram á, að þeim má fullnægja á annan hátt, þá segir hv. frsm., að ekki sé nóg að líta á aðila utan ár, heldur einnig hina innan árinnar. Þá er hann kominn inn á það að það séu hagsmunir Blönduóskauptúns, sem hann ber fyrir brjósti, og þeim beri að fullnægja. Hverjar eru þá þær umbætur, sem Blönduóshreppur fær ekki komið fram á annan hátt eða getur ekki fullnægt nema með samningi? Þær eru ekkert annað en að fá útsvar kaupfélagsins; það er ekki annað, sem barizt er fyrir, en að gera kaupfél. skattskylt í Blönduóshr., svo að hægt sé að nota það fé í gagnslausa bryggju eða álíka þarflegar framkvæmdir. Þannig á að refsa Engihlíðarhr. fyrir gætilega sveitarstjórn. Ég hefi aldrei heyrt það fyrr, og bjóst sízt við, að hv. flm. vildi refsa hreppnum á þennan hátt, vegna þess að honum er vel stjórnað. Við þekkjum dæmi þess, að bæjar- eða sveitarfélögum hefir verið vel stjórnað, og svo hefir komið slæm stjórn, sem allt hefir sett í kaldakol. En svo á að refsa hreppsfél. bara vegna þess að hafa ekki eytt fé sínu í fen og mýrarsíki til að koma upp handónýtri bryggju og öðru slíku, álíka þörfu.

Nei, við skulum tala um málið eins og það liggur fyrir, þann grundvöll, sem það er byggt á, sem er að fá fram vissar umbætur, sem ég hefi bent á, hvernig fullnægja skuli. Og þá stendur ekki annað eftir en að Blönduóshr. þarf að ná í útsvörin hjá kaupfél. Hver er þá grundvöllurinn, sem hv. flm. standa á? Er hann frambærilegur? (JakM: Hann er prýðilegur!). Já, — hann er prýðilegur, segir hv. frsm. Þá skulum við sleppa öllu hinu. Hann segir þetta vegna þess, að hann er nógu glöggskyggn til að sjá, að allt annað eru tylliástæður, og að þetta er eina ástæðan, sem er frambærileg, og svo andi laganna eins og hann er útfærður.