18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Þegar um skiptingu á hreppum er að ræða, þá reynist það jafnan svo, að slíkt mál verður ávallt talsvert viðkvæmt, og skoðanir þeirra, sem þar eiga hlut að máli, verða jafnan mjög skiptar.

Þess vegna er það mjög mikils virði í þessu sambandi, þegar um slíka skiptingu er að ræða, að hún geti komizt á með samkomulagi, og helzt, að slíkt samkomulag geti fengizt milli þeirra aðilja, sem þarna eiga hlut að máli. Það er vitanlega langþægilegast, að hægt sé að útkljá slík mál heima fyrir, enda er gengið út frá því í sveitarstjórnarlögunum. Í 3. gr. þeirra er gert ráð fyrir því, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli við hreppaskiptingu, séu hreppsfélög og sýslunefndir. Ég hefi nú athugað í skjölum þessa máls, hvort leitað hafi verið álits sýslunefndar um þessa skiptingu, sem hér er um að ræða, eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. sveitarstjórnarl., en ákvæði 4. gr. l. koma hér alls ekki til greina og snerta þetta mál ekkert. Ég rakst hvergi á það í skjölum þessa máls, að nokkuð hefði verið leitað til sýslunefndar um málið. Þetta er það merkilegt atriði, að það virðist næstum óhugsandi, að framhjá því sé gengið, þegar slíkt mál er lagt fyrir þingið. Samkv. þessum ákvæðum sveitarstjórnarl. virðist mér því alls ekki tímabært að leggja slíkt mál sem þetta fyrir þingið, fyrr en búið er að fara til þrautar þær leiðir, sem gert er ráð fyrir í 3. gr. l., því að þar er skýrt og skorinort tekið fram, að fyrst skuli leita samkomulags við komandi hreppa, og ef það samkomulag ekki næst, þá á að leita aðstoðar sýslunefndar í þessu efni. Nú hefir mér verið sagt, að eitthvað hafi komið fram í umr. um þetta atriði. Ég hefi ekki heyrt það fyrr, en sé svo, þá á vitanlega að taka það fram í aths. við þetta frv. Í samræmi við þessa skoðun mína á málinu leyfi ég mér að bera fram eftirfarandi rökst. dagskrá:

„Þar sem eigi liggur fyrir álit sýslunefndar A.-Húnavatnssýslu um breyting þá á hreppaskipun, sem frv. felur í sér, en meðmæli sýslunefndar til slíkrar breytingar er áskilin í 3. gr. sveitarstjórnarlaganna, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“