02.12.1935
Efri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Ég hefi gert grein fyrir afstöðu minni hl. á þskj. 669. Þar hefi ég leitt að því rök, að málið er mjög lítið og mjög óvanalega lítið undirbúið í héraði.

Í 3. gr. sveitarstjórnarl. er gert ráð fyrir því, að þegar um breyt. á hreppamörkum er að ræða, þá skuli liggja fyrir álit frá báðum hreppsnefndum, og jafnvel samþykki þeirra, og ennfremur, að líka þurfi samþykki sýslunefndar, áður en breyt. á hreppsmörkum geti farið fram. Ég skal að vísu játa, að þar er um að ræða það vald, sem hlutaðeigandi ráðh. hefir til þess að gera breyt. á hreppamörkum. En það er augljóst mál, að fyrir löggjafanum hefir þar vakað, að þeir aðiljar, sem hlut eiga að máli, reyni sjálfir að koma sér saman um málið, og það er tiltölulega fágætt hér á þingi, að sjálft löggjafarvaldið hafi sett löggjöf um slík atriði, þegar ágreiningur hefir verið milli aðilja. Og þótt einstök atriði megi finna, þá hygg ég, að sjaldan eða aldrei hafi þau verið afgr. á fyrsta þinginu, sem málið kemur fram, heldur hefir það verið sent heim í hérað eða látið bíða, til þess að aðiljar gætu reynt að koma sér saman eða láta álit sitt í ljós. Um undirbúning frv. er það að segja, að hér liggur ekkert fyrir af því, sem þarf að liggja fyrir, þegar um er að ræða að setja löggjöf um slík efni sem þessi.

Þetta frv. virðist vera borið fram að tilhlutun einhverrar n. á Blönduósi, sem nefnir sig sameiningarnefnd Blönduóss. Hinsvegar liggur ekkert fyrir um það, hverskonar umboð hún hefir, hvort hún er tilnefnd af hreppsnefndunum eða kosin af hreppsnefnd. Ekkert liggur fyrir um það, hvort þessir einu aðiljar, sem gátu gefið henni umboð, hafa gefið henni fullt umboð, eða hversu víðtækt umboð hún hefir, ef hún hefir nokkuð.

Þá kemur það einkennilega fyrir, að hér skuli ekki liggja fyrir stafur eða stafkrókur frá hreppsnefnd Blönduóshrepps, sem er annar höfuðaðilinn í þessu máli. Það liggur ekkert fyrir þinginu um það, hvernig hún lítur á málið, þótt einstakir þm. þykist einhverjar upplýsingar hafa fengið fyrir sig prívat.

Það er venja, þegar stendur til að breyta hreppsmörkum, að hlutaðeigandi sveitarfélög ræða málið sín á milli, athuga, hvernig þeim breyt. yrði haganlegast fyrir komið o. s. frv. Hér liggja ekki fyrir upplýsingar um neitt slíkt, ekki einu sinni um það, að haldinn hafi verið sameiginlegur fundur í þessum hreppsfélögum, eða hreppsnefndirnar hafi reynt að ræða málið sameiginlega og athuga þær leiðir, sem til greina gætu komið í þessu máli, því að það verð ég að taka fram, þar sem ég er dálítið kunnugur staðháttum þarna, að þessi hreppsmörk, sem hér ræðir um, eru alls ekki einu hugsanlegu hreppsmörkin, sem hér gætu komið til greina, þó að þeim verði breytt. Það gæti staðið svo á, og ég hefi jafnvel ástæðu til að ætla, að það gæti orðið heppilegt fyrir annan aðiljann eða jafnvel háða, að hreppamörkin yrðu sett á annan veg en hér er gert ráð fyrir. Mér er kunnugt um, að í næsta nágrenni norðan Blöndu eru örlítil kostarýr smábýli, sem eru ekki þeim kostum búin, að þeir, er þar búa, hafi getað aflað sér lífsbjargar af þeim einum, heldur hafa þeir orðið að sækja atvinnu í þann kauptúnshluta, sem á nú að taka undan þeirra hreppi, og hafa stuðzt við þá bjargræðisöflun, sem þeir hafa getað fengið þar á vissum tímum árs. Ég hygg því, að það sé alls ekki útilokað, að til greina gæti komið slíkt samkomulag um breyt. á hreppamörkunum, að þessi smábýli fylgdu þá þessum kauptúnshluta yfir til Blönduóshrepps. Hinsvegar hefi ég ekki næga þekkingu á staðháttum þarna til þess að geta fullyrt um það, en þetta getur verið svo mikið atriði í málinu, að ég tel það eitt næga ástæðu til þess að málið fari heim aftur og væri tekið til athugunar á þessum nýja grundvelli.

Einnig er á það að líta, að sá hreppur, sem nú á að skerða svo verulega, að taka af honum nærri helming þeirra tekna, sem hann hefir hingað til haft af útsvörum, hann mundi naumast geta staðið undir sínum byrðum sem sérstakt hreppsfélag, þegar hann hefir þannig með ofbeldi verið sviptur nærri helming tekna sinna, því að þessi hreppur liggur þannig, að mikill hluti hans er harðindapláss, og einn hluti hans, Laxárdalur, er nú að fara í auðn. Ég veit ekki betur en að á síðasta ári hafi þar 3 jarðir farið í eyði. Annar hluti hreppsins er einnig mikil harðindasveit og hefir erfiða aðstöðu. Það eru því nokkrar horfur á, að þar verði ekki margir gjaldendur, sem geta nokkra byrði borið, heldur þurfi miklu fremur að verða hinum hreppshlutunum til byrði.

Þegar svona er ástatt, að þannig á með ráni og ofbeldi, án þess að aðilinn sé kvaddur til umsagnar, að taka af honum eigu hans, þá kemur til greina þriðji aðilinn, þegar að því getur verið stefnt, að eitt hreppsfélag verði svipt sínum tekjum, eða tekjuöflunarmöguleikar þess skertir svo, að vafi leikur á, hvort hreppsfélagið er fært um að standa sem sjálfstæður hreppur, en þessi þriðji aðili er sýslunefnd. Sýslunefndin er vitanlega sjálfsagður aðili, því að á hennar bak getur komið að ráða fram úr þeim vandræðum, sem af sameiningunni getur leitt fyrir annað það hreppsfélag, sem hér á hlut að máli. En það kemur hvergi fram, að sýslunefndin hafi átt kost á að láta álit sitt í ljós. Þetta sýnir átakanlega, hve frámunalega illa málið er undirbúið, þegar gengið er framhjá slíkum aðilja. Það er því ekki aðeins óvanalegt, heldur með öllu óforsvaranlegt af Alþingi að taka sér húsbóndavald í þessu máli án frekari undirbúnings heima fyrir.

Það eina skjal í þessu máli, sem ef til vill væri eitthvert mark takandi á, fljótt á litið, eru undirskriftir til Alþingis frá kjósendum í Blönduóskaupstað, norðan Blöndu. En þeir segja hvorki af né á, því að áhöld eru um, hvort fleiri hafa tjáð sig þar með eða móti sameiningunni, og sumir skrifað undir hjá báðum, og aðrir hafa látið í ljós, að sameiningarmenn hafi flekað þá til að skrifa undir. Það plagg verður því sízt til þess að réttlæta sameininguna.

Mig langar ekki til að eiga í útistöðum við hv. sessunaut minn og er ekki vanur því, en ég get ekki annað sagt en að ég var alveg forviða á þeim ummælum hans, að það væri að fara í geitarhús að leita ullar, að senda málið heim í hérað aftur til frekari upplýsingar. Ef þetta er skoðun allmikils þorra þingmanna, til hvers er þá eiginlega verið að hafa hreppsnefndir og sýslunefndir? Er þá ekki sjálfsagt, að Alþingi taki öll sveitar- og sýslumálefni í eigin hendur og íbúarnir séu að engu kvaddir til ráða um þeirra eigin mál?

Þá sagði hv. þm., að ekki væri til neins að samþ. Í þessari deild að vísa málinu heim í hérað aftur til forsvaranlegs undirbúnings, af því að Nd. væri því mótfallin. Ég verð nú að segja það, að ég hefi þann metnað fyrir hönd þessarar deildar, að ég álít, að þessi d. geti vel leyft sér í ekki stærra máli en þessu að hafa sjálfstæða skoðun og aðra en Nd.

Hv. þm. sagði, að það gæti orðið til að hleypa enn meiri úlfúð á málið, að leyfa hlutaðeigandi aðiljum að láta í ljós umsögn um það, áður en það gengi fram. Ég held nú alveg hið gagnstæða. Ég tel víst, að það mundi einmitt vera sýslunefndinni keppikefli að leysa málið þannig að bæði þau hreppsfélög, sem hún á að gæta hagsmuna fyrir, megi vel við una. En ég held, að sýslunefndin líti svo á, að með þessu frv. sé ekki stigið spor í þá átt, með því að stofna til þess að steypa öðru hreppsfélaginu í örbirgð, og ef sú yrði skoðun sýslunefndar, verður Alþingi auðvitað að taka tillit til þess. því mælir allt með því, að málið eigi ekki að afgr. á þessu þingi, heldur eigi að vísa því heim.