02.12.1935
Efri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Hv. 10. landsk. hefir nú gert grein fyrir hinni rökst. dagskrá sinni. Aðalröksemd hans er sú, að málið sé ekki nægilega undirbúið heima í héraði. En það eitt, sem vantar þar á, hlýtur þá að vera það, að málið hefir ekki legið formlega fyrir sýslunefnd. Því allt bendir til þess, að málið hafi verið ýtarlega rætt af íbúum Blönduóshéraðs og hreppsnefnd Engihlíðarhrepps, eins og líka er skýrt tekið fram í grg. En vegna þess að ekkert samkomulag hefir náðst, hafa íbúar Blönduóss tekið það til bragðs að leita úrskurðar Alþingis. Og það er einmitt oddviti sýslunefndar, sem er fyrsti flm. málsins í Nd. Mætti ætla, að því væri treystandi, að hann gengi ekki lengra í þessum efnum en sæmilegt er. Hinsvegar má telja víst, að ef málinu yrði vísað til sýslun. eins og hún nú er skipuð, kæmi þaðan sama neitunin og frá hreppsnefnd Engihlíðarhrepps. En ef Alþingi telur sameininguna réttmæta, til hvers er þá að vera að leita til sýslun., sem rökstyður neitun sína með sömu rökum og hreppsnefndin.

Hann sagði, að ekkert lægi fyrir um þetta mál frá hreppsnefnd Blönduóshrepps. Þetta er rétt. En hreppsbúar hafa kosið sérstaka nefnd á almennum hreppsfundi til að vinna að sameiningunni og þar með losað hreppsnefndina við afskipti af málinu. Þetta kemur allt skýrt fram í grg. frv.

Þá sagði hv. 10. landsk., að hugsanleg gæti verið víðtækari breyt. á sameiningunni, t. d. það, að leggja jarðir í Engihlíðarhreppi undir Blönduóshrepp. En um slíkt liggur engin ósk fyrir frá íbúum Engihlíðarhrepps né öðrum. nema um hluta af landi jarðarinnar Ennis. Þetta eru því aðeins tilraunir til blekkingar. Hann segir, að þessi kot, sem um er að ræða, séu svo lítilfjörleg, að tæplega sé hægt að búa á þeim og ábúendurnir verði því að leita sér atvinnu í kauptúninu. Þeir hafa gert þetta hingað til, og er ekki sýnilegt annað en að fullkomið frjálsræði sé til þess hér eftir, og að þeir geti því dregið fram lífið á sama hátt og áður. Hv. þm. tæpti jafnvel á því, að taka allan Engihlíðarhrepp og leggja hann undir Blönduós. Hann sagði þetta þó ekki berum orðum, enda býst ég við, að hvorugur hreppurinn óski eftir slíku, né heldur sýslunefnd.

Þá kom hann að því, sem er aðalþrætueplið, en það er tekjumissir Engihlíðarhrepps. Það er rétt, að sá hreppur hefir haft allmiklar tekjur af þeim hluta kaupstaðarins, sem er norðan Blöndu, bæði af verzlunarrekstri þar og kvennaskólanum sem er starfræktur sem gistihús á sumrum. Ég hefi áður sýnt fram á það, að öll sanngirni mælir með því, að kaupstaðurinn ráði yfir þeirri lóð, þar sem mestöll verzlun og starfræksla í kaupstaðnum fer fram, því sem kunnugt er, er kaupfélagið þar langstærsti vinnuveitandinn. Sameiningin verður því að fara fram, þótt það verði ekki með öllu sársaukalaust fyrir Engihlíðarhrepp.

Blönduóskaupstaður myndast fyrst 1875, en fær kaupstaðarréttindi 1914. Þá var engin brú komin á Blöndu til að tengja saman kaupstaðarhlutana, og því var hin gamla skipting látin haldast. En með brúnni varð sameiningin kleif og sjálfsögð.

Þá sagði hv. þm., að vafasamt væri, hvort Engihlíðarhreppur stæðist einn eftir þennan tekjumissi. Ég skal ekki um þetta deila, en mér er sagt, að sá hreppur sé nú einhver bezt stæði hreppur innan sýslunnar. Og úr því að hann á að fá fullar bætur fyrir það tjón, er hann kann að bíða af sameiningunni, eftir mati, þykir mér ótrúlegt annað en hreppurinn standist a. m. k. næstu árin.

Mér finnst viturlegast í þessu máli, að Alþingi gerist dómari í því, úr því að ljóst er orðið, að aðiljar geta ekki komið sér saman, svo ekki kvikni út af því meiri eldur í héraði en orðið er. Hingað til hafa deilurnar ekki náð nema til nánustu aðilja. Og ég býst við, að meiri hluti héraðsbúa kæri sig ekki um að fá málið heim í hérað aftur til að kveikja þar nýjan og víðtækari ófrið.

Hv. þm. fór að hártoga það, sem ég sagði um fylgi Nd. um málið. Ég minntist á þetta til að sýna, hvílíkt fylgi málið hefði, þar sem einnig er víst, að fylgi þess er mikið í þessari deild.