02.12.1935
Efri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

2 fylgismenn þessa frv. hafa nú tekið til máls og fært fram rök fyrir málinu frá sínu sjónarmiði.

Hv. 1. þm. Skagf. lagði áherzlu á það, að Engihlíðarhreppur ætti að fá bætur fyrir sinn stórkostlega tekjumissi, og gaf jafnvel í skyn, að við þær bætur, sem hreppurinn ætti að fá, mundi hann sætta sig sæmilega við þetta frv. En ég get upplýst hv. þm. um það, að til þess að Engihlíðarhreppur þættist hafa tryggingu fyrir því, að hann fengi þær bætur, sem hann væri ánægður með, þá vildi hann, að ákv. í 4. gr. um bætur skyldi vera ákveðið fyllra heldur en það er nú. Þó að talað sé um bætur, þá getur það jafnan verið álitamál, hvað séu fullar bætur, og því vildi hreppsnefnd Engihlíðarhrepps, að þetta ákv. væri skýrara heldur en það er nú.

Þá vildi hv. 1. þm. Skagf. halda því fram, að þó undirbúningur málsins virtist lítill heima í héraði, þá væri hann samt ekki svo lítill. Það má vera, en það er ekkert upplýst í því máli. Það eina, sem upplýst er, er það, að annar hreppurinn a. m. k. er gersamlega mótfallinn þessari sameiningu og að sýslunefnd hefir ekki verið gefinn kostur á að láta í ljós álit sitt, og er þó sýslunefnd svo beinn aðili sem verið getur í slíku máli sem þessu. Hv. þm. var líka að ympra á því, að hann þekkti þessa sýslunefndarmenn, sem hér væri um að ræða. Það má vel vera, að hann þekki þá meira en ég, því ég þekki þá ekki alla. Og hann sagði einnig, að það væri vitað mál, að oddviti sýslunefndar væri málinu fylgjandi. Ef það er víst, sem og er, að oddvitinn er málinu mjög stranglega fylgjandi, og hann hefir þess kost betri heldur en allir aðrir sem oddviti sýslunefndar að flytja málið einmitt frá sjónarmiði Blönduósbúa, og ef sýslunefndin fer á móti málflutningi slíks manns, þá verð ég að telja, að eitthvað sé athugavert við málið. Og ég verð að telja það aðdróttun í garð sýslunefndar, ef hún tekur ekki til greina slík rök, sem vænta má að fram komi af hendi þess málsvara.

Hv. 1. þm. Skagf. hélt því fram, að það væri geysilega mikill hægðarauki fyrir þessa kauptúnshluta að sameinast. Það er nú svo hvert mál sem það er virt. Það hafa verið talin upp í fylgiskjali sameiningarnefndarinnar mörg atriði, sem skipta svo miklu máli, að kauptúnshlutarnir séu sameinaðir, svo sem fátækramál, fræðslumál, heilbrigðismál, kirkjumál og lögreglumál og annað slíkt, en hreppsnefnd Engihlíðarhrepps hefir nú látið í ljós og sent Alþ. skoðun sína á þessu máli, og mér virðist svo sem að hún hafi svarað þessum atriðum, sem hér eru fram tekin, mjög greinilega og að þar standi fátt óhrakið eftir. Hreppsnefnd Engihlíðarhrepps hefir m. a. bent á það, að að sumu leyti geti sameiningin verið til óþæginda fyrir þann kauptúnshluta, sem er norðan við Blöndu, svo sem eins og með not af afréttum o. fl. Og það er auk þess komið í ljós og sannað af hreppsnefnd Engihlíðarhrepps, að ef kauptúnshlutinn, sem er norðan Blöndu, fær þau landréttindi, sem hann þarf að fá í landi jarðarinnar Ennis, þá mun það vera meiri hl. þess kauptúns, sem óskar ekki eftir sameiningunni.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um það, að smábændunum á kotunum í Engihlíðarhreppi væri veitt trygging fyrir því, að þeir fengju að njóta vinnu í kauptúninu áfram. En ég verð nú að segja það, að það skjal, sem hv. frsm. las upp, gefur ekki næga tryggingu í þessu efni, því það er ljóst af því, sem hann las upp, að ef um nokkra tryggingu er að ræða, þá er hún aðeins bundin við núv. ábúendur á þessum smábýlum og þá, sem nú eru í verklýðsfélaginu; en tryggingin er engin, ef ábúendaskipti verða á þessum smábýlum. Það er ekki heldur í þessari yfirlýsingu verklýðsfélagsins kveðið sterkara að orði en svo, að ekki sé sjáanlegt, að þetta þurfi að vera þessum smábændum neitt til meins, og sjá allir, að þar er ekki einu sinni um loforð að ræða. Auk þess get ég bent á það, að þó verkalýðsfélagið vildi reynast svo frjálslegt að veita þessum smábýlismönnum í Engihlíðarhreppi vinnu með sér í kauptúnshlutanum norðan Blöndu, þá getur komið til greina annar aðili, sem fyrirbyggi það, því þess eru mörg dæmi, að hreppsnefndir í kauptúnum, ekki síður en bæjarstjórnir, hafi gert ýmsar ráðstafanir til þess að útiloka utanbæjarmenn frá vinnu. Og það er alls ekki útilokað, að þegar þessir kauptúnshlutar eru sameinaðir, þá geti hreppsnefndin í því sameinaða kauptúni útilokaði smábændur í Engihlíðarhreppi frá því að njóta vinnu í Blönduóskauptúni.

Þá var hv. frsm. að tala um það, að ég hefði haft eftir sér, að sýslunefndin hefði ekkert vit á þessum málum. Ég man nú ekki eftir því að hafa komizt þannig að orði, en það má náttúrlega gá að því hjá skrifurunum. En það var annað, sem hann var að geta í skyn, sem sé það, að meiri hl. sýslunefndarmanna væri flokksbræður mínir, sem ég veit ekkert um. Hv. frsm. virðist vera fróðari um það heldur en ég. Og þá var hann einnig að tala um það, að þó sýslunefndarmennirnir hefðu vit á þessu máli og vildu afgr. það eftir sínu höfði, þá væru mjög litlar líkur til þess, að þeir mundu greiða atkv. eftir sinni skoðun, heldur greiða atkv. á móti frv. af því að þeir væru flokksbræður mínir. Ég vil segja, að þetta sé harður áburður á sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, að hún greiði með köldu blóði atkv. á móti sinni eigin sannfæringu, aðeins af flokkslegum ástæðum, og vil ég vísa þessum áburði hreinlega heim til föðurhúsanna.