06.12.1935
Efri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Bernharð Stefánsson:

Það er lítið, sem ég þarf að taka fram. Ég hefi litið svipað á málið og hv. 10. landsk. og ég greiddi atkv. með dagskrártill. hans, því að mér þykir málið ekki svo undir búið sem átt hefði að vera. Nú er komin fram brtt. frá honum, sem borin er fram til þess að tryggja rétt Engihlíðarhrepps, en ég er ekki jafnsannfærður um, að sú brtt. nái tilgangi sínum; sérstaklega virðist mér vanta ákvæði um það, hvernig eigi að leggja úrskurð á þá reikninga, sem koma til greina. Það er talað um í till., að Blönduóshreppur borgi Engihlíðarhrepp bætur fyrir þann tekjumissi, sem hann hefir haft, og þær bætur eiga að svara til þess, að þær gefi með 5% vöxtum þar tekjur, er Engihlíðarhreppur hefir haft að meðaltali síðustu 5 árin af þessum hreppshluta, að frádregnum þeim gjöldum, er hann hefir borið hans vegna.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hv. flm. till., hver á að ákveða, hvað Engihlíðarhreppur hefir borið vegna þessa hluta hreppsins. Þeir halda kannske, að þetta liggi í augum uppi, en ég er ekki sannfærður um, að það liggi svo ljóst fyrir.

Hv. 10. landsk. tók fram, að þó hann væri á móti frv., vildi hann samt gera á því breyt., sem hann teldi til bóta, ef frv. skyldi ganga fram. Ég tek undir það, að ég vil styðja þær brtt., sem eru til bóta, en ég sé ekki, að þessi till. sé það. Hv. þm. talaði um, að till. væri borin fram til þess að kveða nánar á um bætur. Það er að vísu kveðið nánar á um, við hvað skuli miða bæturnar, en hinu er alveg sleppt, hverjir eiga að meta þær.

Mér finnst ómissandi að hafa ákvæði um þetta í 4. gr. Ég efast um, að það liggi ljóst fyrir, hvaða tekjur Engihlíðarhreppur hefir haft af þessu svæði, en þó svo kynni að vera, þá hlýtur að orka tvímælis um þau útgjöld, sem hreppurinn hefir haft í því sambandi. (IngP: Eru ekki til hreppsreikningar?). Jú, vitanlega eru þeir til, en þeir sýna þetta ekki ljóslega. Það þarf að rannsaka framlög til fátækraframfærslu, vegagerða o. fl. o. fl. Er ég viss um, að hv. flm. sjá, að það er margt, sem orkað getur tvímælis, og því nauðsynlegt að ákveða, hvernig skuli skorið úr þeim ágreiningi. Það má vera, að tryggara sé fyrir Engihlíðarhrepp, ef brtt. er steypt saman við 4. gr. frv., en ég held, að það sé misráðið að samþ. brtt., sem fella 4. gr. frv. Ef brtt. verður samþ., þarf a. m. k. að bæta inn í hana ákvæði um, að sýslunefndin skeri þar úr eða önnur stjórnarvöld.